19.08.1919
Efri deild: 34. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Fjármálaráðherra (S. E.):

Háttv. þm. Ak. (M. K.) hefir skilið svo orð mín, að jeg hafi haldið því fram, að háttv. nefnd hafi ekki verið starfi sínu vaxin. Jeg hefi að eins sagt, að nefndin hafi misskilið frv. Það getur komið fyrir alla, sem annars eru starfi sínu vaxnir, að þeir misskilji. Enginn er óskeikull, og þá síst í svona málum, sem útheimta sjerþekkingu.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) kvað mig hafa sagt, að einungis einn maður hjer á landi væri fær um að taka að sjer forstöðu skrifstofunnar og hann væri ófáanlegur til þess. En honum láðist að geta þess, að jeg taldi þess vegna sjálfsagt, að sá, sem fengi forstöðumannsstarfann, færi utan til þess að kynna sjer skipamælingar. Það er auðvitað mikils um vert, að vel takist valið á þessum manni. Hver muni eiga að útnefna hann er ekki enn fyrirsjáanlegt, því eftirmaður minn er enn ekki ráðinn. En slíkt ættu háttv. þm. ekki að setja fyrir sig. Það er svo ætíð um embættaveitingar, að stjórninni verður að treysta til þess að ráða fram úr þeim. Hjer er ekki lagt meira á hættu en um allar aðrar embættaveitingar. Hvort sem farin verður sú leið, að sameina margar skrifstofur, eða hin, sem farin er í frv., að setja á stofn sjerstaka skrifstofu, þá er það nauðsynlegt að fá hæfan mann, mann sem treystandi sje til að koma á fullkomnu samræmi um skipaskrásetning um alt land.

Mjer skilst á háttv. þm. Ak. (M. K.), sem honum sje kostnaðaratriði þessa máls ekki aðalatriðið, heldur hitt, að málinu sje komið í gott horf. Þá er orðið stutt á milli okkar, verð jeg að segja. Ef ekki er að sjá í kostnaðinn, hvaða ástæða getur þá verið á móti því, að útvega nú hið bráðasta hæfan mann til þessara starfa? Jeg er sannfærður um, að það verður gert á 1. eða 2. þingi hjeðan í frá, ef það verður ekki gert nú þegar. Rjettlætið stingur altaf upp höfðinu aftur og aftur, hve oft sem það er fært í kaf.