19.08.1919
Efri deild: 34. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Jeg skal ekki bæta mörgu eða miklu við. Það voru að eins nokkur atriði í ræðu hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) í gær, sem jeg vildi athuga, og sumt af því hefir hann nú í dag endurtekið.

Fyrst er það, að hann ber nefndinni á brýn misskilning. Það er altaf óþægilegt að fá það framan í sig, að maður hafi misskilið augljós atriði, en það er hægri eftirleikurinn, og verður nú varla talin ókurteisi af mjer, þótt jeg beini því aftur til hæstv. fjármálaráðherra, að aðalmisskilningurinn liggur hjá honum sjálfum, en ekki hjá nefndinni. Misskilningur hans er sá, að hann vill lækna sjúka trjeð í toppinn, en við nefndarmenn viljum lækna það í rótina. Þetta á við alla heildarskoðun hæstv. fjármálaráðherra á málinu. En hvað því viðvíkur, að við nefndarmenn höfum misskilið frv. svo, að endurskoðun ætti eftir sem áður að vera fyrir utan skrifstofu þá, er um ræðir í 4. gr., þá skal þess getið, að endurskoðunin er alstaðar fyrir utan slíkar skrifstofur. (Fjármálaráðh.: Svo!). Já, það hefi jeg fyrir satt. (Fjármálaráðh.: Jeg get sannað það gagnstæða). Það þýðir ekki að munnhöggvast um það; það yrði ekki úr því annað en „klipt og skorið“. Aðalstarf slíkra skrifstofa er að taka við plöggum, sem viðkoma skrásetning, og ganga frá skrásetningar- og þjóðernisskilríkjum.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) kvaðst ekki ásaka okkur nefndarmenn fyrir misskilninginn. Jeg skal ekki heldur ásaka hann. Jeg býst við, sem eðlilegt getur verið, að hann sje ekki nægilega kunnugur þessu máli, að minsta kosti ókunnugri en háttv. þm. Vestm. (K. E.), sem bæði hefir fengist við þessi mál á skrifstofum stjórnarráðsins og eins sem lögreglustjóri.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) endaði ræðu sína með mikilli áherslu á því, að eftir 1–2 þing yrði slík skrifstofa sett á stofn, ef það væri ekki gert nú þegar. Það er jafnan hægur vandi að styðja mál sitt með ágiskunum um það, sem verða muni, en jeg býst við, að nefndin geti með meiri rjetti en hann dregið stóra víxla upp á framtíðina, ef út í það á að fara, og tel eins óyggjandi, að sagt muni á 1. og 2. þingi hjeðan í frá og kann ske enn lengur, að gott hafi verið, að ekki var farið að ráðast í þessar óþörfu embættis- og skrifstofustofnanir.