13.09.1919
Neðri deild: 63. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Það var vitanlegt, að hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) vildi halda þessu með skrásetningarskrifstofuna fram, úr því að hann á upptökin að því. Nefndin ræddi þetta allítarlega og hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) kom á fund til hennar og skýrði henni frá, hvað fyrir honum vekti. En þrátt fyrir það gat nefndin hefir sannfærst um nauðsynina á að setja að svo stöddu slíka stofnun á fót, sem kostaði mikið fje. Og þeir gallar, sem eru á skrásetningunni, verða ekki betur bættir með því, að setja á stofn slíka skrifstofu, eins og bent er á í nefndarálitinu. Hjer eru til menn, sem hafa vel vit á þessu máli, t. d. Þorkell Þorkelsson, umsjónarmaður voga- og mæliáhalda. Og nefndinni datt í hug, að til mála gæti komið, að hann athugaði þetta mál og gæfi leiðbeiningar á ferðum sínum út um land, til eftirlits með mæli- og vogaráhöldum, og er að líkindum ekkert því til fyrirstöðu, að þetta hvorttveggja eftirlit geti vel farið saman. Aðalgallinn á skrásetningunni er sá, að frummælingarnar eru ekki rjettar. Jeg hefi átt tal við Þorkel Þorkelsson um þetta og hann er nefndinni samdóma um það, að óþarft sje að setja á stofn sjerstaka skrásetningarskrifstofu að svo stöddu. Starfið er ekki svo mikið enn, að ekki sje hægt að hafa aðaleftirlitið og endurskoðunina innan vjebanda stjórnarráðsins. Og þeir, sem önnuðust það og þekkingu hefðu á því, mundu geta lagfært það, sem nú er ábótavant í því efni, smám saman í hendi sjer. Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) sagði, að það þyrfti að senda mann út, til þess að fullkomna sig í þessu. En það finst mjer vera hæpin ályktun, sem oft klingir við, að menn þurfi ekki annað en skreppa út fyrir pollinn til þess að verða fullkomnir í hinu og þessu.