26.07.1919
Neðri deild: 17. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

29. mál, siglingalög

Fjármálaráðherra (S. E.):

Breytingar á þessum lögum eru sjálfsagðar og nauðsynlegar vegna fullveldisins og leiða af því. En á skilyrðunum til þess að eignast íslensk skip er þó gerð nokkur breyting, sem ekki stafar beint af sambandslögunum. Þar eru sett þau skilyrði, að eigendurnir skuli hafa eins árs heimilisfestu á Íslandi. Þótti ekki ástæða til að hafa búsetuna styttri, því að svo var talið, að með því væri útlendingum gert það auðvelt að flytja flota sinn hingað, og koma miklu af honum undir íslenskan fána með litlum fyrirvara, en af því gæti leitt óþægindi. Undanþága um það, að heimila stjórninni að veita stjórnum hlutafjelaga sjerstaka undanþágu undan búsetuskilyrðinu, hefir ekki verið tekin upp.

Í hv. Ed. hefir aðallega verið gerð ein breyting frá stjórnarfrv., að þau skip, sem hafa verið löglega skrásett sem íslensk skip fyrir 1. desember 1918, þurfa ekki að strikast út úr skránni, þó að skilyrðunum um búsetu og heimilisfang sje ekki fullnægt.

Jeg leyfi mjer að stinga upp á því, að máli þessu sje vísað til sjávarútvegsnefndar að lokinni umr.