07.07.1919
Neðri deild: 1. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Forsætisráðherra (J. M.):

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um frv. þetta. Það var óhjákvæmilegt að taka stjórnarskrána til meðferðar og semja nýja, enda þótt ekki hafi verið með frv. þessu gerðar margar verulegar breytingar á því skipulagi, sem nú er.

Hitt er auðvitað, að þegar ríkið er viðurkent fullvalda, þá verður stjórnarskipunin að byggjast á öðrum grundvelli en stjórnarskráin hefir gert undanfarið.

Nú setur hið íslenska konungsríki stjórnskipunarlög af fullveldi sínu og um öll mál. Áður voru aðalstjórnskipulög vor, stjórnarskráin frá 1874, bygð á stöðulögunum, en þar er Ísland talið hluti úr hinu danska ríki, að eins greind frá tiltekin mál, er Ísland stjórni sjálft, en hinum málunum átti danska ríkisvaldið að ráða.

Frv. þetta var ekki fullbúið, er fjármálaráðherra (S. E.) fór af landi burt í vor, og hefir hann því ekki haft tækifæri til að taka þátt í tilbúningi allra breytinganna.

Breytingarnar eru að vísu ekki margar, og er það með vilja gert. Það þótti ekki rjett að taka upp margar breytingar, sem ætla mætti að verða mundu deiluefni, þar sem stjórnarskrárbreytingin þarf að komast á sem fyrst.

Auðvitað eru hjer tekin um ýms ný ákvæði, en fæst svo, að valda þurfi neinum deilum.

Skal jeg ekki nú fara út í allar breytingarnar, enda munu háttv. þingdm. þegar hafa sjeð þær; er gerð nokkur grein fyrir þeim í athugasemdum frv.

Að eins skal jeg minnast á fáein atriði.

Tala ráðherra er nú sem stendur lögákveðin, en það virðist rjettara að hafa þá tölu ekki fastákveðna, heldur láta það vera undir konungsúrskurði komið. Með því var þó alls ekki haft í huga að fjölga ráðherrum, heldur hitt frekar, að nægilegt mundi t. d. reynast að hafa að eins tvo ráðherra milli þinga, ef sjerstaklega stæði á.

En það er mjög efasamt, hvort slíkt væri leyfilegt, ef núgildandi lög um það efni fengju að standa.

Jeg býst ekki við, að nein hætta sje á því, að ráðherrum verði fjölgað án vilja þingsins.

Það þótti sjálfsagt að stofna íslenskt ríkisráð, og er um það ákvæði í frv.

En það þykir ef til vill undarlegt að halda ríkisráðsfundi með einum ráðherra, en svo verður nú þó að vera. Þá er gert ráð fyrir, að ráðherrafundir skuli einnig haldnir, og í sambandi við það settar reglur fyrir því, hvernig með málin skuli farið.

Það þótti einnig sjálfsagt að gera ríkisborgararjett að skilyrði fyrir embættisveitingu.

Þá er eitt atriði, sem jeg býst ekki við að sæti neinum mótmælum. En það er, að Alþingi skuli haldið á hverju ári. Reynslan hefir orðið sú, að mestan hluta þess, sem af er þessari öld, hefir Alþingi verið haldið árlega. Þessa virðist líka full þörf, einkum vegna fjárlaganna, því að ólíkt mun reynast betur að gera fjárhagsáætlun fyrir að eins eitt ár í senn.

Kosningarrjettur til Alþingis er bundinn við ríkisborgararjett; að vísu er sá rjettur einnig fyrir Dani, en ekki getur það haft neina hættu í för með sjer.

Þá vil jeg biðja háttv. þm. að leiðrjetta tvær prentvillur, sem slæðst hafa inn í frv.

Önnur er sú, að greinartalan næst á eftir 76. gr. er 78, en á auðvitað að vera 77. Hin er í 1. línu 2. málsgr. í 76. gr. frv. Þar stendur: „breytinguna“, en á að vera: „breytingu“.

Jeg finn svo ekki ástæðu til að halda lengri ræðu um frv. að þessu sinni. Jeg tel víst, að þessari umr. verði frestað og málið sett í nefnd.

Það mun vera rjettast að kosin verði sjerstök nefnd í málið, og vil jeg gera það að till. minni, að kosin verði fimm manna nefnd.