29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (1301)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Pjetur Jónsson:

Það er ekki svo að skilja, að jeg álíti, að svo mikið eigi að hafa við, að skoða mig og hv. 1. þm. Eyf. (St. St.; sem minni hluta í nefndinni. Nefndin er óklofin, og því ekki rjett að tala um minni hluta, nema að eins um eitt atriði.

Annars verð jeg að biðja háttv. þm. að meta ekki málstað minn eftir framsögu minni. Þeir, sem eru í meiri hluta um búsetuskilyrðið, eru alt þaulvanir þingmenn og þá sjerstaklega í þessu máli, stjórnarskrármálinu. Þeir eru bæði orðfimir og jafnvígir á hverja höndina sem þeir glíma og hvort sem málstaður er góður eða ekki. Við flutningsmenn þessarar till. erum aftur á móti óvanir þessum stórmálum. Jeg t. d. hefi ekki talað í stjórnarskrármálinu, svo jeg muni, síðan á þinginu 1895, og hefi þó verið í fleiri af stjórnarskrárnefndunum.

Þessi tillaga mín og hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) verður þá fyrsta umtalsefnið. Við lítum svo á, að með breytingu okkar sje fengið alt eins mikið og það, sem meiri hlutinn vill. Þeir vilja hafa búsetuna 5 ár, en við setjum 2, og frekari skilyrði fyrir að öðlast kosningarrjett viljum við að hægt sje að setja með einföldum lögum. Skilyrðin eru því í sjálfu sjer engu minni trygging. Það, sem verulegur ágreiningur er um, er einungis aðferðin. Við lítum svo á, að það sje ekki rjett að setja svo strangt búsetuskilyrði þegar í stað, og ekki fyr en þörfin knýr til þess. En að þá sje líka hægt í snatri að herða skilyrðin.

Þessi aðferð hefir tvær hliðar; snýr önnur að Dönum, en hin að löndum okkar í öðrum löndum. Um Dani ætla jeg ekki að vera langorður; sú hliðin er ekki höfuðatriðið fyrir okkur. Þó vil jeg fara um það örfáum orðum í sambandi við sambandslögin.

Við höfum tekið það fram í okkar hluta af nál., að við álítum, að við höfum fullkominn rjett til að setja það skilyrði, sem meiri hlutinn fer fram á. En hitt er annað mál, hvort það kemur ekki samt í einskonar bága við sambandslögin, þ. e. í bága við anda þeirra, að skella því á, svona eins og upp úr þurru, þegar í stað. Jeg ætla í þessu sambandi að leyfa mjer, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp 2 kafla úr athugasemdunum við sambandslögin. Fyrri kaflinn er um 6. gr., og hljóðar hluti af honum svo:

„Af þessari gagnkvæmni leiðir það, að afnema verður allar þær takmarkanir, sem nú eiga sjer stað á fullu gagnkvæmu jafnrjetti (svo sem mismun þann á kosningarrjetti, sem kemur fram í 10. gr. stjórnarskipunarlaga Íslands frá 19. júní 1915)“.

Þá er í athugasemdunum við 16. gr. þessi klausa:

„Það hefir náðst fullkomið samkomulag um stofnun og skipun tveggja nefnda, annarar ráðgjafarnefndar, sem hefir það hlutverk að efla samvinnu milli landanna, stuðla að samræmi í löggjöf þeirra og hafa gætur á því, að engar ráðstafanir sjeu gerðar af öðru landinu, sem geti orðið til tjóns fyrir hitt landið“.

Þegar þetta er athugað, þá virðist það höggva nærri jafnrjettinu að hafa þá aðferð, sem háttv. meiri hluti fer fram á; að minsta kosti bendir það ekki á hreina og drengilega afstöðu gagnvart Dönum Það virðist ekki í anda laganna, að farið sje að sperra fót fyrir þá Dani, sem hingað hafa flust í trausti jafnrjettisins. Þeir líta á þetta svo, að það sje gert án nokkurs tilefnis frá þeirra hálfu, og þannig er það einnig. Það er tortrygni að halda, að Danir muni nota sjer það, að þeir eru fleiri og ríkari, og í skjóli sambandslaganna flykkist inn í landið og hafi áhrif á stjórnmál þess. Jeg sje enga ástæðu til þessarar tortrygni, enda hafa Danir hjer ekki eftir mörgu að sækjast. Það lítur út fyrir, að heppilegra og viðkunnanlegra hefði verið, að svo strembið búsetuskilyrði, sem háttv. meiri hluti fer fram á, hefði verið lagt fyrir þessa ráðgjafarnefnd. Þar virðist mjer verkefni fyrir slíka nefnd samkvæmt athugasemdinni við 16. gr. sambandslaganna. Jeg ætla ekki að halda lengra út í þetta; það er ekki höfuðatriðið. En það hlýtur altaf að vera mikilsvert, að við komum drengilega og hreinskilnislega fram gagnvart sambandsþjóð okkar. Það er ekki rjett að láta svo sýnast, sem við höfum verið neyddir til að samþykkja sambandslögin. Við gengum að þeim frjálsir og ótilneyddir. Og það er hæpið, hvort hægt sje að telja það drengilega framkomu að lauma svo löguðu ákvæði inn í stjórnarskrána, þó að það komi líka niður á okkur sjálfum. En ef á því bólaði, að innflutningur Dana færi að verða svo mikill inn í landið, að til óhappa horfði, þá getum við sett þetta skilyrði, og ef það er heimilt með einföldum lögum, getum við rætt ákvæðið í fyllilega tækan tíma, og það haft það eins strangt og okkur líkar. Það þarf ekki annað en setja einföld lög og ákveða þar, hvað búsetan skuli vera löng. Það getur verið, að menn álíti þá, að 5 ár nægi ekki, þegar mikill innflutningur hefst, og er okkar tillaga þá handhægari því það tekur ekki eins langan tíma að breyta búsetunni með einföldum lögum.

Þá er hin hliðin, og hún er þýðingarmeiri. Hún ein væri nóg ástæða til að hafa tilhögun þá, sem við viljum gera með tillögu okkar. Við eigum landa víðs vegar um heim, bæði í Ameríku, Danmörku og víðar. Þeir dvelja svo árum skiftir erlendis, og meiri hluti þeirra mun slíta heimilisfestu sinni hjer. Ef þeir vilja hverfa heim aftur, þá eiga þeir undir högg að sækja. Þið hefir verið og er enn mikil útþrá í landanum. Jeg á hjer ekki við þá útþrá, sem togaði fjölda manns til Ameríku fyrir nokkrum áratugum, heldur gömlu útþrána, það að leita sjer frægðar og frama í öðrum löndum, sumir með þeim einráðna hug að koma heim aftur, aðrir, sem meira eru má ske tvíbentir. Okkur er óneitanlega gróði að því, að menn sæki mentun, menningu og nýja andlega strauma til útlanda, ef þeir koma heim aftur. Að stugga við þeim með 5 ára rjettarmissi er því svo viðsjárvert, að ástæðan til slíks þarf að vera brýn, eða öllu heldur óhjákvæmileg. Þar á móti ef slík hætta er á ferðum, verður að sleppa hlífðinni af þessum löndum vorum til að verja sjálfa oss. En þá raun sumum finnast efasamt, nema 5 ára tímabilið sje of stutt, og verður slíkt metið eftir ástæðum, þegar þar að kemur. Það er þess vegna að minsta kosti eins mikil trygging í okkar till., og hún skaðar ekki sjálfa okkur að óþörfu. Í till. meiri hlutans er veitt undanþága ýmsum mönnum frá því að slíta búsetu hjer við dvöl erlendis, svo sem nemendum og sjúklingum. Jeg veit ekki, hve víðtækt þetta á að verða í reyndinni. Jeg er hræddur um, að ákvæðið nái til fárra, nema það sje teygt svo langt, að nærri stappi broti á sambandslögunum, eða jafnrjettissamningnum. Þetta er tekið fram í okkar kafla í nefndarálitinu, og það er svo ljóst, að ekki ætti að þurfa að fjölyrða um það.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að ýmsu, sem háttv. frsm. meiri hlutans (B.Sv.) sagði. Hann gat þess snemma í ræðu sinni, að þegar 5 ára skilyrðið hafi verið sett í stjórnarskipunarlögin frá 1915 fyrir þá, sem ekki voru fæddir Íslendingar, þá hafi enginn kvartað, og hafi heldur ekki síðan heyrst neitt í þá átt. Það er skiljanlegt, að menn hafi ekki kvartað þá, af því að þetta skilyrði náði ekki til þeirra, sem fæddir voru á Íslandi. Það er skiljanlegt, að mönnum hafi ekki orðið órótt, þó komið væri við þá Dani, sem hingað flyttu eða nýfluttir voru; þá var sem sje engin jafnrjettissamningur kominn á við Dani Ef háttv. frsm. meiri hlutans (B. Sv.) hefði viljað hafa fyrir því að fara lengra en á yfirborðið, þá hefði hann vel mátt taka þetta fram.

Þá gaf háttv. frsm. (B. Sv.) tilefni til að halda, að við litum öðruvísi á ráðgjafarnefndina en þeir hinir. Jeg held, að engin ágreiningur hafi orðið um það, hvernig ber að skilja tilveru og tilgang þeirrar nefndar. Hún er auðvitað að eins ráðgefandi; en hún getur verið málamiðlandi. Vald hefir hún auðvitað ekki. Hún hefir með öðrum orðum að eins tillögurjett; en svo eru þingin sjálfráð um, hve mikið þau leggja upp úr till. hennar. Hún á að vera til þess að reyna að koma á samræmi í löggjöf og miðla málum milli landanna, ef þarf og í það fer. Það getur vel hugsast, að ágreiningur rísi milli landanna, og mundi þá ráðgjafarnefnd að sjálfsögðu reyna að jafna þá misklíð, enda er það beint tekið fram í útskýringum á sambandslögunum. Okkur þótti sanngjarnt og drengilegra, að þetta stranga búsetuskilyrði hefði verið borið undir nefndina, því 5 ára skilyrðið er svo strembið, að eðlilegt er, að það veki óánægju í Danmörku.

Við segjum ekki með þessu, að Ísland eigi að slá af, þegar nauðsyn er að gera þessa ráðstöfun, en það getur vel verið, að nefndin hefði fundið málamiðlunarveg, sem báðum málspörtum yrði til góðs. Og setjum nú svo, að þetta atriði (5 ára búsetan) hefði verið lagt fyrir nefndina og býst jeg þá við, að niðurstaðan hefði orðið eitthvað svipuð og við komumst að, að hafa skilyrðið 2 ár, en færanlegt eftir vild Íslendinga og þörfum, heldur en að slá því föstu þegar í stað, að það skuli vera til 5 ára.

Háttv. frsm. meiri hlutans (B. Sv.) talaði um það, að við hefðum söðlað um, þar sem við viljum ekki 5 ára skilyrðið; en í nál.-kafla okkar tölum við síðar um það, að 5 árin sjeu ekki full trygging, ef í það fer. Við höfum ekkert breytt skoðun, því síður söðlað um í þessu máli. Í byrjun okkar kafla af nál. er lýst skoðun okkar á því, að vjer höfum rjett til að setja það búsetuskilyrði, sem oss sýnist þörf á. En á hinn bóginn sjáum við ekki ástæðu til að hafa búsetuna 5 ár þegar í stað, því með því er ekkert annað gert en að sýna Dönum tortrygni og skaða sjálfa okkur. En ef vanda ber að höndum, viljum við, að hægt sje að vinda bráðan bug að því að byrgja brunninn, og ef 5 ár verða ekki talin næg trygging, eins og virðist skoðun sumra, þá er fljótlegra að setja þá tryggingu fullkomnari eftir okkar till., því óneitanlega er fljótlegra að breyta einföldum lögum en stjórnarskránni. Háttv. frsm. (B. Sv.) sagði, að við viðurkendum, að búsetuskilyrði þyrfti að hafa. Þetta er alveg rjett, við höfum aldrei borið á móti því, kafli okkar í nál. byrjar einmitt á því. En við viljum hafa búsetuna þannig, að hún sje full trygg, en sem minstur skaði að henni fyrir landa okkar. Ágreiningurinn var aldrei um það, hvort við hefðum rjett til að haga þessu þannig, ekki heldur um það, að vera viðbúnir þegar á þyrfti að halda, heldur að eins um, hvernig beri að haga þessu nú, meðan engin hætta er á ferðum.

Þá vildi háttv. frsm. meiri hlutans (B. Sv.) gera lítið úr þeim kafla okkar í nál., sem fjallar um aðsókn Dana til Íslands. Við höldum því fram, að ekkert sje þar að óttast fyrst um sinn. Það er ekki eftir miklu að sækjast hingað fyrir Dani. Ef við athugum fiskiveiðarnar, þá eru litlar líkur til, að Danir fari að flykkjast hingað þeirra vegna. Þeim hefir ekki tekist að reka þær hjer með arði; og Norðmenn og Svíar, sem þó hafa getað haft arð af síldveiðum sínum hjer við land, hafa ekki getað flutt með sjer það fólk, sem þeir hafa þurft á að halda. Þegar þetta er athugað, þá fer hættan að verða lítil af innflutningi Dana til fiskiveiða. Ef litið er á námana. þá verður það sama upp á teningnum. Hjer hefir verið danskt fjelag að reka kolanámu, og höfuðstóll þess fjelags ca. 350 þús., og hefir það nú eytt honum öllum, að sögn, á upp í það eitthvað af áhöldum og getur verið einhvern slatta af kolum. Það er ekki betur stætt en svo, að það sækir um eftirgjöf á 12 þús. kr. skuld, sem á námunni hvílir við viðlagasjóð. Hjer getur varla fyrst um sinn verið um aðrar námur að ræða, sem vinnandi eru. Ja. — nema þá gullnámur (!). Það er vitanlegt, að ef Ísland yrði nokkurskonar Klondike, þá streymdi hingað fólk úr öllum áttum, bæði frá Danmörku og öðrum löndum. En ætli það væri ekki nægur tími til að koma á breytingu í kosningarlögum um lengri búsetuskilyrði á meðan verið væri að grafa betur eftir gullinu!

Það eina, sem nefnt hefir verið í þessu sambandi og komið gæti til mála, er fossaiðnaður. Það hefir ekki verið talið ólíklegt, að hægt væri að fá fje til þessa iðnaðar í Danmörku, og af því er sprottin sú mikla óbeit á innflutningi fólks og fjár, sem nú gerir vart við sig. En nú virðist enginn járnbrautarhraði ætla að verða á framkvæmd þess máls. Jeg þori að spá því, að við getum beðið rólegir í 5–10 ár áður en nokkuð það verður gert í framkvæmda áttina í þessu máli, að innflutningur fólks fari að aukast í stórum stíl. Slíkur innflutningur gengur eigi heldur svo ört, að ekki verði hægt að átta sig á því, setja undir lekan í tíma, og þá er till. okkar fulltrygg. Það er líka heimtuð 2 ára búseta, og oftast stendur svo á, að tíminn mundi verða lengri, eftir því sem kosningar færu fram.

Þá talaði háttv. frsm. meiri hlutans (B. Sv.) um þann kafla í nál. okkar, sem fjallar um aukningu Danmerkur suður á bóginn. Við gátum þess til, að það yrði til að draga úr athygli þeirra og aðsókn hingað á bóginn, en hann heldur þvert á móti, að þeir fyllist svo fjöri og framkvæmdavilja, að þeir sjái sjer allar leiðir færar og vilji auka stafssvið sitt hingað líka. Það má deila um þetta fram og aftur, en þó held jeg að færa megi rök og sterkar líkur að því, að okkar skoðun muni rjettari. Í þeim landshluta suður á bóginn, er Danir fá nú, býr blendingur Dana og Þjóðverja, og verður ekki hjá því komist, að margir þar sjeu af hreinu þýsku bergi brotnir. Danir munu því leggja mikla áherslu á, að dönsk áhrif fái þarna yfirhönd, og munu ósparir að leggja þar í framkvæmdir, — stuttu máli, gera sitt ítrasta til að nema þar land dönsku þjóðerni, og til þess þurfa þeir bæði fólk og fje. Þarna, sem annarsstaðar, eru lítt ræktuð svæði til innan um, svo að verkefnin eru nóg.

Þá hefir það verið borið fram, að tryggingin með okkar tillögu væri lítil, að því leyti, að breyta mætti aftur ákvæðinu með einföldum lögum. Þá mætti eins færa það til baka á sama hátt og lengt var. Jeg skal játa það, að þeir, sem ekkert byggja á framtíðinni og óttast, að þeir, sem síðar koma, verði okkur langtum heimskari og óþjóðræknari, geta komið með þessa röksemd. En þá fer trygging hinna líka að rjena, því að stjórnarskráin er ekki óbreytileg, þó breytingar hennar taki lengri tíma en annara laga. En við verðum hjer, sem annarsstaðar, að treysta framtíðinni, því án þess er alt starf okkar hjer hjegóminn einber.

Nú hefir háttv. meiri hluti haldið því fram, að á því væri ekki mikill munur, hvort þetta búsetuskilyrði væri sett með einföldum lögum eða með stjórnarskrárbreytingu. En þá mætti eins segja, að tryggingin fyrir festu ákvæðisins væri ekki mikið meiri, þó 5 ára búsetan væri sett í stjórnarskrána. Jeg held, að við minni hluta menn sjeum sammála um það, að við þorum vel að treysta framtíðinni, ef við að eins leggjum vel til hæfis og gerum henni ekkert til skaða í þessu efni, en látum hana hafa alveg frjálsar hendur. Ef við hins vegar ættum að fara að bera umhyggju fyrir framtíðinni svona nákvæmlega í hverju atriði, þá veit jeg ekki, hvar ætti að byrja eða enda, og hvað mikið þingið mundi komast yfir. Víst er um það, að þá fengi þingið nóg að gera. Á ýmsum sviðum getur framtíðin spilt sjálfstæði okkar bæði efnalega og stjórnskipulega, ef illa er að farið. Og hvað eiginlega megnum við að setja undir þann leka fyrirfram? Jeg skal svo ekki fjölyrða meir um þetta nú.

En svo er atriðið í brtt. okkar hv. 1. þm. Eyf. (St. St.), sem jeg ætla rjett að víkja að, en hefi eigi gert áður. Till. er sem sje á þgskj. 557, og er við brtt. stjórnarskrárnefndar á þgskj. 504, og hljóðar svo: „og verið búsettir í landinu síðustu tvö árin áður en kosningar fara fram. Setja má með lögum frekari skilyrði fyrir kosningarrjetti, þar á meðal lengri búsetu í landinu“. Með orðunum „frekari skilyrði“ vakti fyrir okkur það, sem oft hefir komið til orða meðal manna, að rjett væri að geta sett einhver prófskilyrði fyrir kosningarrjetti, þannig að hægt væri að ganga úr skugga um það, að sá maður, sem hefir rjett til að kjósa, sje með fullu viti og sje að minsta kosti bæði læs og skrifandi, og fullnægi máske fleiri þekkingarskilyrðum, svo að hann teljist hæfur til að hafa þennan rjett. Okkur hefir fundist hægra að koma slíkum ákvæðum fyrir í kosninglögunum heldur en að setja þau í stjórnarskrána. Kosningarskilyrði í sjerstökum lögum eru alls ekki einsdæmi; þau finnast talsvert víða.

Það bólar enn fremur á þessari hugsun í einni brtt. hjer á þgskj. 64, „að tala og rita íslenska tungu stórlýtalaust“. Það kann að vera, að þetta þætti nærgöngult við jafnrjettið, því sennilega mundi það ekki koma niður á Íslendingum sjálfum; þeir eru varla svo málhaltir, að þeir geti ekki uppfylt þetta skilyrði. En eins og kunnugt er, þá er sá galli á frændum okkar Dönum, að þeir eiga erfitt með að læra að tala íslensku stórlýtalaust. En hins vegar mætti orða þetta skilyrði á annan hátt. Ef þekkingarskilyrði eru sett, þá mega þau ekki miðast við það eitt, að útiloka Dani, sem sjaldan tala íslensku stórlýtalaust.

Jeg skal svo ekki fara neitt út í einstakar brtt. Það gerir hv. frsm. meiri hlutans (B. Sv.). En má ske minnist jeg seinna eitthvað á brtt. á þgskj. 556, sem jeg er meðflutningsmaður að.