29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (1302)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg ætla sjerstaklega að tala um brtt. nefndarinnar. Hins vegar mun jeg ekki fara neitt út í aðrar brtt. að svo komnu.

Nefndin hefir ekki breytt þessu frumvarpi stjórnarinnar í mörgum atriðum, og segir hún það enda sjálf. Hún þykist hafa fært frumvarpið til betra máls víða. Um það má auðvitað deila. Satt að segja finst mjer sumar af þessum orðabreytingum nefndarinnar vera óþarfar. Annars skal jeg lítinn dóm leggja á það, hvaða breytingar beri að samþykkja. Sumar bæta má ske málið dálítið.

Um efnisbrtt. vil jeg geta þess, að jeg býst við, að það sje vafasamt, hvort skilja beri við 4. brtt. nefndarinnar annað en að það sje orðabreyting.

Jeg skal að vísu játa, að það kann að vera, að orðið „nafnsett“ sje ekki sem allra heppilegast. En auðvitað var það með vilja sett í staðinn fyrir „undirritað“. Það er ekki jeg, sem hefi fundið þetta orð, heldur gerði annar maður það, sem tekur mörgum fram í kunnáttu í íslenskri tungu. En þetta var sett vegna þess, að ekki er gert ráð fyrir, að ráð herra geri annað en „meðundirrita“, en að konungur aftur „undirriti“. Meiningin var sú, að gera greinarmun á þessu tvennu. Það er vitanlegt, að eins má nota orðið „undirrita“, því í rauninni er hið sama meint með báðum orðunum.

Í 5. brtt., við 14. gr., er ætlast til, að orðin „svo sem með því að undirrita“ til enda greinarinnar falli burtu.

Þetta er mjög lítil efnisbreyting, sem hvorki gerir til eða frá. Og finst mjer, að henni hefði mátt sleppa. Enda hefi jeg ekki heyrt hv. frsm. meiri hlutans (B. Sv.) gera neina grein fyrir henni á neinn hátt. Ef nefndin hefir einhverjar ástæður fyrir þessari brtt., sem jeg býst við að hún hafi, þá eru þær mjer huldar.

7. brtt., liður a., að á eftir orðinu „eið“ komi „drengskaparheit“. Jeg ímynda mjer, að það hafi vakað fyrir nefndinni, þegar hún setti þetta brtt., að í lögum hjá okkur er fallið burtu orðið „eiður“, en „drengskaparheit“ komið í staðinn. Meiningin er sú sama; einungis var „eiður“ notað áður fyr. Má ske hefði mátt sleppa orðinu „eið“, en láta „drengskaparheit“ nægja. Seinni brtt., b-liðurinn, er aftur á móti sjálfsagt til bóta.

Jeg hefi í rauninni ekkert að athuga við 17. gr. En þó er þar gerð lítil breyting, sem veldur því, að greinin verður ekki alveg eins skýr og hún er eftir stjórnarfrumvarpinu. Þar stendur: „Konungur stefnir saman reglulegu Alþingi ár hvert og ákveður, hve nær því skuli slitið. Þinginu má eigi slíta fyr en fjárlög eru samþykt.“ Þessi fyrri partur er eins og í stjórnarfrv. En seinni parturinn: „Konungur getur og kvatt Alþingi til aukafunda“, er tæplega nógu skýrt orðaður.

Þar sjest ekki á orðalaginu, að konungur ráði líka, hve nær því þingi skuli slitið. Aftur er það skýrt tekið fram í 18. gr. stjórnarfrv., sem ætlast er til að falli burtu. Jeg hefði talið heppilegra, að þessi grein hefði fengið að standa. Auðvitað dettur engum lögfræðingi í hug að skilja þetta öðruvísi en að það eigi við bæði þingin. En það hefði gjarnan mátt segja það berum orðum.

Um brtt. við 19. gr., að í staðinn fyrir 4 vikur komi 2, er það að segja, að jeg skil ekki, að ástæður sjeu til þess að breyta þessum 4 í 2. En hina brtt., við 20. gr., að breyta 12 mán. í 8, get jeg vel felt mig við.

Viðvíkjandi 21. gr., og hvernig nefndin vill skilja fyrra atriði hennar, held jeg að betur færi á, að hún kæmi með beina brtt. við greinina. Jeg held, að varla sje fært að krefjast þess af konungi, að hann gefi alment leyfi til þess að leggja fram stjórnarfrumvörp. Eftir þeim reglum, sem tíðkast annarsstaðar, mundi þetta teljast ókleift. Jeg lít svo á, að þessi athugasemd sje komin fram af vangá hjá nefndinni. Enda er þetta algerlega óþarft. Það eru margir aðrir vegir til að komast fram úr þessum vandræðum, sem nefndinni hefir vaxið í augum. Jeg álít, að þetta hafi ekki verið fullhugsað. Auk þess getur það ekki verið neitt kappsmál fyrir nefndina, því það hefir litla „praktiska“ þýðingu.

Um brtt. 14, 15, 16, 18 og 19 hefi jeg ekkert að segja. Það er ekki annað en breytingar á orðalagi núgildandi stjórnarskrár, sem margir af þessum hv. þm. hafi verið í verki með að orða þannig.

Jeg ætla að hlaupa yfir 20. brtt., eins og hv. frsm. (B. Sv.) gerði. Svo kem jeg ekki auga á neina brtt., sem ástæða er til að tala um, fyr en þá 27., að í staðinn fyrir „greinileg skýrsla“ komi „greinargerð“. Í viðtali við hv. nefnd kom það til tals að breyta „skýrsla“ í „greinargerð“. Þessi tvö orð hafa má ske ekki alveg sömu merkingu. Það er komið undir, hvað átt er við með orðinu „greinargerð“. Það sem fyrir mjer vakti þegar jeg setti þessi orð, „greinileg skýrsla“, var, að þegar ætti að lýsa nákvæmlega fjárhagsástæðum landsins, þá mundi það heppilegra en hitt orðið. Hins vegar tel jeg víst, að nefndin leggi sömu merkingu í orðið „greinargerð“, og með þá skýringu fyrir augum má vel við þetta una.

Jeg veit ekki, hvort bein þörf er á að breyta orðinu „jarðeign“ í „fasteign“, en jeg sje ekkert á móti því, að svo verði gert. Það kann vel að vera, að mjer hafi sjest yfir einhverja brtt., sem ástæða væri til að minnast á, en nú vil jeg víkja að brtt. við 65. gr. Þeirri grein er breytt einna mest af hálfu nefndarinnar. Það kann að vera einhver ástæða til þess. En þessi grein, eins og hún er í stjórnarfrv., hefir víst staðið í stjórnarskrám allra siðaðra ríkja, mjög líkt orðuð, síðan franska stjórnarbyltingin átti sjer stað. Greinin á ekki að merkja annað en það, að menn skuli hafa frjálsan rjett til hverrar atvinnu sem er, nema þeirrar, sem takmörkuð er með lagaákvæðum, af því að almenningsheill krefst þess. Þetta er dálítið annað en að fyrirskipa, að setja skuli lög um allan atvinnurjett manna. Sennilega hefir það vakað fyrir nefndinni, þegar hún orðaði greinina um, að það væri óþarfi að taka þetta upp í stjórnarskrána, af því að öll höft á atvinnufrelsi manna væru nú þegar numin burtu. En það er að gætandi, að nefndin segir mikið meira í sinni grein en stóð í frv. stjórnarinnar.

Jeg minnist þess nú, að jeg hljóp yfir 3. brtt, þar sem stendur, að orðin: „Á fundum þessum ræður afl atkvæða“ falli burtu. Ef þetta ákvæði á að falla burtu, þá skil jeg satt að segja ekki, að ráðherrafundirnir hafi þá þýðingu, að taka eigi ákvæði um þá í stjórnarskrána.

Háttv. frsm. meiri hl. (B. Sv.) talaði um það í ræðu sinni, að þetta ákvæði gæti valdið óþægindum, ef báðir hinir ráðherrarnir yrðu á móti forsætisráðherra. Og hann spurði, hvað þá ætti að gera. Þar er því til að svara, að einu gildir hver af ráðherrunum í hlut á. Sá þeirra, sem verður í minni hluta, verður að beygja sig, ef hann telur ágreiningsatriðið ekki mjög mikilvægt. Að öðrum kosti lætur hann ekki undan og biður um lausn. Mjer finst þetta vera auðskilið mál, og er enda venja hvar sem er.

Þessir ráðherrafundir eru settir hjer vegna þess, að vitanlega er mjög sjaldan hægt að hafa ríkisráðsfundi. Og þessu á að vera hjer líkt hagað og tíðkast annarsstaðar, að í stað reglulegra ríkisráðsfunda halda ráðherrarnir sjálfir fund með sjer, atkv. eru bókuð eða færð til „protokolls“, og gerðir fundarins eru síðan sýndar konungi á eftir.

En vilji menn nú ekki halda þessu ákvæði um afl atkvæða, þá verða þessir ráðherrafundir ekki annað en samtalsfundir, og verða þeir þá ekki svo merkilegir, að rjett sje að setja um þá ákvæði í stjórnarskrána.

Það á að rjettu lagi að gilda sama reglan um þau mál, sem skylt er eftir stjórnarskránni að ræða á fundum þessum, og hin önnur mál, sem einhver ráðherranna vill bera undir þessa fundi, að afl atkv. ráði og sá ráðherra, sem í minni hluta verður, verði að beygja sig fyrir meiri hlutanum.

Þá er eitt ákvæði, sem jeg get ekki fyllilega sagt um, en tel þó í sjálfu sjer gott. Það er brtt. um að heimila hlutfallskosningu hjer í Reykjavík.

En gildi þeirrar brtt., fer eftir því, hvort samþykt verður önnur brtt., sem fram hefir komið. Jeg get ekki sjeð, að nein ástæða væri til slíkrar heimildar, ef ekki verður fjölgað þingmönnum þess kjördæmis.

Misrjettið væri þá eftir sem áður svo mikið, að naumast væri vert að vera að káka við nokkra breytingu.

En í sjálfu sjer er þessi till. góð.

Um 29. gr. frv., eða 20. brtt. háttv. meiri hl., get jeg verið mjög stuttorður.

Jeg lít svo á, að brtt. háttv. minni hl. við þá gr. sje þannig vaxin, að hún ætti að geta nægt öllum þeim, sem hræddir eru við innflutning útlendinga, og þá sjerstaklega Dana, hjer til landsins.

Og jeg get lýst því yfir, að jeg get alveg fallist á hana og sje ekki ástæðu til að bæta neinu við greinargerð háttv. minni hl. að því leyti.

Og jeg verð að segja það, að þegar athugaðar eru rólega og með fullri aðgætni brtt. minni hl. og brtt. meiri hl., þá er mismunurinn ekki svo mikill, að háttv. frsm. meiri til. (B. Sv.) geti haft nokkurn rjett til þess að tilkynna flokkaskifti í landinu út af því í framtíðinni.

En um þetta ákvæði í stjórnarfrv. sjálfu skal jeg geta þess, að hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) var fjarverandi þegar það varð til, og hefir hann því alls ekki að því komið.

En að jeg hafði þetta ákvæði svona úr garði gert var fyrst og fremst af því, að jeg minnist þess ekki, að samskonar ákvæði sje haft öðruvísi í nokkurri stjórnarskrá utan Íslands.

Alstaðar, þar sem jeg veit um, er ákvæðið svo í grundvallarlögum og stjórnarskrám annara ríkja.

Það kann að vera dálítill munur á búsetuskilyrðunum; jeg minnist þess t. d., að í Hollandi er það 18 mánuði, en það er líka lengsti tíminn, sem jeg minnist að heimtaður sje, að ríkisborgarar sjeu búsettir í landi, til þess að verða atkvæðisrjettar aðnjótandi.

En það fanst mjer eðlilegast og rjettast að hafa þetta ákvæði líkt og annarsstaðar gerist. Og þá var spurningin að eins um það, hvort þörf væri að hafa það öðruvísi vegna hættu þeirrar, sem okkur væri búin af hálfu Dana. En jeg fyrir mitt leyti verð að líta svo á, að engin hætta sje á innflutningi þeirra í fyrirsjáanlegri framtíð.

Og þar í liggur allur meiningamunur háttv. meiri hl. og þeirra, sem minni hl. fylgja.

Þeir sjá í því atriði hættu, sem þeir vilja fyrirbyggja með þessu ákvæði sínu. Og það má segja, að sje sá ótti háttv. meiri hl. á rökum bygður, þá sje rjett að setja ákvæðið.

En þeir, sem líta á málið frá mínu sjónarmiði, sem telja engin líkindi til þess, að slíkur innflutningur verði, fyrir þá er ekki nema eðlilegt að setja ákvæði þetta eins og jeg gerði í fyrstu.

Þá er ekki nein ástæða til þess, að við förum að svifta okkur sjálfa neinum eðlilegum rjettindum að þessu leyti.

Háttv. frsm. meiri hl. (B. Sv.) talaði um þetta sem nýmæli hjá mjer, að jeg setti ákvæðið svo.

Nýmæli er það að vísu að því leyti, að það er annað en í stjórnarskránni stóð og staðið hefir í um 4 ár. En í athugasemdunum við sambandslögin er þess getið, að þessu ákvæði eigi að breyta, en ekki til tekið, hvernig sú breyting eigi að vera.

Og þar sem Knud Berlin hefir verið að vara menn við þessu atriði, þá þykir mjer ekki fjarri sanni, að hann hafi skrifað grein sína einmitt með það fyrir augum, að háttv. meiri hl. hjer gæti vitnað í hana. Hann getur sjálfsagt reiknað með okkur eins og öðrum. (B. J.: Hann gerist djúpsær, ef svo er). Til hans hefir líka oft verið vitnað af sjálfstæðismönnum, þegar þeir hafa þurft á að halda.

Þetta 5 ára ákvæði er ekki upphaflega orðið til beint af hræðslu við útlendinga, heldur til þess að skapa íslenskan borgararjett, en nú höfum við okkar þegnrjett, og þurfum þess því ekki lengur við.

Háttv. frsm. meiri hl. (B. Sv.) talaði um innflutningshættuna vegna fossaiðnaðarins, járnbrautanna o. fl.

En eins og nú standa sakir, er helst útlit fyrir, að þvertekið verði fyrir það, að útlendingar fái að stafrækja fossa hjer.

Og hvar er hættan þá?

Og nú veit enginn einu sinni, hvað fossamálinu líður á þingi, þessu máli, sem allir hjeldu að yrði eitthvert mesta stórmál þingsins.

Þar er því varla hætta búin.

Og eftir því, sem nú lítur út með þann iðnað annarsstaðar, þá mun ekki mikil hætta á því, að útlendingar kæri sig um að koma honum hjer á fót fyrst um sinn.

Jeg mintist á prófessor Knud Berlin. En ef farið væri eftir hans tillögum, þá væru 5 ár ekki nóg, 10 ár væru það minsta, veitti ef til vill ekki af 25 árum.

En sem sagt, þá er bilið milli meiri og minni hl. ekki fjarska langt. Minni hl. vill setja fyrst 2 ár, með heimild til lengingar, ef þörf krefur. En meiri hl. vill fastákveða 5 ár í eitt skifti fyrir öll.

Háttv. frsm. meiri hl. (B. Sv.) sagði, að gera mætti stjórnarskrárbreytingu, ef lengja þyrfti tímann. En jeg hjelt, að þeir vildu einmitt ákveða 5 ár strax, til þess að komast hjá að þurfa að breyta aftur.

En eins og jeg hefi áður sagt, er munurinn að eins sá, að jeg álít hjer enga hættu á ferðum, en meiri hl. aftur á móti álítur það. En til þess að setja undir þann leka mun jeg nú fallast á brtt. háttv. minni hl.

En þegar jeg tala um breytingu á 5 ára búsetunni, þá tala jeg um hana eins og hún fyrst kom fram frá háttv. þm. Dala. (B. J.). Var sú breyting hans sú, að færa ákvæðið í 4 ára tíma, og vilji háttv. þm. (B. J.) ekki viðurkenna það nú, þá hlýtur það að stafa af því, að hann sje farinn að tapa minni, og get jeg ekki að því gert.

Brtt var gerð við stjórnarfrv. eins og það lá fyrir, og hvað sem hv. þm. (B. J.) meinti þá, var þetta það sem hann gerði.

En þetta er ekkert aðalatriði.

Þegar jeg hefi talað um þetta atriði, hefi jeg ekki haft í huga undantekninguna.

Háttv. meiri hl. segir, að hún sje í samræmi við lögin um ríkisborgarrjett. En það er allsendis órjett. Það eru alt önnur ákvæði, sem standa þar, eða þau, sem hjer eru í till. háttv. meiri hl. Sendimenn ríkisins var óþarfi að nefna hjer, þar sem ekki verður deilt um það, að þeir sjeu búsettir í landinu.

En háttv. meiri hl. segir, að ákvæðið um þá, sem dvelja erlendis við nám eða lækningar, sje hið sama og stendur í 9. gr. laganna um ríkisborgararjett, en svo er alls ekki. Þar segir svo í niðurlagi gr.: „Eigi skal það talið heimilisfang á Íslandi samkvæmt þessari gr., þótt danskur maður hafi dvalist þar 1. des. 1918 sem sjúklingur á sjúkrahúsi, við nám, í fangelsi eða sem þurfamaður.“

Þetta vantar alveg í till., háttv. meiri hl., og þýðir því ekki fyrir hann að vísa til þessara laga. Og jeg lít svo á, að þessi ákvæði háttv. meiri hl. sjeu svo víð, að ekki sje hægt að samþykkja þau. Því að annaðhvort eru þau þýðingarlaus, eða þau eru brot á sambandslögunum.

Og jeg get ekki talið það rjett, að við sjeum að undanskilja okkur með slíkum undanbrögðum, ef jafnrjetti á að vera á annað borð.

Háttv. frsm. meiri hl. (B. Sv.) sagði, að jeg hefði ekki haft leyfi til að setja þessi ákvæði svona í stjórnarfrv. En jeg hefi nú sagt mínar ástæður fyrir því, og menn verða að leggja sinn dóm á þær.

Um þetta atriði hefir ekki heldur komið annað fram en það, sem stendur í athugasemdunum við sambandslögin, og auk þess það, sem háttv. frsm. meiri hl. (B. Sv.) ljet um mælt á þinginu í fyrra. Vil jeg leyfa mjer að lesa upp nokkur orð hans þá. Hann segir svo:

„Sambandsmenn hafa verið að tala um að takmarka rjettindi Dana hjer á landi, með þeim hætti, að gera heimilisfestu innanlands að skilyrði fyrir atvinnurekstri í landinu. Jeg skal engu spá um efndirnar, sem á því yrðu. En örðugt mundi það þó veitast, þar sem slíkt væri ótvírætt brot á anda samningsins.“

Og hv. frsm. meiri hlutans (B. Sv.) sagði, að þetta væri brot á móti anda samningsins. Hvort það er svo eða ekki, segi jeg ekkert um, en hv. þm. B. Sv.) sagði þetta í þá daga, og hann sagði meira. Með leyfi forseta vil jeg lesa upp kafla úr ræðu hv. frsm. meiri hlutans (B. Sv.):

„Erindrekar Dana hafa ekki sett þessi afdráttarlausu skilyrði um jafnrjettinn í samninginn alveg út í bláinn. Nefndarmennirnir íslensku hafa einnig fallist á þau, og þau eru í samræmi við allan anda samningsins, þótt heyrst hafi síðan, að torvelda mætti Dönum aðstöðu þeirra með búsetuskilyrðum.“

Og svo segir hv. þm. (B. Sv.) enn fremur:

„En jeg sje ekki betur en slíkt væri brot á samningnum, og væri það ekki fögur aðferð eða heillavænleg að gera samning með þeim hug að svíkja hann?‘

Þetta sagði nú hv. frsm. meiri hlutans (B. Sv.) í fyrra, og hjelt jeg því þess vegna, að jeg hefði að minsta kosti stuðning þessa hv. þm. (B. Sv.), sem nú kemur upp úr kafinu, að mest berst fyrir að hafa búsetuskilyrðið fimm ár. Þetta er þá líka að forminu til jafnrjetti, en í eðli sínu er það misrjetti, af þeim ástæðum, „að Íslendingar standa nær uppsprettunni“, eins og prófessor Lárus H. Bjarnason sagði í fyrra. Prófessor Lárus II. Bjarnason áleit líka enga ástæðu til að breyta þessu ákvæði í lögunum. Hann spurði mig, hvað jeg gæti haft á móti röksemdunum í pjesa sínum, og mjer finst margt mega færa fram þeim til stuðnings. Ef þetta er rjett hjá Lárusi H. Bjarnasyni, þá er það ekki nema eðlilegt, að þetta verði dálítið vandræðamál. Jeg legg mikla áherslu á það, að ekki verði annað sagt um oss Íslendinga en að vjer höldum vel gerða sáttmála. Það er auðvitað, að sje hætta á ferðum, að íslenskt þjóðerni verði yfirbugað, þá verður alt að víkja fyrir þeirri hættu, en sú hætta verður þá að vera á einhverju bygð. Jeg felli mig betur við brtt. minni hlutans í þessu atriði, sjerstaklega af því, að við eigum ekki að gera löndum vorum erlendis þyngra fyrir um ríkisborgararjettinn en þörf krefur. En tryggingin fult eins góð.