29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (1306)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg á brtt. á þgskj. 64. Um hana hafa 2 hv. þm., framsögumenn meiri og minni hlutans (B. Sv. og P. J.), farið nokkrum orðum. Hafa þeir tjáð mjer, að stjórnarskrárnefndin hafi ekki getað fallist á hana, eins og hún er úr garði gerð. En ef úr henni væri dregið, myndi nefndin geta fallist á hana, ef hún væri ekki svona kröfufrek við þá, er hún hlýtur aðallega að snerta. Ætla jeg því að þessu sinni að fara fram á að fá frestað atkvgr. um þessa brtt. til 3. umr. og reyna að gera hana svo úr garði, að nefndin geti fallist á hana. Ef það tekst, þá er vel, því að það er vafalaust bót að fá svipað ákvæði inn í stjórnarskrána. Skal jeg því ekki eyða fleiri orðum að þessu sinni um brtt. og þann tilgang, er jeg hafði með henni. Læt það bíða 3. umr.

Þá á jeg, ásamt hv. þm. S.-Þ. (P. J.), aðra brtt., á þgskj. 556. Hennar hefir nú þegar verið getið, og það ekki að góðu. Þeir hv. þm., sem minst hafa á hana. eru henni mjög mótfallnir. Brtt. fer fram á það, að þingmönnum sje fjölgað um 8, 6 landskjörna og 2 kjördæmakosna. Skal jeg ekki mæla langt mál fyrir þessari till., þótt vel mætti færa mörg góð og gild rök fyrir rjettmæti hennar. Auðvitað má deila um, hve marga menn skuli kjósa í einu á þennan hátt. Það getur altaf verið álitamál. En að háskalegt sje að hafa svo marga landskjörna þingmenn, eins og sjerstaklega hv. þm. Dala. (B. J.) sagði, get jeg með engu móti viðurkent. Ætla jeg að víkja betur að þeim ummælum, áður en jeg lýk máli mínu.

Mjer virðast þessir 6 landskjörnu þingmenn, sem nú eru, hafa býsna litla þýðingu fyrir landið til þessa, hvort sem þeir nú eiga að halda aftur af þinginu, eða hafa bætandi áhrif á framkvæmdir þess. Til þessa hlutverks skortir svo fáa menn eðlilega allan mátt. Að öðrum kosti yrðu þeir að vera miklum mun færari en aðrir þm. Þeir yrðu að vera þannig, að aðrir þingmenn hefðu þá að nokkurskonar leiðarstjörnu sinni, ef þeir ættu að hafa nokkur áhrif í þinginu, ekki fleiri en þetta. En að þeir hafi að jafnaði slíka kosti til að bera í svo ríkum mæli, að þeir geti komið öllu sínu fram óskorað, því geri jeg ekki mikið úr.

Jeg gæti þá skilið afstöðu þeirra hv. þm., sem eru á móti því, að landskjörnum þm. sje fjölgað, ef þeir bæru fram till. um að afnema þá, sem fyrir eru. En ef menn vilja halda landskjörinu, en eru þó á móti því, að 6 landskjörnum sje við bætt, þá sýnist mjer það ómöguleg afstaða.

Þá gerum við ráð fyrir, að 2 þm. sje bætt við, kjörnum í einstökum kjördæmum. En sú er tilætlun okkar, ef till verður samþ., að Reykjavík verði aðnjótandi þessara tveggja þingmanna, sem við yrði bætt. Jeg hygg vart nokkurn þm., sem geti með rökum mælt móti þessu.

Jeg verð að víkja ofurlítið að brtt. stjórnarskrárnefndarinnar. 14. lið, við 26. gr. Þar stendur svo:

„Á eftir 3. málsgr. komi ný málsgr., svo hljóðandi: Með lögum má ákveða, að þingmenn Reykjavíkurkaupstaðar skuli kosnir hlutbundnum kosningum, og gilda þá um kjörgengi og kosningarrjett sömu reglur sem við óhlutbundnar kosningar.“

Jeg átti tal við allmarga hv. þm., sem í nefndinni voru, og vildi fá þá til að ganga inn á, að Reykjavík fengi a. m. k. tvo þm. í viðbót. Og mjer skilst líka af þessari brtt., sem nefndin telji ekki unt að komast hjá því, að fjölga þingmönnum í Reykjavík. Jeg geri mjer því fylstu vonir um, að þótt till. okkar verði ekki samþyki, verði þó hægt að ná einhverju samkomulagi við nefndina um þetta atriði. Mjer fyndist sjálfum best við eiga, að í stjórnarskránni sje ákveðin sú tala þingmanna sem á að vera nú fyrst um sinn. Hv. þm Dala. (B. J.) hafði það út á till. okkar að setja, að hún gerði ráð fyrir of mörgum þingmönnum, kosnum hlutbundnum kosningum og heyrðist mjer hann ekki vera fjarri því, að vilja láta afnema landskjörna þm. Aðalmótbára hans virtist sú, að hlutbundnu kosningarnar gerðu Dönum auðveldara að hafa áhrif á mál okkar, ef þeir flyttu margir hingað. Skal jeg ekki neita því, ef þeir verða mjög margir á einum stað. En þó er ekki eins mikið upp úr þessari hættu leggjandi eins og hv. þm. virðist gera. Og þótt gott sje að vera varkár, má maður ekki sjá vofu í hverju horni, þora ekkert að hafast að. Svo tel jeg heldur ekki loku fyrir það skotið, þótt búsetuskilyrðið yrði 5 ár, og þó að ekki yrði fjölgað þingmönnum, að Danir gætu þá ekki eins, með tímanum, haft stórkostleg áhrif á mál vor, ef þeir flyttu inn í landið í stórum stíl á annað borð. Þeir gætu t. d. flutt sig um reit og haft þannig áhrif í mörgum kjördæmum landsins. Svo að 5 ára búsetan ein hefir ekki svo mikla þýðingu.

Mig undrar það, að hv. þm. Dala. (B. J.) skuli ekki geta fallist á till. mína um móðurmálsákvæðið. Þar virðist hann sjálfur hafa verið á sama máli og jeg áður. Nú virðist þetta eitthvað breytt.

Þá vildi jeg svara hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) örfáum orðum. Hann mintist á íhaldið og taldi landskjörna þm. líklega til íhalds. Hann má þar djarft úr flokki tala, þar sem hann er einn af þeim landskjörnu. En jeg geri nú samt ráð fyrir, að landskjörnu þingmennirnir yrðu þjóðnýtir menn, eins og þeir eru nú, og þjóðin mundi ekki hleypa öðrum í þann sess en þeim, sem þektir væru að dugnaði og þekkingu á þjóðmálasviðinu. Auðvitað verða þingmenn upp og ofan, eins og þjóðin sjálf, en mjer finst þó einna síst ástæða til að halda það um þá landskjörnu. Það væri að minsta kosti eðlilegast.

Þá mintist hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) á það, að ef till. mín yrði samþ., gæti það orðið stjórnarskránni að falli. Mjer finst hann leggja þar helst til mikið upp úr mikilvægi breytingarinnar. Að minsta kosti dettur mjer ekki í hug að halda, að stjórnarskrárfrv. verði felt þess vegna.

Þá hefir komið fram brtt., á þgskj. 562, frá 1. þm. Árn. (S. S.), við brtt. okkar. Hann gengur inn á að fjölga þingmönnum um fjóra landskjörna, en kjördæmakosnir þingmenn sjeu óbreyttir. Maður getur nokkuð sjeð af þessari brtt., hvers má vænta af hv. þm. (S. S.), að því er snertir fjölgun þingmanna í Reykjavík. Og mjer finst næstum ótrúlegt, að brtt. sje frá honum komin, eins og hann er þó kunnugur staðháttum hjer í höfuðstaðnum. Vænti jeg þess, að þegar þm. athugar málið betur, þá taki hann brtt. sína aftur og gangi í lið með mjer um það, að koma brtt. á þgskj. 556 fram til fullkomins sigurs.

Skal jeg svo ekki orðlengja meira um þetta að sinni.