29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (1309)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Frsm. (Benedikt Sveinsson):

Satt að segja bjóst jeg við, að fleiri háttv. þm. mundu taka til máls í því mikla stórmáli, sem hjer er á ferðinni. En það er í munnmælum hjer í háttv. deild, að þessu máli eigi að láta nægja einn fund til umræðu. Og er ekki laust við, að sumum þyki það harðræði, að slíkt alþjóðarmál, og jafnumfangsmikið og það er, skuli afgreitt á einum þingfundi. Ekki síst finst mönnum það undarlegt fyrir þá sök, að þetta sama þing hefir gefið sjer tíma til að eyða 3–4 dögum í hvert smámálið um sig, svo sem að þjarka um refarækt, eðlisgalla ullar, hundaskatt og fleira af líku tægi.

Það vill nú svo vel til, að jeg get verið stuttorður, því að sumir háttv. þm. hafa tekið alldrengilega í þann streng, er jeg hafði óskað. Má þar nefna háttv. þm. Dala. (B. J.), sem hefir svarað háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) og hæstv. forsætisráðherra (J. M.) rækilega út af búsetuskilyrðinu, og þannig sparað mjer mikið ómak. Enn fremur hafa þeir háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) tekið ýmislegt fram, bæði um fyrnefnt atriði og aðrar brtt., svo að jeg get leitt hjá mjer að svara mörgu, sem ella hefði þurft. Einkum er jeg þakklátur háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) fyrir þær fræðandi og glöggu skýringar, sem hann gaf um starfsemi ráðherrafundarins og alt, sem þar að lýtur. — Það er því að bera í bakkafullan lækinn að fara að svara háttv. minni hluta, eða rökstyðja afstöðu meiri hluta gagnvart honum. Þetta er því fremur óþarft, sem hv. frsm. minni hluta (P. J.) færði ekki fram nein ný rök fyrir sínu máli; að eins talaði hann nokkur fleiri orð um málið en gert er í nefndarálitinu. Mjer virtist það heldur bera vitni um röksemdaskort, er hv. frsm. minni hl. (P. J.) fór að kasta því fram, að við hinir værum svo gamlir þingmenn, að ilt væri við okkur að etja. (P. J.: Gamlir í þessu máli. átti jeg við). Hann er þó sjálfur okkar elstur, og auk þess gáfaður maður og rökvís, þótt honum tækist illa til í þessu máli, sakir þess að málstaðurinn var svo lakur og erfiður. Þennan varnagla hans verður því ekki hægt að taka til greina. Hann vildi gera lítið úr ágreiningi milli meiri og minni hluta nefndarinnar, og var á honum að heyra, að nefndin væri ekki klofin. Auðvitað er nefndin klofin. En sannleikurinn er sá, að eftir því sem á leið, og þegar háttv minni hluti fór að sjá, hversu lítið fylgi málstaður hans hafði í þinginu, og að hann mundi ekki koma sínu máli fram, þótt hann beitti til þess öllu sínu kappi og atorku, þá fór hann að nálgast hv. meiri hluta og tók upp tveggja ára búsetuskilyrði, sem svo mætti framlengja, ef þörf krefði, með einföldum lögum. Hv. minni hluti vill nú gera sem minst úr þessum mismun milli nefndarhlutanna, en yfir hann verður eigi breitt, enda ber nefndarálitið það best með sjer, að nefndin er klofin og hvor hlutinn ritar sitt nefndarálit, þótt hvorttveggja sje á einu þingskjali.

Hæstv. forsætisráðh (J. M.) gat þess, að langt bil væri milli stjórnarfrv. og háttv. meiri hl. nefndarinnar, en hins vegar skemra bil milli minni hl. og stj.frv. Hann hefir þó getað teygt sig svo langt, hæstv. ráðherra, að hann fylgir minni hluta. Það er sýnilegt, og einnig víst og fullkunnugt, að hann hefir lagst allþungt á að hafa sitt mál fram, og ekki mátt kenna mikið meira kapps, ef ekki átti úr hófi að keyra.

Þar sem nú hv. minni hluti hefir nálgast allmikið meiri hlutann, með því að setja þó tveggja ára búsetuskilyrði í tillögur sínar, þá er það því undarlegra, eins og nú er komið, að hæstv. forsætisráðh, (J. M.) skuli gefa í skyn, að meiri hluti gangi í berhögg við 6. gr. sambandslaganna og við ráðgjafarnefndina og starfsvið hennar. eins og háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) sagði. Það hlýtur að vera öllum ljóst, að ef búsetuskilyrðið á annað borð er brot á sambandslögunum, þá er brotið alveg hið sama að forminu til, hvort sem búsetan er tvö ár eða fimm ár. Till. þessa háttv. þm. (P. J.) stappar því alveg eins nærri broti á lögunum eins og meiri hlutans. En hjer er alls ekki um neitt slíkt brot að ræða. Enda hefir því ekki verið haldið fram hjer á þingi fyr en nú, að slík búsetuskilyrði væri óheimil sakir sambandslaganna, þótt á því kunni að hafa brytt í einhverjum blaðagreinum.

Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) þótti leitt, að verið væri að „spenna fót fyrir“ danska kjósendur með því að setja búsetuskilyrðið. Hjer þykir mjer hv. þm. alt of hörundssár, því að hjer er alls ekki verið að teygja fót fyrir Dani fremur en áður, þar sem 5 ára búsetuskilyrðið stendur nú í stjórnarskránni. En mismunur sá, sem dönsku fulltrúarnir vöktu máls á í fyrra, er afnuminn á algerlega löglegan hátt, með því að láta búetuskilyrðið ná jafnt til Íslendinga sem Dana, eins og áður hefir margsinnis verið rökstutt. Það er því algerlega rangt, að hjer sje um nýja ásælni að ræða af Íslendinga hálfu. Jeg verð að neita, að svo sje. Jeg benti á í fyrri ræðu minni, hvers vegna meiri hlutanum er það fullkomið kappsmál og alvörumál, að búsetuskilyrðið standi í stjórnarskránni. Það er vegna þess, hvernig rýmkað hefir verið til við Dani á annan hátt, hve mikla rjettindaveislu þeir hafa hjer á landi samkvæmt 6. gr. sambandslaganna.

Það verður líka erfitt að skilja, að hægra verði síðar meir að takmarka kosningarrjett Dana, setja þeim 5 ára eða jafnvel lengra búsetuskilyrði fyrir kosningarrjetti, þegar þeir fari verulega að fjölmenna hingað. En þetta leyfir háttv. frsm. minni hlutans (P. J.) sjer að endurtaka hvað eftir annað. Því sagði hann, að aðferð minni hlutans væri tryggari, þar sem hann vildi hafa einföld lög og færa búsetuskilyrðið upp eftir þörfum um 10–20 ár!

Ólíklegt er, að það komi síður sárt við Dani, er þeir eru margir komnir hingað og þeir streyma að landinu og fara að hafa hjer verulegra og margháttaðra hagsmuna að gæta, heldur en hitt, að kyrt standi frá upphafi það hóglega búsetuákvæði, sem nú er í lögum. Það er ósennilegt, að þeim verði ljúfara síðar meir mörgum að missa fenginn rjett sinn en fáum að búa við þau lög, sem nú gilda og Íslendingar verða sjálfir að lúta þegar eins stendur á.

Danir munu einmitt gerla mega sjá, hve gildandi búsetuákvæði er rjettmætt, þegar þeir gæta þess t. d., hver skilyrði Norðurlandaþjóðir setja fyrir kosningarrjetti þeirra manna, sem flytjast inn í lönd þeirra frá öðrum stærri þjóðum. Danir vita það og vel, að hingað til hafa Svíar og Norðmenn sætt sömu skilyrðum í þessu efni sem Danir, en nú eru bæði Norðmenn og Svíar sviftir þessum rjetti og Danir einir halda honum óskertum til móts við Íslendinga sjálfa. Það er því áreiðanlegt, að Danir munu kunna að líta á málið með meiri sannsýni heldur en forsvarsmenn þeirra og sjálfboðaliðar hjer á þingi, hv. frsm. minni hluta (P. J.) og hæstv. forsætisráðh. (J. M.).

Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) kannaðist við, að ráðgjafarnefndin hefði ekkert vald, en að hún gæti að eins gert málamiðlun, og þar fram eftir götunum. En það stappar nærri, að Alþingi sje að venja hana á að líta á sjálfa sig sem setta yfir Alþingi, ef það ætti að fara að ráðum háttv. þm. (P. J.) og þeirra, sem snúist hafa á sömu sveif og hann.

Þá kvað við annað hljóð hjá þingmönnum í fyrra um nefnd þessa; þá virtist jafnvel forsætisráðherra (J. M.) telja það rjettmætt og rýmilegt að venja nefndina af því að skifta sjer af málum Íslands.

Með leyfi hæstv. forseta vil jeg leyfa mjer að lesa nokkur ummæli hæstv. forsætisráðherra (J. M.) um þetta mál í fyrra:

„Jeg hygg, að nefndin komi stjórninni einni við, en ekki þinginu. Það er líka auðsjeð, að nefndin er að eins ráðgefandi og hefir ekkert vald, og trúað gæti jeg því, að svo gæti farið, að nefndin þreyttist á að gera athugasemdir, þegar hún sæi, að ekkert tillit væri tekið til þeirra.“

Þótt ráðgjafarnefndin færi nú að gera athugasemdir út, af búsetunni þá kemur það ekki Alþingi við, samkvæmt orðum forsætisráðherrans (J. M.) — og mundi sjálfsagt rjett að fara þá að ráðum hans og venja hana af slíku óþarfamasi með því að taka „ekkert tillit“ til athugasemda hennar. En það er eins og hv. þm. S.-Þ. (P. J.) bregði á annað ráð og vilji einmitt venja nefndina á eitthvað annað en íhlutunarleysi um Íslandsmál.

Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) var að tala um að ekki mundi líklegt, að Danir flyttu hingað margir fyr en eftir nokkur ár. Væri þá ekki betra, að ákvæðið standi þar til er þeir koma? Væri það ekki meinlausara heldur en ráðast á þá, er þeir koma eftir nokkur ár til að setjast að við Gullfoss eða aðrar auðsuppsprettur landsins? Eða mundi þá ekki sannast hið fornkveðna á Íslendingum: „Of seint kemur ósvinnum ráð í hug,“ ef taka skyldi að þröngva kosti þeirra, er þeir væru orðnir öflugir og mannmargir í landinu?

Jeg hygg fáa svo skyni skropna, að þeir gíni yfir slíkum flugum.

Hv. frsm. minni hlutans (P. J.) sagði, að námur hefðu ekki hepnast á Íslandi, og nefndi til dæmis kolanámurnar á Vestfjörðum. Meiri hlutinn hefir litla áherslu lagt á það, að námugröftur mundi freista margra Dana hingað. Aftur hefir verið bent á ýmsar aðrar atvinnugreinir, er líklegt væri að Danir mundu stunda hjer, t. d. fossaiðnað. Verður því ekki neitað að þeir hafa lagt mikið kapp á að ná tangarhaldi á fossum hjer og sótt það fast að ná samningum um afnot þeirra. Hv. þm. (P. J.) sagði, að enginn hraði væri á fossamálinu enn. Hvað sannar það? Hv. þm. (P. J.) veit, að málið er umfangsmikið og hefir verið til undirbúnings í nefnd, sem einmitt var sett vegna áfergju útlendinga (Dana o. fl.) eftir fossarjettindum hjer.

Á stríðsárunum hefir ekki verið hægt að ráðast í framkvæmdir; það vita allir, og er því ekki að marka, þótt minna hafi borið á athöfnum fossafjelaganna síðustu árin. En jeg ímynda mjer að þeir taki til óspiltra málanna þegar aftur hægist um. Þinginu verður heldur eigi með rjettu legið á hálsi fyrir athafnaleysi í fossamálum, eða það muni draga þau á langinn um skör fram, þótt ekki sje hægt að hrapa að lagasmíð og rjettindaveislum við fossa samstundis sem hinum flóknu og sundurleitu álitum fossanefndar er kastað í þingmenn; — skjölum og skrifum, sem líklega eru samtals stærri en öll biblían (P. J.: Var jeg að væna þingið í þá átt?) Getur verið að það hafi verið hæstv. forsætisráðh. (J. M.). (J. M.: Já. P. J.: Jeg á eftir að lesa nefndarálitið). Jeg veit, að enn eiga margir og líklega flestir þingmenn eftir að lesa það, og virðist því ekki sanngjarnt að byggja á því, að ekkert mun verða gert í fossamálum í framtíð, þótt ekki hafi þegar verið samþyktir lagabálkar um þau efni; — og því sje engin hætta á, að Danir flytjist hingað! Þetta verður að taka fram, til þess að enginn komist upp með það, að telja mönnum trú um, að Danir muni ekki leita hingað til landsins í náinni framtíð, af því að eigi sje hraðað fossafrv. gegnum þingið!

Jeg skal ekki þræta við hv. þm. um Danmerkuraukann. En ekki skil jeg annað en að Danir verði færari að beita sjer út á við, er þeir ná öllu Suður-Jótlandi undir sig. Veit jeg ekki betur en að sá hluti Jótlands sje fult eins vel setinn sem flest önnur hjeruð Danmerkur, og þar bætast víst um 300 þúsundir þegna við danska ríkið. Munu Danir því eigi streyma suður á bóginn þess vegna. Og Dönum væri þá öðruvísi farið en flestum öðrum þjóðum, ef landauki slíkur og ræting þjóðlegra vona veldur eigi því, að framkvæmdaþrek og starfsdugur glæðist með þjóðinni, og hún verði fúsari til stórræðanna en áður.

Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) sagði, að vjer hefðum enga tryggingu fyrir því, hvernig framtíðin mundi fara með þetta mál, og kvað það ekki mundu alt lengi lifa, er þetta þing gerði nú til að tryggja alla mögulega hluti. Og þetta atriði væri eitt af því, sem ekki væri þörf að lögfesta nú. Hjer væri verið að taka fram fyrir hendurnar á framtíðinni. Það má með sama rjetti segja, að margt fleira sem stendur í stjórnarskrárfrv., sje óþarft nú sem stendur, og rjett væri því að láta framtíðina sjá fyrir því sjálfa, er þess gerðist þörf. En ef fara ætti eftir þessari kenningu hv. frsm. minni hl. (P. J.) að eigi megi „taka fram fyrir hendurnar á framtíðinni“ með lagasmíð, þá væri einsætt að hætta snarlega við alla löggjöf, því að engin lög þekki jeg, sem sett hafi verið svo, að þau hafi ekki átt að gilda eitthvað inn í framtíðina.

Skal jeg svo láta útrætt við hv. þm. S.-Þ. (P. J.), af því að aðrir hafa svarað honum rækilega.

Þá eru fáein orð til hæstv. forsætisráðherra (J. M.).

Fyrst sagði hann um ýmsar smávægilegar breytingar nefndarinnar, að þær væru því líkastar, er kennari væri að lagfæra stíl. Þetta kemur eigi í bága við það, er jeg hefi sagt. Jeg ljet einmitt svo um mælt, að mikill þorri brtt. væri smávægilegur og að eins til að lagfæra málið Það er því alveg rjett hjá hæstv. forsætisráðherra (J. M.), að nefndin hefir hjer tekið að sjer samskonar störf og kennari, sem þarf að lagfæra stíla.

Nefndinni finst varla mega minna vera en að stjórnarskrá landsins sje stórlýtalaus að máli og orðfæri. Og ef það yrði nú samþykt að gera það eitt af skilyrðum kosningarrjettar hjer á landi, að menn tali og riti íslensku stórlýtalaust, þá mætti þó eigi minna vera en að sú stjórnarskrá, sem skipar svo fyrir, væri sjálf á allgóðu máli. Auðvitað eru óvíða veruleg stórlýti á máli frv., en þó allmargt, sem nefndinni þótti mega betur fara.

Jeg hleyp yfir ýmislegt, er hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hafði við brtt. að athuga, þar sem hv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir skýrt það vel frá nefndarinnar sjónarmiði.

Hv. forsætisráðherra (J. M.) gat þess, að óþarfi væri að ákveða hlutfallskosningar í Reykjavík, ef þingmannatala bæjarins yrði ekki aukin. Stjórnin hefir að vísu ekki lagt til, að þingmannatala bæjarins sje aukin, en nefndinni þykir sjálfsagt, að hjer verði höfð hlutfallskosning, ef til þess kemur, að þingmönnum bæjarins væri fjölgað. Ákvæðið getur engan skaða gert, þótt það komi kann ske ekki til framkvæmda fyrst um sinn. Og nefndinni þótti meira að segja nauðsynlegt að setja ákvæðið í stjórnarskrána nú þegar, svo að eigi þyrfti síðar að gera stjórnarskrárbreytingu um þetta efni, þótt þingmannatalan yrði aukin með einföldum lögum.

En auk þess mega hjer vel vera hlutfallskosningar, þótt þingmenn sjeu eigi nema tveir. En hitt er og sennilegast, að aukin verði þingmannatalan áður langir tímar líða. En það væri bænum gagnslítið, nema hlutfallskosning sje viðhöfð.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) talaði um 29. gr., og þarf jeg því síður að þjarka við hann út af þeirri till. nefndarinnar, sem hún hefir verið svo rækilega rædd áður. Hann sagðist hafa tekið þau ákvæði upp í stjórnarskrána, að skilyrðin fyrir kosningarrjetti sjeu hin sömu og þarf til að öðlast ríkisborgararjett, af því að ekki væri ákveðið öðruvísi í stjórnarskrá nokkurs lands. Það væri þá ef til vill í hæsta lagi krafist 18 mánaða búsetu í kjördæmi. Jeg hafði bent á, að þetta myndi hafa vakað fyrir höfundi stjórnarskrárfrv., því að þess hafði verið getið í athugasemdum við frumvarpið. En jeg tók líka fram, að þar sem sjerstaklega stæði á á Íslandi, yrði að setja hjer sjerstök ákvæði til frekari tryggingar. Hjer stendur svo gjörólíkt á við það, sem er í öðrum löndum. Nú hafa ríkisborgarar annars lands jafnrjetti, að öðru jöfnu, við ríkisborgarana íslensku. Slíkt á sjer eigi stað um önnur ríki utan Danmerkur og Íslands. Það er einmitt vegna þess, að meiri hlutinn hyggur Íslandi betur borgið með búsetuákvæðinu. Og því fremur vill meiri hlutinn, að þetta ákvæði sje sett, sem þjóðin hefur beinlínis loforð þingsins fyrir því, að svo skuli gert, og alt málið hefir verið túlkað svo fyrir þjóðinni, að hún hafi fullan rjett að setja þetta skilyrði, sem verða skuli henni til varnar.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) taldi það ekki rjett að gera ráð fyrir flokkaskiftingu í landinu í framtíðinni út af þessu atriði. Það fer auðvitað alt eftir því, hvort flokkur hæstv. forsætisráðherra (J. M.) heldur fram þessari stefnu sinni sem flokkur. Ef hæstv. forsætisráðherra (J. M.) og hans menn sveigja aftur að meiri hlutanum og hverfa frá villu síns vegar, verður vitanlega engin flokkaskifting út af þessu rjettindaatriði Íslendinga. Og óskandi væri, að þeir hagi sjer svo. En ef þeir halda svo fram stefnunni, sem nú horfir, mun verða áfram ákveðin og eindregin flokkaskifting, eins og að undanförnu. Verður því áframhald á því, sem áður var, að hjer verði bæði íslenskur og danskur stjórnmálaflokkur, eins og mörgum hefir þótt brydda of mikið á í stjórnmálasögu Íslands, og ýmsum enn kippa þar of mjög í það kynið, er síður skyldi, — þrátt fyrir allar fullveldisgyllingarnar.

Í því liggur skoðanamunurinn, hvort hjer er um hættu að ræða eða ekki. Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sjálfur, og minni hlutinn, sem þó er ekki eins óhræddur og hann sjálfur, álítur hættuna svo litla, að ákvæði þetta sje allsendis óþarfi í stjórnarskránni. Og hæstv. forsætisráðherra (J. M.) fanst hvortveggi flokkurinn hafa jafnan rjett á sjer með sínar skoðanir. En jeg tel einsætt, að þeir sem eru hreint og beint sannfærðir um, að þetta ákvæði eigi að vera áfram óbreytt í stjórnarskránni, eigi meiri rjett á sjer en hinir, sem vilja láta ákvæðið falla burtu og ekki gera ráð fyrir neinni hættu.

Hygnir menn gera jafnan ráðstafanir til að fyrirbyggja hugsanlega hættu. Menn leggja oft mikið fje til vátryggingar eignum sínum, til þess að missa þær eigi bótalaust. Þar með er alls ekki sagt, að þeir missi þær, þótt þeir vátryggi ekki, en þeir gera þetta samt, til að vera við öllu búnir. Það er af þessu, að „allur er varinn bestur“, að meiri hlutinn gengur ekki frá skoðun sinni. Það er skylda vor að búa sem tryggilegast um. Í þessu ákvæði er nokkur trygging fólgin, úr því sem ráða er. Og það getur aldrei gert neinn skaða.

Viðvíkjandi tilvitnun minni til hr. doktors K. Berlin sagði hæstv. forsætisráðherra (J. M.). að doktorinn hefði auðsjáanlega skrifað þessa ritgerð handa mjer sem frsm. meiri hlutans, til þess að nota hana hjer í þinginu. Fór hann þá að gerast nokkuð gamansamur, Jeg verð að telja það harla ólíklegt, að doktorinn hafi ætlað mjer þessa grein, þar sem það hafði víst ekki komið neitt til orða, þá er hann reit hana, að jeg yrði frsm. stjórnarskrármálsins á þingi. Enda á jeg mjer þess ekki von, að hann beri neitt slíkt hugarþel til mín, að hann vildi veita mjer að málum. Gæti jeg frekar búist við slíku af honum gagnvart sínum gamla gistivin og samherja, hæstv. forsætisráðherra (J. M.). Auk þess vita þeir, er lesið hafa greinina, að hún er ekki skrifuð fyrir Ísland, heldur um viðfangsefnið: Sameiginlegan borgararjett allra Norðurlanda. En hæstv. forsætisráðherra (J. M.) fanst víst orð hans koma allvel heim við það, er jeg hjelt fram. Jeg hefi að vísu enga sjerstaka hvöt til að hæla þessum rithöfundi, og hefi aldrei verið neinn einkavinur hans, eins og hæstv. forsætisráðherra (J. M.), en er þó ekki svo blindaður, að jeg vilji ekki taka til greina það, sem hann segir rjett og skynsamlega. Enda hafa ýmsir aðrir fallist á kenningar hans í tjeðri grein og talið þær á góðum rökum bygðar. Margir góðir rithöfundar í Danmörku hafa fallist á, að það muni algerlega óaðgengilegt að lögfesta sameiginlegan borgararjett fyrir öll Norðurlönd. Hefi jeg hjer í höndum yfirlýsingar nokkurra ríkisrjettarfræðinga og annara nafnkunnra rithöfunda um efni það, er dr. Berlin ritar um, og teljast þeir honum sammála í þessu efni. Yfirlýsingarnar eru prentaðar í „Det nye Nord“. Geri jeg ráð fyrir, að þessir herrar hafi ekki allir ætlað yfirlýsingar sínar frsm. meiri hlutans í stjórnarskrármálinu í dag!

Það var hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sem taldi hættuna um kosningarrjett Dana eftir eins árs búsetu litla í sambandi við fossamálið. Á það við hann sem mjer lá við að heimfæra upp á hv. þm. S.-Þ. (P. J.) áður, og þarf eigi að endurtaka það.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sagði, að ef vjer vildum fylgja kenningum dr. K. B., yrði búsetuskilyrðið að vera lægst 10 ár. Er þar ekki alveg rjett með farið orð gistivinarins. Dr. K. B. talar um sameiginlegan borgararjett allra Norðurlanda. En vitanlega er hættan minni, ef einni þjóð er veittur slíkur rjettur, heldur en t. d. þremur. En annars er hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hjer í sömu mótsögninni sem flokksbræður hans, er í öðru orðinu telja alt trygt og örugt með nýmælaákvæði stjórnarskrárfrv., en í hinu, að ekki sje „fullörugt“ nema lengdur sje tíminn, kann ske upp í 10–25 ár!

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hafði ýmislegt að athuga við breytingartill. nefndarinnar um, að þeir skuli eigi þurfa að slíta heimilisfestu hjer á landi, sem eru sendimenn ríkisins, eða fara utan til náms eða lækninga. Sagði hann það rangt, að eins væri ákveðið í 9. gr. laga um ríkisborgararjett. Jeg sagði ekki, að ákvæðin væru hin sömu, heldur lík eða samskonar. Aðrir menn úr nefndinni hafa nú skýrt þetta svo vel, að mjer sýnist óþarft að elta ólar um það við hæstv. forsætisráðherra.

Þá sagði hæstv. forsætisráðherra (J. M.), að jeg hefði sagt, að hann hefði ekki haft neina heimild til að bera fram margnefnda breytingu á kosningarrjettinum; þeim orðum hefi jeg eigi farið um þetta tiltæki hans, en hitt sagði jeg, að það hefði ekki heyrst í þinginu nein rödd um það frá fylgismönnum sambandslaganna, að breyta þyrfti stjórnarskránni viðvíkjandi kosningarrjettinum á þann hátt, sem frv. gerir, og hinu gagnstæða hefði verið heitið kjósendum í fyrra, þegar sambandslögin voru rædd.

Þá fór hæstv. forsætisráðherra að lesa upp kafla úr gömlum þingræðum eftir mig, þar sem jeg tala um 5 ára búsetuskilyrðið. Jeg, sem var andvígur sambandslögunum, hafði dregið í efa á Alþingi í fyrra, hvort slíkt yrði ekki talið brot á sambandslögunum. Jú, jeg kannast við að hafa mælt þetta í fyrra. En þótt jeg hafi nú haft þennan skilning þá, þá vil jeg spyrja hæstv. forsætisráðherra (J. M.), hvort það hafi verið minn skilningur, sem sigraði hjer í deildinni í fyrra? Það var skoðun forsætisráðherrans og hans fylgismanna sem sigraði, og verður því að skilja sambandslögin samkvæmt þeim skilningi, sem þeir lögðu þá í þau.

Hitt er víst og satt, að jeg hefi mjög stutt að því, með því að benda á galla og agnúa sambandslaganna í fyrra, að knýja flutningsmenn og fylgismenn þeirra til þess að skýra þau sem mest Íslendingum í vil — og þykist jeg hafa unnið þjóðinni gagn með því, ekki alllítið því að nú verður að skýra og skilja lögin samkvæmt staðhæfingum þeirra manna, sem báru þau fram, samþyktu þau á þingi og fengu síðan þjóðina til að samþykkja þau í trausti til þeirra skýringa, er þeir höfðu gefið.

Ef sambandslagamönnunum hefði haldist uppi að samþykkja frv. í fyrra að mestu þegjandi, þá hefði þjóðin staðið berskjaldaðri fyrir.

Skoðanir mínar, er jeg ljet í ljós í fyrra, verða eigi notaðar til lögskýringa á sambandslögunum, þar sem þeim var þverneitað af meiri hluta þingsins, sem rjeð úrslitum málsins. Það er því hin mesta fjarstæða, er hæstv. forsætisráðh. (J. M.) vill nú nota orð mín í fyrra nýmælum sínum til liðsinnis.

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) vildi sýna skoðanaskifti mín, með því er hann las upp úr þingtíðindunum af ræðu minni. En jeg vil þá minna á það, að hæstv. forsætisráðh. (J. M.) tók einnig til máls um þetta margnefnda atriði við umræðu málsins, og jeg er ekki viss um, nema hann hafi einnig breytt nokkuð skoðun sinni í málinu, eftir orðum hans að dæma. Hann hjelt því þá fram, að skoðanir mínar um búsetuskilyrðið væru rangar, þar sem það kæmi oft fyrir í íslenskum lögum, að ekki gilti sömu ákvæði um Íslendinga búsetta heima og erlendis. — Framsetning hæstv. forsætisráðh. (J. M.) er að vísu dálítið óljós, hvort sem það stafar af því, að honum hefir sjest yfir að leiðrjetta „loðna“ framsetningu skrifarans, eða þá af öðrum ástæðum. Jeg ætla að lesa upp kafla þann úr ræðu hæstv. forsætisráðh. (J. M.), sem að þessu lýtur, — með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta er ekki óþekt í íslenskri löggjöf. Skal jeg nefna fossalögin, sem ákveða líkt hjer um og sama er að segja um námulögin. Þau gera mun á þeim Íslendingum sem búsettir eru í landinu og hinum, sem verið hafa langdvölum erlendis. Það, sem háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.; hefir sagt, er því fjarstæða að þessu leyti. Skal jeg svo ekki fara frekar út í það.“

Það getur því varla verið alvara hæstv. forsætisráðh. (J. M.), er hann sagðist hafa búist við fylgi mínu með nýmæli sínu í þessu máli.