29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1556 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Bjarni Jónsson:

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) kvað svo að orði í ræðu sinni, þeirri er síðast flutti hann, að engi myndi þess þörf að svara þm. Dalamanna, því ekkert hefði hann það til málanna lagt, er aðrir hefðu eigi áður sagt. Virðist að vísu mörgum svo, sem snúa mætti orðum þessum með meira sannmæli á hendur þeim góða manni, og mun jeg fyrir þá sök eigi orðmargur vera að sinni, því augljóst mun vera góðum mönnum og greindum, hversu sniðgenginn er hjer sannleikurinn. Mun jeg færa þess nokkur dæmi, og enn freista að renna rökum nokkrum undir málstað minn og íslenskra rjettinda, og hirði jeg eigi, hvort mönnum þykir betur eða ver. Hefir og aldregi verið þann veg farið skapi mínu, að jeg sveigði skoðanir mínar af vegi rjettum, þótt af þeim hlyti jeg óþokka nokkurn þeirra manna, er heitið hefi jeg þýlyndar ættjarðarætur. Þykist jeg og hvorki þurfa að kikna nje blikna, þótt staðið hafi öllum stundum framarla í fylkingarbrjósti frelsismála vorra og framsóknar. Mun jeg og heldur eigi vægðar beiðast nje vorkunnsemi, þótt staðið hafi á öndverðum meiði við andskota þjóðernis vors og þjóðfrelsis og varnað því, að glataðist svo góður arfur og dýr, sem er tunga feðra vorra. Mun jeg enn halda fornum hætti og hvetja menn sóknarinnar, er vegið er að rjettindum vorum af vábeiðum frelsis vors, þótt bæði þetta þing og önnur hafi sannreynt mjer að sömu leyti, að eigi tjóar bleyðimenn að hvetja hreystiverka. Vonar mig þó, að eigi muni enn gengið svo gæfu vorri, að vjer fáum eigi borgið sóma vorum og sjálfstæði.

Annars er það eigi nýtt, að þeir sjeu háði leiddir og heiftyrðum, er eigi vilja gerast auðsveipir taglhnýtingar erlendra áhrifa, og hafa þeir fyr mátt þola köpuryrði heimskra manna og illgjarnra — og stefni jeg því þó ekki til hæstv. forsætisráðherra (J. M.).

En til hans vil jeg þó beina því, þar sem hann sagði, að ekkert hefði verið í ræðu minni nýtt, að muna hefði hann mátt latneskan talshátt alkunnan, er svo segir: auditur et altera pars. Var mörgu þann veg farið í ræðu hans, að engi hefði verið vanþörf þess, að hann kynti sjer betur ástæður vorar, og ekki þarf að harma það, þó fleiri flytji en jeg einn, og er góð vísa sjaldan of oft kveðin.

Vil jeg nú nefna til þess nokkur dæmi, hversu ósvarað er ástæðum mínum sem fyr gat jeg.

Jeg sagði, að ósamræmi væri í því, að telja svo, sem 5 ára búseta stappaði nærri samningsrofum, en ekki 2 ára. Þetta hefði hæstv. forsætisráðherra (J. M.) að ósekju mátt skýra betur en orðið er.

Jeg sagði, að minni hlutinn hefði viljað gera úr lögjafnaðarnefndinni einskonar yfiralþingi. Þessu hefði hæstv. forsætisráðherra (J. M.) mátt svara.

Jeg sagði, að vakið hefði verið hjegómahjal um sum atriði máls þessa af hendi minni hlutans. Þarna hefði hæstv. forsætisráðherra (J. M.) þurft að koma til hjálpar liðsmönnum sínum, fyrst þeir skilja ekki sjálfa sig, hvað þá aðrir.

Jeg hafði neitað því, að meginástæða minni hluta till. væri umhyggja fyrir Íslendingum erlendis, þó að svo væri látið í veðri vaka. Þessu hefði hæstv. forsætisráðherra (J. M.) mátt hnekkja, ef unt er.

Jeg hefði eytt yfirborðsástæðum frsm. minni hlutans (P. J.) og afhjúpað nekt þeirra og fánýti. Þar hefði hæstv. forsætisráðherra (J. M.) mátt koma skjaldsveini sínum til varnar, þar sem augljóst er, að hann má ekki megna því, að bera vopn á þingi þessu. Og hafa úr því horni hrotið ýms þau ummæli, er betur væru ókveðin. Mun jeg svo eigi orðlengja meira en orðið er um þessi atriði, því hjer má taka undir þau hin fornkveðnu orð:

Hælumsk minst í máli,

metumsk heldr at val feldan.

Mun jeg og óhræddur leggja mál mitt í dóm sannsýnna kjósenda, og uggir mig, að einhver málstaður muni eiga þar erfiðari sakarsókn en minn. Því sannfærður er jeg þess, að enn muni sannast það, er jeg sagði einhverju sinni í kvæðiskorni, að

Ísland ævinlega

öflin styðja góð.

Vil jeg svo víkja nokkrum orðum að öðrum atriðum, og þá fyrst að því, sem drepið hefir verið á um þingmannafjölda og kjöraðferð.

En þar sem hæstv. forsætisráðherra (J. M.) var hræddur um að þetta mundi rekast á atvinnumálalöggjöfina, þá á ekki að þurfa að koma til þess, ef stjórnin bregst fljótt og vel við þingsályktunartill. þeirri, er frv. mitt um atvinnufrelsi var afgreitt með hjer í deild.

Hv. þm. S.-Þ (P. J.) kvað búsetuskilyrðið stappa nærri broti á sambandslögunum. En ef hann les grandgæfilega nefndarálitið, þá skil jeg ekki í öðru en hann hljóti að hverfa frá þeirri firru og koma auga á, að hann gengur þar í berhögg við foringja flokks síns sem í nefndarálitinu segist vera meiri hlutanum fyllilega samdóma um, að vjer höfum lagalegan rjett til að setja svo langt búsetuskilyrði, sem oss sýnist, í stjórnarskrána, fyrir kosningarrjetti og kjörgengi til Alþingis, og eins um hitt, að tryggja beri Íslendingum vald yfir málum sínum. Undir þetta skrifar þingmaðurinn (P. J.) sjálfur fyrirvaralaust, og þarf þá ekki framar vitnanna við um það, á hve miklum rökum orð hv. þm. (P. J.), þau er hann mælti nú, eru bygð.

Þar sem jeg talaði um yfirþing, sagði jeg ekki, að það væru orð hv. þm. (P. J.). Þó var það rökrjett ályktun af orðum hans; jeg kunni að draga hana, en þingmaðurinn ekki.

Hv. þm. (P. J.) sagði, að búsetuskilyrði minni hlutans væri eins hagkvæmt eins og búsetuskilyrði meiri hlutans, með því að því mætti breyta með einföldum lögum og lengja búsetutímann. En þá fer nú að minka drengskapur okkar við Dani, ef við höfum það bak við eyrað að lengja búsetutímann þegar minst varir og þeim óvörum, ef til vill upp í 10–20 ár, hvenær sem hv. þm. (P. J.) eða öðrum þykir þörf á að afstýra með því yfirvofandi hættu. Jeg tel það vera drengilegra gagnvart Dönum að setja þegar í stað í stjórnarskrána ákveðið búsetuskilyrði; þá verður torveldara að svíkjast að Dönum og þeim fáu Íslendingum, sem erlendis dvelja, með nýjum, óhagkvæmum búsetuskilyrðum. Til þess þarf breyting á stjórnarskránni og samþykki kjósenda tveggja þinga.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) gat þess, að sumstaðar væri það í lögum, að þeir, sem fæddir væru í ríkinu, en hyrfu þaðan og mistu ríkisborgararjett sinn við það, ættu hægra en aðrir með að öðlast hann aftur, ef þeir leituðu heim til föðurlands síns. Jeg kannast ekki við þetta, og væri gott að fá að vita, hvar það væri.

Það mun vera siður í öllum löndum að setja skilyrði fyrir kosningarrjetti í stjórnarskrár landanna, því að öðrum kosti yrði alt of auðvelt að hringla með þessi grundvallarrjettindi kjósendanna; þá mætti breyta skilyrðunum á einu þingi og án þess að kjósendum gæfist kostur á að láta vilja sinn í ljós. Gæti þá vel svo farið, að breytingin yrði gerð að fullum óvilja kjósenda og í ósamræmi, við skoðanir þeirra.

Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) hefir alveg misskilið mig, þegar jeg gat um, að hann væri í stjórn fossafjelags. Mjer er alveg sama, hvort það er norskt eða danskt. Jeg nefndi þetta af því, að hv. þm. (P. J.) talaði um, að eigi mundi stafa hætta af flutningi Dana hingað til lands. Benti jeg á þetta af því, að jeg taldi víst, að hann, sem stjórnandi fossafjelags, mundi vita vel um fyrirætlanir þess. Jeg geri ráð fyrir, að þær sjeu ekki smáar, og þá ætti hv. þm. (P. J.) að sjá, þegar hann fer að skoða málið grandgæfilega, að ekki eru lítil líkindi fyrir innflutningi til fossaiðnaðarrekstrarins, ef fyrirætlanir fjelags hans hepnast, og þó er það fjelag ekki eitt um hituna hjer. Jeg mintist ekki á það, að hv. þm. (P. J.) er í stjórn fossafjelags, í því skyni, að blanda því inn í deilumál okkar, heldur til að minna hann á, að hann hlyti að geta sjeð það að allmikil líkindi væru þess, að hingað mundu bráðlega flytjast margir útlendingar. ef fjelag hans og önnur slík fjelög tækju fyrir alvöru að starfrækja fossa hjer á landi. Jeg talaði ekkert um það, hversu duglegur stjórnandi hv. þm. (P. J.) mundi vera, og ætla mjer ekki að gera það.

Svo skal jeg ekki að þessu sinni þreyta menn á fleiri athugasemdum, þótt margt sje eftir, sem leiðrjetta mætti. Þó er eitt eftir, sem jeg má ekki alveg ganga fram hjá. Hæstv. forsætisráðherra (J M.) sagði, að það væri rangt hjá mjer, að þingið í fyrra hefði lofað því, að setja búsetuskilyrði inn í stjórnarskrána í ár. Jeg hefi þegar gert grein fyrir því, af hverju jeg teldi, að hjer væri um beint loforð þingsins að ræða, þótt eigi kæmi það fram í ályktunarformi, og þýðir ekki að vera að taka það fram aftur. Allur almenningur mun og hafa litið svo á, að hjer væru um loforð að ræða. Þetta getur hæstv. forsætisráðherra ekki hrakið.