29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg sje ekki, að það sje neinn verulegur munur á frásögn okkar hv. þm Dala. (B. J.). Jeg sagði, að hann hefði sagt, að ná ske gæti hann gert sig ánægðan með 4 ára búsetutíma, og nú segir hann sjálfur, að hann hafi sagt, að þetta gæti komið til mála, svo að þá hefir honum ekki þótt það frágangssök. Það er ekki fullkomlega rjett sem sagt er í nefndarálitinu, að öll nágrannaríki vor á meginlandi Norðurálfunnar setji ríkisborgararjett sem skilyrði fyrir kosningarrjetti og kjörgengi. Þetta er vægast talað, býsna villandi, því að hvorki stendur þetta skilyrði í stjórnarskrá Frakka nje Ítala. (B. J.: Líklega ekki heldur í stjórnarskrá þeirra Balkanskagabúa). Má vel vera. Það stóð ekkert um það í bók þeirri, sem jeg hefi þetta úr.