01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg ætla að drepa stuttlega á þær brtt., sem fram hafa komið við 3. umr. málsins. Og leyfi jeg mjer að fara eftir röð.

Þá er fyrst brtt. á þgskj. 604, sem háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) talaði um, og fer í þá átt, að fjölga lítið eitt bæði landskjörnum þingmönnum og þingmönnum kosnum óhlutbundnum kosningum. Þessa till. finst mjer að ætti að samþykkja, þó að jeg hins vegar hafi litla von um, að svo verði gert, eftir þeim undirtektum að dæma, sem lík till. fjekk hjer við 2. umr. En fari svo, að hún verði feld vænti jeg þess, að till. hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) nái fram að ganga. Till. á þgskj. 605 fer að vísu of skamt, en nokkur bót væri í að fá hana samþykta, enda get jeg ekki trúað öðru en að hún verði nú samþykt, svo sjálfsagt sem það er að fjölga þingmönnum Reykjavíkur.

Um brtt. á þgskj. 604, við 27. gr., er það að segja, að hana læt jeg mjer í ljettu rúmi liggja. Jeg álít, að íhaldið verði jafnmikið, hvort sem verður ofan á. Það, sem einna helst mælir með brtt., er það að áhugi manna í kosningunni kann að verða nokkuð daufur, ef kosið er að eins um 3 þingmenn 4. hvert ár. Það þótti ekki vera um mikið að tefla þegar kosnir voru 6 í einu, hvað þá heldur þegar þeir verða að eins 3. Því væri má ske best að sleppa alveg landskjörnu þingmönnunum, eða þá hafa þá 12. En nú liggur það ekki fyrir hjer, og skal jeg því ekki fjölyrða um það.

En það liggur hjer fyrir önnur brtt., sem fer fram á að þrengja kosningarrjettarskilyrðin. Þegar kosningarrjetturinn er eins almennur og hjer er, þá væri í rauninni ekki óeðlilegt að heimta einhver kunnáttuskilyrði. Hins vegar finst mjer varhugavert að setja þau í stjórnarskrána. — Ef till. minni hl., um að gera rúm fyrir þessum skilyrðum, hefði verið samþykt, þá hefði hjer verið öðru máli að gegna. Þá væru þau sett í kosningalögin. — Jeg gat þess um daginn, að ekki væri rjett, að þess fyndist ekki dæmi, að slíkt ætti sjer stað í kosningalögum. Jeg skal geta þess, að á Ítalíu er ákveðið „próf“ sett að skilyrði fyrir alla þá, sem ekki er fyrirfram vitað um að hafa meiri mentun. Þetta hefði mátt taka til athugunar hjer síðar meir, ef brtt. hv. minni hluta hefði náð fram að ganga. En að fara að setja það í stjórnarskrána nú þegar álít jeg ekki rjett. Og till. hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) kann að brjóta í bága við sambandslögin. Að minsta kosti er hún varhugaverð að því leyti, að verði hún samþ., þarf hún að vera svo skýrt orðuð, að engum ágreiningi geti valdið. Auk þess kemur þessi till. svo seint til athugunar, því hún mun ekki hafa verið athuguð af nefndinni, að jeg tel óheppilegt að samþykkja hana nú. En auðvitað ræður hv. deild hvað hún gerir. Sje jeg ekki ástæðu til að segja meira um það.

Brtt. á þgskj. 623 er ekki annað en orðabreyting, og það til hins betra frá því, sem er í stjórnarskrárfrv.

Í rauninni þarf jeg ekki að bæta við það, sem sagt hefir verið um brtt. hv. þm. Dala. (B. J.), á þgskj. 573. Nefndin hefir tjáð sig á móti henni. Mjer sýnist ekki rjett að láta þingrof ná til landskjörinna þingmanna, nema um breytingu á stjórnarskránni sje að ræða. En í því falli tel jeg, að svo mætti vera.

Um brtt. á þgskj. 587 er það að segja, að jeg held, að full ástæða sje til, að þing komi saman ár hvert, og varla mikill sparnaður viðhafður, þó þessi tillaga yrði samþykt. Færi svo, þyrfti að setja ákvæði um breytingu fjárhagsársins. En till. verður líklega feld.

Þá er brtt. á þgskj. 621. Það kann að vera, að hún hafi eitthvað til síns máls í sjálfu sjer. En jeg held, að hún geti verið dálítið hættuleg. Einkum held jeg, að fátækum og smáum sveitarfjelögum geti stafað nokkur hætta af því, ef það á engin áhrif að hafa á almenn mannrjettindi, þótt menn hafi þegið sveitarstyrk og standi þess vegna í óbættri sök við sveitarfjelagið. Jeg held, að þessi krafa sje ekki í samræmi við ástandið og borgaralegt fjelagslíf, eins og það er nú. En má ske er þetta framtíðarmál. Þar að auki má með einfaldri löggjöf bæta svo úr, að það komi ekki mjög ósanngjarnt niður, þó einhver hafi þegið fátækrastyrk. Hv. þm. Dala. (B J.), sem flytur þessa till., mun hafa talað við mig um þetta, þegar stjórnarskráin var samin. Mun jeg hafa sagt, að nokkur sanngirni væri í þessu, en jeg teldi hinsvegar ekki fært að setja það í stjórnarskrána. En það mætti sem best setja ákvæðið með einföldum lögum, sem bættu úr þessu, eins og jeg tók fram áðan. Það læri ekki í bága við stjórnarskrána. Sem sagt, jeg legg ekki mjög mikla áherslu á þetta atriði, en þó álít jeg dálítið varhugavert, að það sje samþykt nú, einkum með tilliti til fátækra sveitarfjelaga. Það geta þeir og dæmt um, sem þekkja betur til þessa en jeg.