01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (1329)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Gísli Sveinsson:

Eins og málum hagar nú, er aðallega um tvö atriði að ræða, sem menn greinir á um. Í fyrsta lagi deilir hv. þm. á um, hvort setja eigi ákvæði í frv. um það, að fjölga skuli þingmönnum. Jeg tel enga ástæðu til að setja ákvæði um þetta í stjórnarskrána, þar sem fjölgunin má fara fram eftir almennum lagaákvæðum. Ef á annað borð þarf að fjölga þingmönnum, má gera það á þann hátt.

Í öðru lagi er ágreiningur um ný skilyrði, sem sumir vilja setja fyrir kosningarrjetti og kjörgengi. Lá og fyrir till. um slík skilyrði við 2. umr. málsins, frá 1. þm. Reykv. (J. B.), sem ekki kom þá til atkvæða, en var tekin aftur. Hún var um að menn yrðu að tala og rita íslensku stórlýtalaust, ef menn ættu að hafa kosningarrjett hjer á landi. En bæði er ilt að dæma um þetta atriði, og ef ætti að taka þetta nokkuð strangt, væri ekki útilokað, að sumir landsmenn af kjósendum, og jafnvel einhverjir þeirra, sem sæti eiga eða geta átt á Alþingi, reyndust ekki alls kostar að fullnægja þessu skilyrði. Og það þyrfti víst ekki sjerlega mikinn strangleika til.

En eins og jeg sagði, er þessi till. nú tekin aftur og önnur komin í hennar stað og að öllu vægari. Eftir henni er þess krafist, að menn skilji og tali íslenska tungu sæmilega. Þetta á nú víst að eins að koma til greina sem vörn gegn útlendingum, er setjast hjer að og vinna sjer hjer kosningarrjett að öðru leyti. En það má búast við, að þetta geti líka komið niður á Íslendingum. Og þó að sjálfsagt sje að gera þá kröfu til þingmanna og ráðherra að þeir skilji og tali íslenska tungu, enda mun svo æ reynast, þá getur verið varhugavert að setja öllum kjósendum þetta skilyrði. Kjósendur geta t. d. verið mállausir. (J. B.: Þá hafa þeir fingramál). Já, en jeg geri nú ráð fyrir, að svo yrði ef til vill skilið, að það kæmi ekki að haldi hjer. Og einnig er langt frá því, að menn hafi áttað sig til fulls á því, hvernig „þekkingarskilyrði“, ef setja ætti þau í lög, eiga að vera, og það er eðlilegt. Til þess hefir tíminn verið alt of stuttur hjer á þingi. En til þess að ráða þessu sæmilega til lykta væri einhlítt að setja aftan við 29. gr., að frekari skilyrðum um þekkingarkröfu mætti koma á með einföldum lögum, eftir að trygt er, að 5 ára búsetuskilyrðið er orðið fastákvarðað. Mjer finst mjög handhægt að hafa hjer sviðið opið. Og þó að jeg telji ekki tímabært að setja nokkur skilyrði nú, fram yfir það, sem jeg nefndi um búsetuna, þá mætti vel í hv. Ed. bæta því inn í frv., að auka mætti við kosningarskilyrðin síðar að þessu leyti.

Þó er till. hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) sönnu nær en till. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Hann segir í till. sinni, að til þess að geta haft kosningarrjett verði menn að hafa þá almennu þekkingu, sem heimtuð er eða heimtuð kann að verða af ungmennum á fermingaraldri. Í þessu eiga að vera málsskilyrði eftir því, sem hann var að tala um. En jeg sje ekki, að hægt sje að setja þau skilyrði þannig, eins og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) virðist, með því að fara í kringum það mál. Hann var jafnvel svo ófeilinn, að segjast gera þetta svona úr garði til þess, að það sæist ekki, hvað bak við lægi. En jeg tel mjög varhugavert að fara með nokkrum yfirdrepsskap í þessu efni. Hjer á að koma hreint fram. Hv. þm. sagði þetta meint sem „þjóðernisvörn“. Getur verið, en þá er þess þó fyrst að gæta, hvort þetta er nokkur þjóðernisvörn Jeg neita því. Því að þetta er svo alment skilyrði, að í því þurfa ekki að felast nein málsskilyrði sjerstaklega. Hjer er að eins að ræða um skilyrði, sem heimtuð eru til fermingar og gætu átt við hvar sem væri, bæði í Danmörku og annarsstaðar. Það mætti skilja till. þannig, að hafi Dani, sem búsettur er hjer, að eins uppfylt þau skilyrði, sem honum voru sett undir fermingu í Danmörku, geti hann haft kosningarrjett hjer, þótt hann hvorki skilji eða tali eitt orð í íslensku.

Sami hv. þm. (Sv. Ó.) sagði enn fremur, að þetta ætti að vera vörn gegn skrílræði. En slíkt er fjarstæða. Því að skríllinn getur verið til, þótt hann hafi uppfylt fermingarskilyrðin. Það er vitanlegt, að um öll lönd er fjöldi manna, sem hagar sjer eins og skríll, og hefir þó ekki að eins uppfylt fermingarskilyrðin, heldur eru jafnvel ýmsir af þeim lærðir menn svo nefndir.

Það er enn fremur fullvíst, að það eru alls ekki allir landsmenn, sem uppfylla þau skilyrði, sem heimtuð eru nú undir fermingu. Marga eldri menn yrði þá að svifta kosningarrjetti. Og þótt hv. þm. ætlaðist til, að nánar yrði gengið frá þessu í kosningalögunum, þá er ekki hægt að setja það inn í þau, sem bryti í bág við sjálfa stjórnarskrána. En eftir till. verður a. m. k. að uppfylla þau skilyrði, sem þar eru talin. Yfirleitt er þessi till. þannig vaxin, að næsta ótrúlegt væri, ef þetta þing, eða nokkurt annað þing, gæti sett hana inn í sína stjórnarskrá.