01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (1330)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Björn Kristjánsson:

Það voru hjer tvær till., á þgskj. 604 og 605, sem jeg vildi lítillega minnast á.

Till. á þgskj. 605 fer fram á að fjölga þingmönnum um tvo. Hin till. gengur í sömu átt, en vill láta fjölga þm. um fjóra, og fái Reykjavík tvo af þeim, en hinir tveir verði kosnir hlutbundnum kosningum um land alt. Till. þessi kom á síðustu stundu, og jeg hafði ekki tíma til að koma með viðaukatill. En eins og kunnugt er, hefir Hafnarfjörður vaxið svo á síðustu árum, að hann ætti fullkomlega rjett á að hafa einn þingmann. Og ef þingmönnum yrði fjölgað um fjóra, þá er gefið, að sá kaupstaður hlyti að fá einn af þeim, þar sem líka kunnugt er, að þjóðin er á móti því, að fjölga landskjörnum þm. Í mínu kjördæmi var þannig samþykt till. um að afnema þá, án þess að við þingmenn kjördæmisins gæfum nokkurt tilefni til þess. Jeg hefi verið að bíða eftir því, að fram kæmu brtt. í þinginu um að gera landskjörna þingmenn að kjördæmakosnum þingmönnum. En það er ekki orðið enn.

Það er sjálfsagt, að þingið fjölgi þingmönnum um 4, úr því engin till. hefir komið fram um það að leggja niður þá landskjörnu. Jeg álít, að Reykjavík eigi ekki að fá 2 þingmenn í viðbót, heldur 3; það má ekki minna vera en hún hafi þingmann á hverja 1000 kjósendur. Jeg býst við, að þessari viðbót yrði sanngjarnast og heppilegast skift þannig niður, að Reykjavík fengi 3 þingmenn, en Hafnarfjörður 1. Og þessi viðbót má ekki minni vera, úr því þeir landskjörnu eru ekki afnumdir, en það hefði verið heppilegast að mínu áliti, og þá hefði ekki þurft að fjölga þingmönnum. (E. A.: Það eiga ekki að vera nema 2 kjördæmakosnir, því það er tekið fram, að tala þeirra landskjörnu eigi að hækka úr 6 í 8). Það mun rjett vera, en jeg vænti þess fastlega, að þessu verði breytt í hv. Ed., og í því trausti tala jeg um þessa viðbót, eins og hún væri eingöngu á kjördæmakosnum þingmönnum. Það vinst ekki tími til að breyta þessu þannig nú, en þó mun jeg greiða atkv. með till. til Ed., og vona, að hún láti ekki undir höfuð leggjast að breyta henni í rjetta átt. (S. S.: Vonandi kemst hún aldrei til Ed.). Jeg held, að það sje óþarfi að hrósa sigri þegar í stað. Jeg hefi að minsta kosti ekki eins litla trú á sanngirni og skynsemi hv. deildarmanna og hv. 1. þm. Árn. (S. S.) virðist hafa. Jeg trúi því ekki fyr en jeg tek á því, að þingið sýni aðra eins rangsleitni eins og það væri að fella till. Bæði Hafnarfjörður og Reykjavík eiga heimtingu á fleiri þingmönnum. Þessi till. bætir þar ekki fyllilega úr, en hún hefir möguleika til þess; það þarf að eins litla breytingu, og jeg vona, að hátt”. Ed. komi með hana.