01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (1331)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Frsm. (Benedikt Sveinsson):

Nefndin hefir ekki haft tíma til að taka ákveðna afstöðu til þeirra brtt., sem fram hafa komið. Margar eru að eins endurvakningar á fyrri till., og er hægt að vísa til þess, er þá var um þær sagt. Þó er hjer ein ný, frá hv. þm. Borgf. (P. O.), á þgskj. 587, um að þing skuli haldið annaðhvert ár. Um þessa till. get jeg talað fyrir nefndarinnar hönd, því að öll nefndin var á einu máli um að aðhyllast breytingu stjórnarinnar óbreytta. Nauðsyn á þingi hvert ár hefir verið skýrð og rökstudd hjer og skal jeg ekki fara langt út í þá sálma að þessu sinni. Hjer gengur alt hraðari fetum en áður, viðburðarásin örari og nauðsyn á skjótum ráðum og fljótum framkvæmdum meiri. Nefndin verður því eindregið að mæla á móti þessari till. Jeg get viðurkent það, að hv flm. till. (P. O ) mælti svo vel með henni, sem unt var, en þó gat hann ekki hrundið þeirri nauðsyn, sem á því er, að þing verði haldið ár hvert. En ef svo ólíklega vill til og óhöndulega, að þessi till. verði samþykt, þá þarf að breyta mörgu öðru í frumvarpinu samkvæmt því. Það verður ekki samræmi í þeirri breytingu, að kjörtímabilið sje 4 ár, ef þessi till. verður samþykt. Þingmenn sitja þá að eins tvö þing, en sú breyting er ekki til bóta. Fleiru þyrfti að breyta, og ef mönnum væri alvara með þessa till., þá ættu þeir að fara fram á, að málið yrði tekið af dagskrá, til þess að færi gæfist til að koma samræmi í frumvarpið. Flm. hafa ef til vill treyst því, að Ed. breytti þessu, en jeg tel það varla vansalaust þessari deild að vísa hverju málinu á fætur öðru óköruðu til Ed., í því trausti, að hún lagfæri misfellurnar. En jeg býst við, að till. verði feld hjer, og þó að hv. þm. Borgf. (P. O.) hafi mælt skörulega með henni, þá hefir hann líklega sannfært fáa með ræðu sinni.

Þá kem jeg að tillögum þeirra hv. fyrra þm. Reykv. (J. B.) og hv. fyrra þm. S.-M. (Sv. Ó.). Þær ganga báðar nokkuð í líka átt, þar sem önnur fer fram á íslenskukunnáttu sem kosningarrjettarskilyrði, en hin almenna þekkingu Jeg lýsti því fyrir nefndarinnar hönd við síðustu umr., að hún gæti ekki fallist á till. hv. fyrra þm. Reykv. (J. B.). Hann hefir nú breytt henni nokkuð, en þó býst jeg ekki við, að nefndin sem heild geti fallist á hana. Sumir munu halda því fram, að hún stappi nærri broti á sambandslögunum, en jeg get ekki sjeð, að svo sje. Jeg held, að menn sjeu yfir höfuð of viðkvæmir í því efni. En jeg býst við, að till. yrði erfið í framkvæmd; það yrði ilt að koma því þannig fyrir, að hún kæmi að gagni. Jeg mun þó fyrir mitt leyti greiða atkv. með henni, því að jeg tel hana stefna í rjetta átt. Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) virtist halda því fram, að þessi till. geri 5 ára búsetuskilyrðið óþarft. Jeg fæ ekki sjeð, að svo sje, enda ætlast hv. flm. (J. B.) til, að það ákvæði haldist áfram, og telur eins mikla þörf á því eftir sem áður, hvort sem till. hans nær fram að ganga eða eigi. Jeg get fallist á röksemdaleiðslu hans í því efni og skal því ekki fara út í slíkt hjer. Þá var talað um, að till. væri óskýr, en jeg held, að allir, sem vilja hafa fyrir að lesa hana, geti sannfærst um, að hún tekur af öll tvímæli, enda hefir ekki komið fram misskilningur á innihaldi hennar.

Það, sem jeg hefi hjer sagt um till. hv. fyrra þm. Reykv. (J. B.), verða öfugmæli ef því er beint að till. hv. fyrra þm. S.-M. (Sv. Ó.). Hann ætlaðist til, að tillaga sín kæmi í stað 5 ára skilyrðisins, sem honum þótti sem glófi í andlit Dana. Ef íslenskukunnátta er talin með þessum almennu þekkingarskilyrðum, þá fæ jeg ekki sjeð, að hv. þm. hafi bætt mikið úr skák fyrir sambandsþjóðina. Það er því nokkuð einkennilegt, að þm. skuli verða til þess að bera hjer fram till., sem að vísu er nógu meinleysisleg á pappírnum, en er í raun og veru engu síður brot á samningi, að hans áliti, heldur en þær tillögur, sem hann andæfir. Ef till. er sprottin af óvild til 5 ára skilyrðisins, og sú óvild er formkend, en ekki efniskend, þá er svo að sjá, sem till. eigi að vera gildra fyrir hv. Ed. Það er ein ástæða meðal annars til að skera till. niður. Það á ekki að þurfa að „veiða“ neinn til þess að gæta rjettar Íslendinga. Auk þess er till. óskýr, þokukend og illframkvæmanleg. Sennilega verður þessi almenna þekking að miðast við það, sem heimtað er af börnum í það og það skifti í gildandi fræðslulögum. Það getur vel farið svo, að skilyrðin verði strangari síðar en nú eru þau, og þá gætu sumir þeir tapað kosningarrjetti, sem hefðu átt hann samkvæmt eldri lögunum, en ekki uppfyltu þau nýju skilyrði. Eins gæti hæglega farið svo, ef miðað er við fræðslulögin, að sumir þeir menn fengju ekki kosningarrjett, sem þó hefðu notið þeirrar fræðslu, er þau fyrirskipa. Sumir menn eru svo settir, að þeir hafa ekki ástæðu til þess að halda við barnalærdómi sínum, þótt þeir þroskist að öðru leyti í lífinu. Jeg get nefnt nokkur dæmi. Það er heimtað í fræðslulögunum, að börnin læri utanbókar nokkur kvæði. Hversu margir munu þeir vera, sem kunna þau kvæði alla æfi? Jeg er hræddur um, að jafnvel einhverjir hv. þm. mistu kosningarrjett sinn fyrir þá sök, að þeir væru farnir að gleyma þeim kvæðum. Og munu margir ryðga í með aldrinum bæði ritningargreinum og fræðikerfum kirkjuumr. Í fræðslulögunum er líka ákveðið, að unglingarnir skuli kunna nokkur sönglög. Mörgum fer svo með aldrinum, að þeir verða illa til söngs fallnir. Menn verða rámir og ósöngnir, og ekki víst, að allir stæðust það próf. (E. A.: Jeg staðist það að minsta kosti ekki). Jeg held því, að þessi till. komi jafnvel fullhart niður á Íslendingum sjálfum, og að minsta kosti mundi ekki vafalaust, hversu henni skyldi beitt.

Viðvíkjandi brtt. á þgskj. 604 ætla jeg að vera stuttorður. Jeg held, að till. sem þessi sje til einskis annars en tefja málið og vekja sundrungu. Nefndin gat ekki komið sjer saman um neina breytingu frá því, sem er í frv. stjórnarinnar, og var þó mikið rætt um það í nefndinni, og getur hún því sem slík enga afstöðu tekið til þess. Skoðanirnar eru svo sundurleitar, að ef farið væri að ýfa þær, gæti það orðið til þess, að alt málið strandaði, og væri þá ver farið en heima setið. Allir nefndarmenn hafa óbundnar hendur í þessu efni, en úr því engar ákveðnar till. gátu fengið fylgi hennar og hún kaus heldur að halda friðinn, þá býst jeg ekki við, að nefndarmenn ljái þessari till. fylgi sitt.

Þá er till. um það, að kjósa alla landskjörna þingmenn í einu lagi og virðist mjer hún hafa nokkuð til síns máls. Það er satt, að það tekur því varla að hóa þjóðinni allri saman til að velja 3–4 menn. Það má þó segja, að þjóðin muni ekki telja þetta eftir sjer og kunni betur við að fá sem oftast tækifæri til að hafa hönd í bagga með framkomu og vali þessara manna. En það hefir hún betur og nánar, ef aftur er kosið. Einhverjir geta reynst illa, og þjóðin vill þá fá tækifæri til að fá aðra betri sem fyrst í þeirra stað. Það er óneitanlega nær fullu „þjóðræði“, að þjóðin hafi sem oftast færi á að taka í taumana og skifta um menn. En að öðru leyti virðist mjer brtt. ekki svo mikilvæg, eins og hún liggur fyrir, að vert sje að gera hana að kappsmáli.

Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um brtt. við 65. gr., á þgskj. 623. Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sýndi fram á, að það væri betra að halda því, sem er, og er jeg honum þar sammála.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv., og býst við, að þetta verði í síðasta skifti, sem jeg þarf að tala um það. Jeg vænti þess, að hv. Ed. fari ekki að grauta neitt í málinu, enda yrði það að eins „Sysifosarverk“. Hv. Ed. þarf ekki að efast neitt um það, að sá mikli meiri hluti, sem hjer í deild hefir samþykt það atriðið, sem helst mun valda ágreiningi — skilyrðin fyrir kosningarrjetti til Alþingis — lætur ekki undan í því efni. Þótt hv. Ed. færi að halda málinu til streitu, þá mun sá endir á verða, að 5 ára búsetuskilyrðið verður samþykt, enda er það í samræmi við nærri alla þjóðina. Jeg hefi fáar raddir heyrt andmæla því, og hefir kveðið við sama tón, hvort sem talað var við sjálfstæðismenn eða heimastjórnarmenn. Þetta vona jeg að háttv. Ed. athugi vel, áður en hún hefur sundrungu og deilur um búsetuskilyrðið.