01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í B-deild Alþingistíðinda. (1333)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Jörundur Brynjólfsson:

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) gat þess í upphafi máls síns, að hann vænti þess, að brtt. mín við frv. fengi ekki fylgi deildarinnar. En jeg verð að segja hæstv. forsætisráðh. (J. M.), að jeg flutti hana alls ekki með það fyrir augum, að jeg byggist við stuðningi hans með þessari tillögu, eða hvort hann mundi greiða atkvæði með henni eða ekki.

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) þótti sem tillagan mundi koma í bág við sambandslögin; en það mundi hún jafnt gera, hvort sem ákvæði hennar stæðu í stjórnarskránni eða kosningalögunum, þar sem hæstv. forsætisráðh. (J. M.) fanst hún eiga heima og önnur slík ákvæði sem þessi. En jeg lít öðrum augum á þetta; jeg skoða, að öll hald- óð kosningarrjettarskilyrði eigi einmitt heima í stjórnarskránni; þaðan er torveldara að kippa þeim burtu en úr kosningalögum. En um það, hvernig þetta eða þessu lík ákvæði verði framkvæmd, tel jeg eiga heima í kosningalögunum.

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) þótti ákvæðin í brtt. vera nærgöngul við Dani; hið sama má og segja um búsetuskilyrðið, sem þegar hefir verið samþykt. En hvorugt er skilyrðið þó nokkurt brot á sambandslögunum. Það er auðvitað, að með báðum þessum skilyrðum er Dönum gert hóti erfiðara fyrir að ná kosningarrjetti en Íslendingum, sem hjer hafa heima setið. Þannig er það með búsetuskilyrðið, að ef við tökum t. d. tvo menn, annan danskan, en hinn Íslending, sem hefir alið aldur sinn hjer á landi, og hugsum okkur, að báðir sjeu 24 ára að aldri, þá fær Íslendingurinn hjer kosningarrjett 25 ára, en hinu verður að bíða eftir honum í 5 ár, ef hann hefir flutt inn í landið 24 ára, og fær hann ekki fyr en 29 ára. Það mundi reyndar Íslendingur, sem dvalið hefði í Danmörku fram að 24 ára aldri, ekki heldur fá. Líkt er um málið, að dönskum manni mundi veitast nokkru erfiðara að ná þeirri þekkingu í íslensku, sem nægja þætti til þess, að hann gæti öðlast kosningarrjett, heldur en Íslendingi; en þó gæti ákvæðið ekki lagt neinar þær tálmanir í veg fyrir Dani til að njóta rjettinda hjer, sem þeir ættu ekki að geta unað við. Mjer skilst sem að það muni vaka fyrir hæstv. forsætisráðherra og fylgifiskum hans — þeir hafa aftur og aftur sagt það — að reyna að koma inn í kosningalögin einhverjum stórvægum og þýðingarmiklum ákvæðum fyrir kosningarrjetti Dana hjer á landi, en þeir vilja ekki, að þessi ákvæði sjeu fastbundin í stjórnarskránni. En eftir því, sem sumir þingmenn hafa talað hjer, þá býst jeg við, að þessi ákvæði mundu verða nokkuð vægari en hjer er farið fram á. En mjer finst, að þessi tillaga mín sje svo væg, að það virðist ekki minna heimtandi af kjósanda en að hann skilji sæmilega tungu þjóðarinnar, þar sem hann á kosningarrjett, og geti gert sig skiljanlegan á henni. Mig undrar það mjög, að háttv. þm. Dala. (B. J.) virðist vera líkrar skoðunar um þetta atriði eins og hæstv. forsætisráðherra (J. M.). Jeg hefði ekki trúað, að hann mundi hafa viljað samþykkja sambandslögin í fyrra, ef hann hefði ekki haft í huga að leggja meiri hömlur á áhrif Dana á þjóðmál vor en nú virðist hann vilja. Háttv. þm. (B. J.) kvaðst eigi vilja samþ. tillöguna af því, að hún gæti skert rjettindi einhverra, og að hann vildi ekki, að einn saklaus gyldi tíu sekra. Þetta gæti alveg eins vel átt við búsetuskilyrðið, og þó datt háttv. þm. (B. J.) ekki í hug að nota þau rök þá. Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) var ekki alveg á sömu skoðun; en þó var hann andstæður tillögunni, af því að honum þótti hún ekki vera nógu vel undirbúin eða nógu skýrt sett fram. En jeg held, að háttv. þm. (G. Sv.) ætti þá að vera vorkunnarlaust að geta skilið, hvað tillaga mín fer fram á, og jeg er sannfærður um, að ekkert sjerlegt vandhæfi muni vera á því að meta, hvaða Íslenskukunnátta megi teljast viðunanleg. Háttv. þm. (G. Sv.) virtist bera málleysingjana svo mjög fyrir brjósti, og var það vel gert af honum. En það veit hann þó, að þeir læra hjer á landi sitt mál á íslensku og geta gert sig skiljanlega á íslensku. Svo þetta skerðir ekki rjettindi þeirra. Þá er eftir blinda fólkið. Talað getur það og skilið íslensku og líka lesið upphleypt letur, ef því er kent það, og jafnvel líka skrifað. Háttv. þm. (G. Sv.) kvað stjórnarskrárnefndina ekki annars hafa tekið afstöðu til tillögu minnar. Hún hefði þó ekki átt að þurfa að vera lengi að átta sig á henni, því að lík tillaga kom hjer fram árla á þinginu. Háttv. þm. (G. Sv.) var líka á því, að ákvæði lík tillögu minni, eða enn frekari, yrðu sett í kosningalögin, og hefi jeg ekki á móti því, en eigi verður það gert að þessu sinni.

Þá var háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) að mæla fram með sinni till. og taldi henni það til gildis, að með henni væri Dönum sýnd meiri kurteisi en eftir tillögu minni. En það er þó sýnt, að hans tillaga gengur ekki skemra. Og fyrst svo er, hví á þá að fela fyrir mönnum það, sem á bak við liggur? Eru það nokkur meðmæli með henni, að leita þarf að hinni eiginlegu merkingu hennar? Jeg fyrir mitt leyti kann því altaf best, sem sagt er berum orðum og blátt áfram.

Þá hafa nokkrir þingmenn gerst því andvígir, að sett sje í stjórnarskrána ákvæði um að fjölga þingmönnum. Skil jeg þó ekki í því, þar sem enginn hefir hreyft því, að það væri í sjálfu sjer ósanngjarnt.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) kvaðst ekki geta verið því fylgjandi af því, að samkomulag hefði ekki getað orðið um það í nefndinni. En hve nær verður það, sem fult samkomulag verður um slíkt atriði? Jeg býst við, að það verði seint. Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, að þetta mætti altaf gera með sjerstökum lögum. Jeg býst þó við, að ekki verði það gert hjeðan af á þessu þingi, en þá er ekki víst, að við ráðum, sem nú eigum hjer sæti, þar um framar. En ef við teljum þetta rjett, er sjálfsagt fyrir okkur að skera þegar úr um það. Og þótt háttv. þm. Dala (B. J.) og V.-Sk. (G. Sv.) kunni að telja sig sjálfkjörna á þing svo lengi, sem þeir draga andann og eru rólfærir, þá verða þeir þó að gæta þess, að þeir eru dauðlegir sem aðrir menn, og því engin trygging fyrir, að þeim endist aldur til að koma á þessari breytingu. Það er því engan veginn rjett að fresta þessu, ef það einu sinni er rjettlátt. En að þessar tölur megi ekki sjást í stjórnarskránni nú, það nær engri átt. Sje þingmönnum fjölgað, á það einmitt að standa í stjórnarskránni.

Annars get jeg verið þakklátur háttv. frsm. stjórnarskrárnefndarinnar (B. Sv.) fyrir það, að hann var heldur hlyntur till. minni um íslenskuþekkingu sem skilyrði fyrir kosningarrjetti. Jeg vona því, að hv. þingmenn verði með því, að ákvæðið verði nú þegar sett inn í stjórnarskrána. Og jeg verð að telja það mjög bága frammistöðu að vera á móti svo sjálfsögðu atriði.