01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1611 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Björn Kristjánsson:

Í sambandi við það, sem jeg sagði áðan um rjett Hafnarfjarðarkaupstaðar til þess að fá sinn sjerstaka þingmann, vildi jeg láta í ljós þá ósk mína um brtt. á þgskj. 604, að hún yrði borin upp lið fyrir lið, svo að fram geti komið, hvort menn óska að fjölga að eins kjördæmakosnum þingmönnum, eða bæði þeim og hinum landskjörnu.

Þeir, sem eru með því, að kjördæmakosnum þingmönnum verði fjölgað um fjóra, geta þá verið með þrem fyrstu liðunum, en þeir, sem vilja fjölga hvorumtveggja, geta verið með öllum liðum till.

Jeg skal geta þess, að flutningsmenn tillögunnar hafa leyft mjer að bera fram þessa ósk, og eru þeir því ekki mótfallnir því, að atkvgr. verði hagað þannig. Vona jeg því, að hæstv. forseti sjái sjer fært að verða við þessum tilmælum mínum.