01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1612 í B-deild Alþingistíðinda. (1336)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Pjetur Jónsson:

Jeg skal ekki lengja mikið umr. þessar. Mjer þótti þó rjett að gera að eins grein fyrir atkvæði mínu.

Það er víst öllum ljóst, að jeg er ekki ánægður með 29. gr. eins og hún var samþ. við 2. umr., og sje jeg ekki miklar líkur til, að hún batni nú við þessa umr. Sömuleiðis var jeg óánægður með það, að ekki komst að brtt. mín og 1. þm. Reykv. (J. B.) um skipun þingsins, en það geri jeg þó ekki að neinu kappsmáli í þetta sinn, eins og sjá má af því, að jeg er hjer nú meðflytjandi að miðlunartill. um þetta efni.

En þrátt fyrir óánægju mína með þessi atriði mun jeg þó ekki greiða atkv. móti því, að málið fái nú þegar að fara upp í Ed., af því að jeg tel sjálfsagt, að báðar deildir fái að fjalla um það, þótt það hafi verið athugað af samvinnunefnd beggja deilda. Jeg mun því ekki greiða atkv. á móti frv.

En jeg skal taka það fram, að í því felst engin yfirlýsing um það, hvernig jeg haga atkvæði mínu þegar málið kemur hingað aftur að leikslokum.