15.09.1919
Efri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Frsm. (Karl Einarsson):

Hv. þm. Ak. (M. K.) hafði sitthvað að segja um 26. gr., og mintist á, að ekki hafði fengist samkomulag í samvinnunefndinni um mikilsverð ákvæði í þeirri grein. Jeg skal játa það, að hver höndin var upp á móti annari, þegar um breytingu á 26. gr. var að ræða. Og greinin ber það með sjer, eins og hún nú er, að menn hafa viljað láta tölu þingmanna óútkljáða á þessu þingi. Atkvæðagreiðslan í hv. Nd. sýndi og, að ekki er árennilegt að fá nokkuð ákveðið fram á þessu þingi um þetta.

Hv. þm. (M. K.) talaði nokkur falleg orð um ágæti landskjörinna þingmanna. Hann kvað þá yfirleitt vera starfshæfa og þjóðkunna menn, sem komnir eru til vits og ára. Hjer höfum við 6 landskjörna þm., sen allir hafa auðvitað þessa eiginleika jeg skal ekki draga það í efa. En jeg geri ráð fyrir, að sumir af okkur hinum þykist líka hafa einhverja af þessum ágætu eiginleikum, og að það megi gera ráð fyrir, að svo verði framvegis. Það er samt ekki einskisvert að hafa flokk sex fastra manna, sem stundum gætu haldið aftur af nýjum mönnum og athugað mál þeirra grandgæfilega.

Hv. þm. AK. (M. K.) gat þess, að komið hefði fram í samvinnunefndinni, að best væri að hafa enga landskjörna þm. Það kann að vera, að þessi skoðun hafi komið fram hjá einum manni, en eins og hv. þm. (M. K.) sagði, voru skoðanirnar um þessa grein jafnmargar mönnunum. Um mig get jeg sagt það, að jeg vildi gjarnan fjölga landskjörnum þm., en jeg ræð ekki nema mínu atkvæði, og því er fullsjeð, að á þessu þingi verður ekki hægt að koma fram neinu ákveðnu um þingmannafjölda. Það verður að bíða næstu þinga.

Tillaga hv. 1. landsk. varaþm. (S. F.) og hv. þm. Ak. (M. K.), á þgskj. 771, er óheppileg, vegna þess meðal annars, að samkvæmt henni er ekki að eins hægt að fjölga þingmönnum, heldur og að fækka þeim. En fækkun þingmanna væri mjög óheppileg, eftir skoðun hv. þm. Ak. (M. K.) sjálfs. Ef nefnd væri í till. ákveðin tala þingmanna, mundi jeg ef til vill hafa getað fylgt henni, en í þessu formi er hún óaðgengileg.

Hv. þm. Ak. (M. K.) sagði, að það gengi hneyksli næst, að þetta stóra bákn væri sett af stað, landskosningarnar, til að kjósa eina þrjá menn. En samkvæmt þessum reglum eru kosnir 6 menn af 14 í efri deild, og það álít jeg hreint ekki vera lítið. Það er alt að því helmingur annarar deildarinnar.

Jeg hefi ekki heyrt haldið fram, að menn hafi komið sjer saman um að fjölga þingmönnum: heldur hefi jeg ekki heyrt, að kaup þingmanna sje alment talin ölmusa; hefir það helst komið til orða hjá hv. þm. sjálfum, og hugsanlegt er, að einhver blaðamaður hafi slegið því fram, til þess að slá um sig. Þá er auðvitað sú leiðin til, að gjalda þingmönnum ekkert kaup. En mjög eru skiftar skoðanir um hversu heppilegt það sje.

Þá talaði hv. þm. Ak. (M. K.) um 29. gr. og sagði, að þar væri deilan að eins um formsatriði. Verð jeg að lýsa yfir, að jeg get ekki fallist á þann skilning. Er jeg sammála meiri hluta nefndarinnar um, að það hafi mikla þýðingu. Getur og hver maður sjeð, að það er ekki eingöngu formsatriði, að dómari og tvö vitni eigi að vera viðstaddir. Mjer finst heldur ekki formsatriði, hvort það er hverju þingi í sjálfsvald sett að taka atkvæðisrjettinn af heilum flokki manna, að hvert þing geti með einföldum lögum breytt búsetuskilyrðinu. Jeg álít, að það geti orðið beinlínis hættulegt, að þingið geti þannig hringlað með kosningarrjettinn. (M. K.: Ótrú á framtíð landsins). Það er ekki ótrú á framtíð landsins, en við álítum, að svo stórt mál þurfi rækilegan undirbúning, þann undirbúning sem stjórnarskrárbreyting gefur. Hver einstakur maður á ekki að vera háður geðþótta hvers þings í þessu efni.

Hv. þm. Ak. (M. K.) þótti undarlegt, að nefndin hefði ekki getað komið sjer saman. En mjer finst ekki tiltökumál, þó nefndin hafi skifst í þessu máli eins og það kom fram. Þá hjelt sami hv. þm. því fram, að meiri hluti nefndarinnar væri að reyna að vinna sjer þjóðhylli með framkomu sinni. Verð jeg að lýsa yfir, að dylgjur um slíkt eru á engum rökum bygðar. Að lokum skal jeg taka fram, að jeg er á sömu skoðun og áður, um að þétta atriði eigi að standa í stjórnarskránni.