15.09.1919
Efri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Kristinn Daníelsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram nokkrar brtt., á þgskj. 784. Jeg mun samt eigi tala langt um þær, því að háttv. frsm. (K. E.) hefir staðfest, að þær sjeu eingöngu orðabreytingar, og mælt með þeim. Jeg verð að eins að gera athugasemd við síðustu málsgrein 41. gr. Þar er síðasta orðið „því“, en ef brtt. mín við 41. gr. nær fram að ganga, á þar að standa ,,þeim“. Jeg skal ekki tala meira um brtt. mínar, en legg þær undir dóm háttv. deildarmanna.

Mjer finst liggja í augum uppi, hvernig um þetta mál muni fara hjer í háttv. deild. Um 29. gr. er ekki ástæða að fjölyrða, þar eð háttv. frsm. (K. E.) hefir gefið greinilega og — mjer liggur við að segja — drengilega yfirlýsingu um afstöðu nefndarinnar til hennar. — En það er eitt atriði, sem jeg vildi spyrja háttv. nefnd um. Mjer er eigi ljóst, hvernig hún hefir hugsað sjer að tryggja Reykjavík rjettindi til að fá fleiri þingmenn. Sá rjettur er ómótmælanlegur og viðurkendur af öllum. Sömuleiðis hefir Hafnarfjörður gert kröfu til að fá sjerstakan þingmann, sem hann einnig á fullan rjett á eftir mannfjölda. Þennan hnút hefði mátt leysa með því að afnema landskjörnu þingmennina og láta Reykjavík og Hafnarfjörð fá sína þingmenn í þeirra stað. — Háttv. þm. Ak. (M. K.) taldi víst að það fyrirkomulag hefði ekki fylgi þjóðarinnar. Jeg skal taka fram, að sú ástæða hefir eigi aftrað mjer frá að bera slíka tillögu fram. Fór jeg til þings með áskorun frá kjósendum mínum um að bera fram slíka tillögu, en jeg hefi þó ekki gert það vegna þess, að jeg hefi heyrt á háttv. þm. mörgum, að það muni ekki vera til neins. Jeg verð að játa, að jeg get ekki sjeð, hvernig á að ráða fram úr þessu máli, eftir því sem 26. gr. er orðuð. Allir verða hygg jeg og að játa, að þingmönnum þurfi nauðsynlega að fjölga.

Háttv. Ed. er vanskipuð eins og er. Þegar ráðherrar eiga þar sæti tveir, eins og nú, er ekki hægt að framfylgja þingsköpum vegna þess, að ekki eru nógu margir til að fullskipa nefndir, svo löglegt sje. En ef svo færi, að þeir yrðu 3, eins og ekki er ómögulegt að fyrir gæti komið, yrðu alger vandræði að skipa nefndir í deildinni. Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál, en jeg hygg, að brtt. á þgskj. 771 ráði ekki á neinn viðunanlegan hátt úr þessu.

Ef það þýðir, að landskjörnum þm. megi með einföldum lögum fjölga eða fækka eftir geðþótta, tel jeg varhugavert að gengið sje inn á þá braut.

Má segja, að setningin sje þá jafnvíg á báðar hendur, þannig, að eitt þing gæti afnumið landskjörna þm., en annað svo fjölgað þeim um helming. Tel jeg þingskipunina svo mikilsvert atriði, að ekki megi breyta henni svo mjög í fljótræði, og ef til vill að þjóðinni fornspurðri.

Skal jeg svo ekki fjölyrða um málið, en vildi hreyfa þessu til þess, að hv. þingdm. ljetu í ljós hvernig þeim líst að ráða fram úr þessum vanda.