15.09.1919
Efri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Sigurjón Friðjónsson:

Hv. frsm. (K. E.) vildi halda því fram, að fastákveðið væri í 3. mgr. 26. gr. frv., að landskjörnum þm. mætti ekki fjölga fram yfir 6, nema stjórnarskrárbreyting kæmi til. En þar er á sama hátt ákveðið, að kjördæmakosnir þm. skuli vera 34 að tölu. — Nú eru menn sammála um það, að tölu kjördæmakosinna þm. megi breyta með einföldum lögum, og sje jeg þá ekki betur en að sama hljóti að gilda um landsk. þm., eftir orðalagi greinarinnar.

Jeg skal ekki fara frekari orðum um gr. þessa. Jeg lít svo á, að hún sje illa úr garði gerð, og kenni það frekar meiri en minni hluta samvinnunefndarinnar.

Viðvíkjandi fyrirspurn háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.), um kröfu Reykjavíkur að hafa fleiri þm., skal jeg benda á, að í nefndinni voru sett inn í frv. ákvæði um það, að ef þm. fyrir Reykjavík væri fjölgað, skuli þeir kosnir hlutbundinni kosningu. Var þetta gert með það fyrir augum og til þess að greiða því götu, að þm. fyrir Reykjavík verði bráðlega fjölgað, sem ekki þótti heppilegt nema með þessu skilyrði. Annars hefi jeg ekki ætlað mjer að fara langt út í mál þetta, þar sem það hefir verið mikið rætt og þá sjerstaklega í nefndinni.

En það var aðallega vegna brtt. á þgskj. 783, að jeg bað um orðið.

Öllum má vera kunnugt, eftir það, sem á undan er farið, að jeg tel hana til bóta. En meiri hl. nefndarinnar í þessari hv deild, sem er minni hluti samvinnunefndarinnar, áleit ekki rjett að koma með brtt. í þessa átt, af þeirri ástæðu, að hann taldi sjálfgefið, að hún yrði tekin út í háttv. Nd., og kynni þá að fara svo, að því fylgdu meiri breytingar til hins verra, og væri þá ver farið en heima setið.

Viðvíkjandi ræðu háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) um það, að við nefndarmenn höfum bundið okkur í nál. til að greiða ekki atkv. með þessari brtt., er það að segja að jeg álít, að við höfum bundið okkur til að koma ekki með fleiri brtt. sjálfir en þær, sem nál. fylgja, en eigum hins vegar óbundin atkv. um þær brtt., sem fram hafa komið frá öðrum háttv. þm., og eins um hitt, hvort við greiðum atkvæði með stjórnarskránni út úr þinginu eða ekki.

En þó tel jeg rjettara, að háttv. þm. Snæf. (H. St.) vildi taka brtt. sína aftur þar sem jeg hygg, að hún geti ekki orðið málinu að gagni, eins og þingið er skipað.