15.09.1919
Efri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1634 í B-deild Alþingistíðinda. (1353)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Halldór Steinsson:

Það er vegna áskorana um að taka aftur brtt. þá, er jeg hefi flutt, að jeg er neyddur til að standa upp.

Háttv. þm. Seyðf (Jóh. Jóh.) sagði, að sjer hefði komið óvart, að jeg skyldi koma fram með þessa brtt. Mjer kom óvart, að hann skyldi segja þetta, þar sem jeg vissi ekki betur en að honum væri kunn skoðun mín á þessu máli. — Hjer á þinginu hafa komið fram tvær stefnur, önnur sú, að krefjast 5 ára búsetu sem skilyrði fyrir kosningarrjetti, en hin á þá leið, að krafist væri 2 eða 3 ára búsetu, en að jafnframt væri gefin heimild til að hækka áratöluna í kosningalögunum. Þessar tvær stefnur komu glögt fram í háttv. Nd., en ef Ed. samþykkir frv. í e. hlj., yrði það ekki rjettur spegill af vilja þeirra þm., er hana skipa.

Að vísu hafa 3 hv. þingdeildarmenn gert grein fyrir því í nál., hvers vegna þeir hafi ekki komið fram með brtt. um þetta atriði, en ef brtt. kemur ekki til atkvæða, sjest hvergi, hvernig við hinir lítum á málið.

Það er því svo langt frá því, að jeg vilji taka þessa brtt. aftur. — Þvert á móti held jeg henni fast fram, og vil biðja hæstv. forseta um að hafa nafnakall um hana, þegar til kemur.