15.09.1919
Efri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Frsm. (Karl Einarsson):

Hv. 2. þm. G.-K. (K. D.) gerði fyrirspurn um það, hvernig hún ætlaði að ráða fram úr spurningunni um fjölgun þingmanna fyrir Reykjavík, er hann taldi að Reykjavík ætti fulla kröfu til, og nefndi enn fremur í þessu sambandi Hafnarfjörð, sem hefir gert kröfu til þingmanns. Það kom fram í samvinnunefndinni, að það þyrfti að fjölga þingmönnum eitthvað, og að það mundi reka að því innan skamms, jafnvel um leið og stjórnarskráin gengi í gildi, en það fjekst ekki meiri hluti í nefndinni fyrir neinni slíkri tillögu, og þar sem nefndin leit svo á, að hægt væri að fjölga þeim með einföldum lögum og samhliða síðari meðferð stjórnarskrármálsins á næsta þingi, þá tók nefndin sem slík enga afstöðu til þessa atriðis. Það getur komið fyrir að skipun efri deildar og reglur þær, er þingsköpin setja, rekist á stjórnarskrána, en þá verða þingsköpin að víkja í framkvæmdinni, enda þótt það kunni að einhverju leyti að vera óheppilegt.

Hv þm. Ísaf. (M. T.) vildi halda því fram, að brtt. sú, er komið hefir fram um 26. gr., sje engin efnisbreyting, en svo er frá sjónarmiði nefndarinnar, því með tillögunni er gefin heimild til að fækka landskjörnum þingmönnum, en til þess vill nefndin ekki veita neina heimild.

Mig furðar það, hvað mönnum hefir orðið tíðrætt um 26. gr. Því mjer líst, að ekki sje hægt að skilja hana nema á einn veg. Í fyrstu málsgrein er tekið fram, hversu þingmenn skuli vera margir, í 2. málsgr. hve margir í hvorri deild. Þessu má breyta með lögum, en í 3. málsgr. er tekið fram, hversu margir þingmenn skuli vera kosnir um land alt. Landskjörið er nýtt hjer, en það stendur ekki neitt um það, að tölu landskjörinna þingmanna megi breyta. Tölurnar 34 og 8 eru að eins afleiðing af þeim tölum, sem áður eru, 40÷6=34 og 14÷6=8, svo ef þingmenn yrðu t d. 44, þá ættu kjördæmakosnir þingmenn að vera 44÷6=38. Þetta er ofur skiljanlegt. En það væri mjög athugavert, ef hvert einstakt þing hefði leyfi til að breyta þessu eftir geðþótta sínum. En jeg skal taka undir með hv. þm. Ísaf (M. T.), að þessa grein mætti orða svo, að þetta væri skýrt og skorinort.

Þá vildi hv. 1. landsk. varaþm. (S. F.) kenna meiri hl. samvinnunefndarinnar, að eigi hefði verið hreyft við 26. gr., og skildist mjer hann þar eiga við þann meiri hluta, er myndaðist um búsetuskilyrðið. En það er ekki rjett. Meiri hluti nefndarinnar komst ekki, fremur en nefndin í heild sinni, að neinni ákveðinni niðurstöðu í málinu, og menn skiftust þar alt öðruvísi um þetta en um búsetuskilyrðið. Tek jeg þetta fram, svo eigi valdi misskilningi, því þm. munu ekki vilja láta eigna sjer þær skoðanir, sem þeir ekki hafa.

Það er rjett, sem hv. þm. Ak. (M. K.) tók fram, að það er ekki hægt að líkja landskjörinu og þar með efri deild við þær málstofur, sem teknar hafa verið til samanburðar. Landskjörnu þingmennirnir eru kosnir af sömu mönnum og hinir kjördæmakosnu, þótt aldurstakmarkið sje í við hærra, og jeg tel enga hættu á, að þeir mundu vera of íhaldssamir; að minsta kosti bæri ekki á því, á meðan þeir bera ekki hina ofurliði. Jeg hefi ekkert að athuga við það, þó að landskjörnum þingmönnum væri eitthvað fjölgað í svipuðu hlutfalli og við hina aðra þingmenn í efri deild, en jeg er eindreginn á móti því, að hvert einstakt þing sem vill geti gert það, án þess að bera það undir þjóðina. Slíkt atriði á að vera í stjórnarskránni.

Því, er hv. 4. landsk. þm. (G. G.) var að tala um varaþingmenn, þarf jeg litlu að svara. Það munu allir vera á einu máli um það, að varalandsþingmaður megi bjóða sig fram við kjördæmakosningar, og það jafnvel án þess að hann segi af sjer varaþingmenskunni. Jeg býst við, að öll nefndin líti svo á þetta . . .1) Frá ræðuskrifaranum (V. Þ. G.) vantaði niðurlag ræðu frsm. (K. E.) og sömuleiðis upphaf ræðu fjármálaráðh. (S. E.).