18.09.1919
Efri deild: 59. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Magnús Torfason:

Sakir sjerstöðu minnar til sambandslaganna og ummæla minni hl. í stjórnarskrárnefndinni kemst jeg ekki hjá því að fylgja frv. úr hlaði með örfáum orðum.

Jeg skal þá leyfa mjer að minna á það, að andstaða mín gagnvart sambandslagafrumvarpinu átti fyrst og fremst rót sína í ummælum Dana, um að breyta bæri 5 ára búsetunni í stjórnarskránni. Meðan þeim var ómótmælt, þótti mjer uggvænt, að vjer værum einráðnir um búsetuskilyrði þau, er oss var nauðsynlegt að setja oss til varnar hjer í fásinninu.

Alt öðru máli gegndi, er allir fylgismenn frv., sem töluðu af þingmanna hálfu, höfðu skýrt og skorinort lýst yfir því, að rjett væri að haga búsetuskilyrðum á þann veg, er nú er orðið.

Samþyktu Danir frv., að þeim yfirlýsingum fram komnum, gátum vjer með góðri samvisku og kinnroðalaust ráðið búsetuskilyrðunum eftir eigin þörfum, með þeirri afsneiðingu og að tilgættu því jafnrjetti, er lýsa sjer í lagaákvæðum þingsins, er hjer um fjalla.

Um þetta erum vjer nú allir eins hugar, sem betur fer.

Og hjer liggur þýðing andspyrnunnar móti sambandslögunum og þeirra umræðna, er af henni spunnust, enda er jeg ekki í neinum vafa um, að þessi hv. deild, sem er svo ant um sóma sinn, meti þetta rjettilega.

Í nefndarummælum minni hl. er vikið að því, að andstæðingar sambandslaganna hafi gert mikið úr þeirri rjettarskerðingu aflendra landa vorra, er af sambandslögunum hlyti að leiða.

Þetta nær alls ekki til mín. Jeg var þess í upphafi fullviss, að vjer yrðum að minsta kosti að súpa þann kaleik. Og þess vegna ljet Jeg það atriði fara fyrir ofan garð og neðan, bæði í nefndaráliti mínu og ummælum af minni hálfu.

Jeg hefi verið brýndur á því, að jeg hafi í sambandslagadeilunni haldið því fram, að vjer hefðum samkvæmt sambandslögunum engan rjett til að ráða neinu um búsetuskilyrði hjer á landi.

Þessu er mjer skylt að mótmæla, og nægir í því efni að minna á, að jeg tók berum orðum fram, að vjer hlytum að eiga ráð á kjördæmisbúsetunni.

Til þess að spara mjer sjerstaka fyrirspurn skal jeg, áður en jeg lýk máli mínu, með leyfi hæstv. forseta, beina til nefndarmanns lögjafnaðarnefndarinnar, sem á sæti í deildinni, spurningu um það, hvort nokkuð sje nú því til fyrirstöðu, að birtar verði gerðir millimannanna í sambandslögunum.

Sakir fyrirmæla í stjórnarskránni og væntanlegrar atvinnulöggjafar getur verið brýn nauðsyn á að hafa þær til athugunar og skýringar, er vafaatriði koma upp.