23.09.1919
Neðri deild: 71. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Frsm. (Benedikt Sveinsson):

Þó að nefndin hafi lagt til, að þessi orðabreyting yrði gerð, þá er sannfæringin ekki svo sterk hjá einstökum nefndarmönnum, að þeir yrðu mjög reiðir, þó þessi málamyndaorðabreyting yrði ekki samþykt. Jeg verð að kannast við, að hin orðmyndin getur staðist, þótt háttv. þm. Dala. (B. J.) sje að reyna að gera hana hlægilega. Jeg skal geta þess í þessu sambandi, að einn hv. þm. í Ed. sagði, að töluvert væri varhugavert að hafa veiku myndina, t. d. eins og að segja að Ísland væri fullvalda, því það ætti að segja, að Ísland væri fullvalt. Það sjest því á þessu, að hv. Ed. er full svo snjöll í málfræðinni eins og sumir hv. þm hjer.