22.07.1919
Neðri deild: 13. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1669 í B-deild Alþingistíðinda. (1403)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg skal lýsa því yfir, að ef fram kæmi brtt. um að færa tollinn niður í 10 kr., til samkomulags, myndi jeg geta fallist á hana. (E. J.: Væri 5 kr. ekki nóg?) Nei, ekki að tala um! Ef landsverslunin hefði selt saltið því verði, sem það stendur landssjóði í, eða á 240–260 kr., þá hefði það verið hart aðgöngu fyrir sjávarútveginn enda sá landsstjórnin það, og því var verðið fært stórlega niður, af sanngirni við sjávarútveginn. En það hefði verið lafhægt með einkasölu að halda háa verðinu. Saltið er nú selt á 150 kr. Það hefir verið gert af sjálfsagðri sanngirni við sjávarútveginn að færa saltverðið niður. Í raun og veru er því þessi salttollur liður í ráðstöfunum landsstjórnarinnar til þess að greiða fyrir sjávarútveginum. Í stað þess að krefjast þess, að sjávarútvegurinn greiði saltið nú þegar með þessu háa verði, þá vill stjórnin fara þá leið, að jafna hallanum niður á lengri tíma, með skatti. Ef fallist yrði á 10 kr. skatt og innflutningur yrði 20 þús. smálestir, myndi það taka á þriðja ár að fá þessa upphæð inn. Lægri en 10 kr. á skatturinn helst ekki að vera. Þetta er bráðabirgðaskattur, en ekki til frambúðar, og á að sjálfsögðu að falla niður jafnskjótt og salthallanum er náð inn. Ef lægri skattur yrði lagður á saltið til lengri tíma, er hættara við, að úr honum yrði fastaskattur á saltinu. En það mundu sjávarútvegsmenn ekki kæra sig um, enda stjórnin algerlega andvíg því.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, og ætti ekki að hafa langar umræður. Allir eru svo sanngjarnir að sjá að hallanum af saltversluninni má til að ná inn. Og sanngirni hefir sjávarútveginum verið sýnd með því, að saltverðið, sem halda mátti uppi með einkasölu, var fært niður, og sama er að segja um kolin.

Þessi tollur á saltinu er því einn liður í ráðstöfunum stjórnarinnar til að láta ekki saltverð koma of hart niður á sjávarútveginum.