26.07.1919
Neðri deild: 17. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Benedikt Sveinsson:

Háttv. frsm. gat þess, að fjárhagsnefnd hefði borist erindi frá stjórn Fiskifjelags Íslands, þar sem farið hefði verið fram á, að hallanum á saltkaupum stjórnarinnar yrði jafnað niður á 5 ár, og sagði hann, að nefndin hefði fallist á þessi tilmæli, og mundi því fylgja fyrri málsgr. brtt. minnar, sem fer fram á að lækka tollinn úr 12 kr. niður í 8 kr. á ári.

En það er ekki rjett, sem háttv. frsm. (E. Árna.) segir, að nefndin hafi orðið við beiðni fiskifjelagsstjórnarinnar, um að vinna skakkann upp á 5 árum, þótt hún aðhyllist brtt. mína. Brtt. mín var komin fram áður en beiðni Fiskifjelagsins og er því ekki í samræmi við hana.

Með brtt. minni, 8 kr. tolli á ári, er gert ráð fyrir, að hallinn vinnist allur upp á tveim árum, ef álíka miklu salti verður eytt í landinu og síðustu árin fyrir stríðið, eða yfir 40 þús. smálestir. Og þó að vjer gerum ráð fyrir, að salteyðslan verði töluvert minni næstu 2 árin, t. d. 30 þús. smálestir á ári, yrði hallinn samt unninn upp á því tímabili eða því sem næst. Brtt. mín gengur því ekki hálfa leið við það, sem stjórn Fiskifjelagsins hafði óskað enda hafði jeg ekki óskir hennar fyrir augum. Jeg hafði fyrst hugsað mjer að lækka tollinn niður í 5 kr. Færði jeg það í tal við nokkra þm., en þeir álitu, að svo mikil lækkun væri ekki vænleg til sigurs. Þess vegna þorði jeg ekki að lækka tollinn meira en niður í 8 kr., þótt mjer væri hitt miklu skapfeldara. En úr því að nefndin segist vilja fallast á tilmæli Fiskifjelagsins, ætti hún að lækka tollinn niður í 4–5 kr. Jeg sje ekki betur en að stjórnin megi vel við una að fá hallann upp borinn á 5 árum. Það er og hverju orði sannara sem stjórn Fiskifjelagsins hefir tekið fram, að margt gjaldið hvílir á sjávarútveginum um þessar mundir, en hins vegar ósýnt um arð. Hann er nægilega illa staddur, þó að ekki sje öllum hallanum af saltkaupum landsverslunar dembt á hann þar að auki á einu ári.

Síðari málsgrein brtt. minnar fer fram á, að tollinum skuli ljett af næstu áramót eftir það, að áhallinn er upp unninn. Það er ekki nefnt einu orði í frv. á þgskj 90, hve nær tollurinn skuli ganga úr gildi. Að vísu er sagt í greinargerðinni við frv., að ráðgert sje, að tollurinn falli úr gildi, þegar hallinn sje unninn upp. En mjer virðist, að einlægara sje að taka það skýlaust fram í lögunum sjálfum, hve nær tollurinn skuli falla úr gildi. Eftir brtt. minni getur tollurinn ekki legið á sjávarútveginum nema í lengsta lagi upp undir eitt eftir að skakkinn er upp unninn, en tíminn getur líka orðið miklu styttri. En ef ekki stendur nokkurn veginn rjett á um nýár, þá mun ekki mikið um það fengist, því að landssjóður fær hagnaðinn. Hinu mótmæli jeg, að það sje nokkrum erfiðleikum bundið að komast að raun um, hversu mikið flyst til landsins af salti árlega. Stjórninni ætti að vera innan handar að afla sjer upplýsinga um það fyrir hver áramót, hve mikið hefir flust inn af salti, og veit því, hve nær tollurinn skal numinn úr gildi. Jeg vona því, að háttv. þingdeild sjái, að þessi brtt. mín er til bóta og getur ekki komið stjórninni í neinar ógöngur. Og jeg veit, að útgerðarmönnum er geðfeldara, að tekið sje fram í lögunum hve nær tollurinn skuli falla úr gildi, jafnvel þótt það dragist um part úr ári eftir að landssjóður hefir fengið hallann upp borinn.