26.07.1919
Neðri deild: 17. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1676 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Frsm. (Einar Árnason):

Hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) vildi bera brigður á, að fjárhagsnefnd hefði tekið tillit til óska Fiskifjelagsins. En þar mun sitt sýnast hverjum. Hitt er auðsætt, að fjárhagsnefnd varð að fara mjög varlega í áætlun sína um innflutning á salti; annað var ekki forsvaranlegt, hvað sem háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) svo kann að sýnast. Nefndinni fanst langábyggilegast að miða áætlunina við innflutninginn tvö síðustu árin; framtíðarhorfur allar eru þannig, að valt er að byggja á, að aðflutningar muni bráðlega komast í sama horf sem áður. Það er því eðlilegt, að nokkuð skjóti skökku við með útreikninginn, þar sem háttv. þm. (B. Sv.) reiknar með 40 þús. smálesta innflutningi, en nefndin gerir ekki ráð fyrir meiru en 20 þús., eins og hann var 2 síðastl. ár.

Þess ber og að gæta, að eftir brtt. háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) verður tollurinn á tonni af salti ekki 8 kr., heldur að eins 7 kr., þegar vörugjaldið, sem nú hvílir á salti, er dregið frá.

Að svo stöddu er eigi unt að segja, hve mikið tap muni verða á salti því, sem landsverslunin hefir nú; það er ekki hægt að segja með vissu, fyrir hvaða verð hún muni geta selt það, nje heldur hver rýrnun muni verða. Þó taldi nefndin líklegt, að tapið mundi með 8 kr. tollinum vinnast upp á hjer um bil 4 árum. Það er annars óþarfi að deila um þetta atriði, því að flestir eða allir sýnast ásáttir um 8 kr. tollinn. En þá er hitt atriðið, hve nær tollurinn skuli látinn falla niður. Hv. þm. Borgf. (P. O.) vildi, að það væri tekið skýlaust fram í lögunum, að tollurinn skyldi eigi lengur standa en á meðan verið væri að vinna upp hallann á sölu landssjóðssaltsins; þó vill hann aðhyllast viðaukatill. hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) við 3. gr. frv., en eftir henni gæti svo farið, að salttollurinn hjeldist við því nær heilt ár eftir að unninn væri upp hallinn á saltinu; það gæti staðið svo á, að búið væri að vinna upp hallann skömmu eftir nýár, en eftir tillögunni á salttollurinn eigi að síður að haldast til næsta nýárs þar á eftir. Jeg fæ því eigi sjeð, að þessi tillaga sje aðgengilegri fyrir sjávarútveginn, en yfirlýsingin í greinargerðinni fyrir frv., síður en svo.

Eins og jeg tók fram, er það til ætlun fjárhagsnefndar, eins og líka kemur fram í greinargerð frv. þessa, að lög þessi standi eigi lengur en nauðsynlegt er til að fá endurgreiddan hallann á verslun landsins með salt, en ekki lengri eða skemri tíma eftir það, eins og orðið getur, ef viðaukatillagan er samþykt. Þessi er tilætlun fjárhagsnefndar og hinnar núverandi stjórnar; en auðvitað er ekki hægt að vita, hvað önnur þing eða önnur stjórn kann að gera. (B. K.: Einmitt þess vegna er nauðsynlegt, að það standi í lögunum sjálfum, hve nær þau skuli falla úr gildi). Síðari þing geta eins breytt þessu, þó það standi í lögum.

Enn er einn annmarki á brtt. Það getur verið, að hallinn sje unninn upp skömmu fyrir nýár, en stjórnin hafi ekki fengið í hendur skýrslur, er sýni það, fyr en í febrúar eða mars næsta ár, og tollur hafi því verið borgaður af salti þangað til. Það er hætt við, að það geti orðið nokkuð vafningasamt að endurgreiða þann toll, því næst liggur að skilja tillöguna þannig, að til þess sje ætlast.

Þá vildi jeg að lokum spyrja háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.): Hlýtur ekki vörutollur á salti að falla niður jafnframt salttollinum, ef viðaukatillagan verður samþykt.