26.07.1919
Neðri deild: 17. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (1411)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Pjetur Ottesen:

Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) gat þess, að með frv. þessu væri verið að gera sjávarútveginum ljettara fyrir. (Fjármálaráðherra: Jeg sagði, að það væri einn liður í dýrtíðar- og ófriðarráðstöfunum stjórnarinnar). Jæja, látum svo vera. En með því einu móti getur hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) sagði, að með þessu sje verið að ljetta undir með sjávarútveginum, að hann grípur nú, sem oftar, til einokunargrýlunnar og hampar henni framan í þingið. Því auðsætt var, að stjórnin hefði orðið að sitja með sitt salt óselt jafnskjótt og hægt var að fá það hingað með lægra verði en landsverslunarsaltið var selt fyrir. Gat hæstv. fjármálaráðh. (S E.) því ekki fóðrað orð sín með öðru en einokunarógnunum. Mjer dettur ekki í hug að hafa á móti því, að þeir, sem saltið nota, og það var sjerstaklega keypt fyrir, borgi salttollinn, en vildi koma því svo fyrir, að þeim yrði gert það sem hægast, og það verður með því, að honum sje jafnað niður á nokkur ár. Jeg veit, að landssjóði muni ekki veita af að fá sem fyrst peninga sína, en besta ráðið til þess er að leggja sem allra minstar hindranir í veginn fyrir atvinnuvegina. Það er ekki mikið gagn að því að leggja svo og svo háan toll á salt, ef hann verður til þess, að menn sjái sjer ekki fært að nota það fyrir dýrleika sakir.

Það mátti skilja orð hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) þannig, að jeg væri að færast undan því, að saltnotendur greiddu hallann, sem verða mun á landsverslunarsaltinu, þar sem hann var að tala um, að allir sanngjarnir menn væru sammála um, að þeir ættu að greiða hann. Slík orð var ástæðulaust að hafa í því sambandi, sem þau voru töluð, nema því að eins, að hann vildi skipa mjer, og þá háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), í flokk ósanngjarnra manna, sem vildu skjóta sjer undan tollgreiðslunni. En það þykist jeg ekki eiga skilið, því að jeg hefi ekki mælt á móti tollinum, heldur að eins upphæð hans á hverju tonni á salti, og hinu, að hann verði ekki heimtaður lengur en meðan verið er að vinna upp hallann.

Háttv. frsm. (E. Árna.) setti það út á viðaukatillöguna, að verið gæti, að hallinn yrði unninn upp snemma á ári, en eftir henni ætti þó eigi að síður að heimta inn tollinn til ársloka. Það er þó sá kostur við hana, að það er sett fast tímatakmark fyrir afnámi tollsins, en ekkert í frv. og með óákveðnum orðum í greinargerðinni fyrir frv. Nú virðist það liggja í loftinu hjá sumum, að þing muni eftirleiðis koma saman árlega, og mundi þá á því þingi, er kæmi saman næst eftir að vitneskja er fengin fyrir því, að hallinn sje unnin upp, vera hægt að gera ráðstafanir til þess, að þeim tilgangi yrði því sem næst bókstaflega náð, að eigi yrði greiddur meiri tollur af salti en til að vinna upp hallann af fyrirliggjandi saltbirgðum. En annars er stjórninni í lófa lagið að fylgjast með í því hvað tollgreiðslunni líður, og haga sjer eftir því.