08.08.1919
Efri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Frsm. minni hl. (Magnús Torfason):

Jeg skal ekki fjölyrða um frv. þetta við þessa umr.

Aðalástæðurnar til þess, að jeg get ekki aðhylst það, a. m. k. að svo stöddu, eru þannig lagaðar, að betur á við, að jeg komi fram með þær við 3. umr.

Við þessa umr. skal jeg að eins snúa mjer að 3. gr. frv., þar sem stendur: „Lög þessi öðlast gildi þegar í stað, en falla úr gildi við næstu áramót eftir það, að unninn er upp halli sá, er stafar af saltkaupum landsstjórnar vegna styrjaldarinnar.“

Í greinargerð frv., þegar það barst inn í þingið, sem sennilega má tileinka hæstv. stjórn, var til þess ætlast, að hallinn af saltversluninni væri greiddur með þessum tolli.

En samkvæmt 3. gr. frv. er ómótmælanlega farið fram á, að tekinn sje talsverður skattur fram yfir tjónið af saltversluninni, og getur sá ágóði orðið mikill.

Gæti svo farið, að við áramót vantaði að eins nokkrar krónur upp á, að tjónið væri greitt, og ættu þó lögin samkvæmt 3. gr. frv. að halda gildi sínu heilt ár í viðbót. Jeg get þessa af því, að útkoman í frv. er ekki samkvæm þeim ástæðum, sem gefnar voru í greinargerðinni.

Jeg skal ekki tala langt mál um þetta, en að eins geta þess, að mjer hefði þótt viðfeldnara, að gert hefði verið upp nokkurn veginn tjónið af saltversluninni og tekið fram í frv., að lögin fjellu úr gildi þegar því væri náð. Væri þetta einfaldast, og auk þess girt fyrir, að þeir, sem greiða tollinn, ættu eftirleikinn í þessu máli.

Annars má drepa á það nú, að tjón hefir orðið á sölu fleiri vörutegunda en þessarar, og er þó ekki lagður skattur á þær, og á bili hafði landsverslunin gróða af saltversluninni, og er þó ekki minst á neinn frádrátt í frv.

Best væri að fá yfirlit yfir skifting taps og gróða landsverslunarinnar á hinum ýmsu vörutegundum. Ætti þetta að geta orðið kostnaðar- og umstangslítið, þar sem landsverslunin á því láni að fagna, að hafa útfarinn hagfræðing í þjónustu sinni.

Jeg mun ekki greiða atkvæði á móti því, að málinu verði vísað til 3. umr., en áskil mjer rjett til þess, ef til vill, að koma fram með brtt.