08.08.1919
Efri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1689 í B-deild Alþingistíðinda. (1424)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Magnús Kristjánsson:

Jeg býst við, að það sje álit deildarinnar, að mál þetta eigi fram að ganga sem fyrst, og því ekki ástæða til að fjölyrða um það.

Jeg stóð upp af því, að mjer virtist hv. þm. Ísaf. (M. T.) álíta, að ekki lægju fyrir nægilegar skýrslur frá landsversluninni um saltverslunina. Stjórnin hefir þó fengið þær skýrslur um málið, sem hún hefir talið fullnægjandi.

Saltversluninni hefir, að minsta kosti upp á síðkastið, verið haldið út af fyrir sig, og ef eitthvað væri, sem hv. þm. Ísaf. (M. T.) óskaði upplýsinga um, er jeg fús á að gefa þær.

Sami hv. þm. (M. T.) mintist á, að „um tíma“ hefði verið gróði á saltversluninni. Jeg veit ekki, við hvaða tíma hv. þm. hefir átt, en að líkindum hefir það verið franska saltið, 1917. En þá, sem kunnugir eru þessu máli, hversu miklum örðugleikum það hefir verið undirorpið að flytja vörur — sjerstaklega kol, olíu og salt — til landsins á stríðsárunum, þar sem sumum skipunum var sökt, en önnur urðu fyrir stórtöfum, mun ekki furða á, þótt hagnaðurinn árið 1917 hafi hrokkið skamt til að greiða tjón af skipstöpum og skipstöfum.

Jeg skal ekki fara lengra út í málið; tel mjög óheppilegt, hversu lengi málið hefir verið á ferðinni hjer í deildinni. Landið tapar við hvern dag, sem líður, en einstakir menn græða, þar sem saltskip koma svo að segja daglega og von á miklu salti næstu daga. Vil jeg skjóta því til hæstv. forseta, hvort eigi muni hægt að taka málið á dagskrá á morgun. (S.. E.: Ef til vill í dag).