08.08.1919
Efri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Halldór Steinsson:

Mönnum kann að þykja það undarlegt, að jeg stend upp með fram til þess að bera blak af formanni nefndarinnar, hv. þm. Ísaf. (M. T.).

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) fórust sem sje svo orð, að gustur sá, er stæði af hv. þm. Ísaf. (M. T.), myndi hafa valdið töf þeirri, er honum þótti hafa orðið á málinu. Jeg verð að lýsa yfir því, að það er allsendis rangt, að formaðurinn hafi á nokkurn hátt tafið málið, enda ekki rjett, að málið hafi legið lengur í nefnd en eðlilegt er, með því að frv. kom ekki til Ed. fyr en 28. júlí, og er nú komið til 2. umr., þann 8. ágúst; þetta mun vera í stysta lagi, eftir þeim reglum, sem venjulegar eru um meðferð mála í nefndum.

En það er annað atriði, sem jeg verð að vera ósamþykkur háttv. þm. Ísaf. (M. T.) um, og það er það, að hann vill ekki kannast við það, að hjer sje um endurgreiðslu á láni að ræða. Vægari orð verða þó ekki um þetta höfð. Það er öllum vitanlegt, að þegar landsverslunin lækkaði verðið, var það mest sjávarútveginum í vil, og hver ætti þá að borga þann halla, sem orðið hefir á saltversluninni? Auðvitað þeir, sem góðs hafa notið af lækkun verðsins, sem sje sjávarútgerðarmenn. Þess vegna er rjettmætt að kalla þetta endurgreiðslu. Mjer virðist málið vera svo einfalt, að það ætti að geta gengið hljóðalaust áfram, jafnvel þótt 3. umr. væri höfð þegar í dag.