08.08.1919
Efri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (1428)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Kristinn Daníelsson:

Mjer skilst, að það muni vera orðið samkomulag um það í þinginu, að frv. þetta gangi nú fram, enda mun því engin töf verða að mjer. En jeg get ekki látið vera að taka það fram, að jeg get engan veginn fallist á skilning þeirra manna, sem halda því fram, að hjer sje um lán að ræða handa sjávarútveginum. Þegar landsverslunin útvegaði saltið, var það ekki eingöngu vegna sjávarútvegarins, heldur vegna allra landsmanna. Menn mega sem sje ekki gleyma því, að ef sjávarútvegurinn hefði fallið í kaldakol, þá hefðu byrðar þær, sem sá atvinnuvegur ber, orðið að flytjast yfir á aðra gjaldstofna. Því er það, að þótt einum atvinnuvegi sje hjálpað í bili, þá get jeg ekki fallist á það, að um lán sje að ræða. Það er gott að hjálpa atvinnuvegunum, og þá hjálp eiga allir að bera í sameiningu, með því að hjálpin er í rauninni styrkur til hinna atvinnuveganna. Annað mál er það, að þessi atvinnuvegur er ef til vill færari um að bera þetta sjálfur en aðrir atvinnuvegir. En jeg vil vekja athygli á því, að það er rangt að byggja á því, að verðið á fiskinum geti ekki fallið að sama skapi sem saltið fellur.