08.08.1919
Efri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Karl Einarsson:

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) hefir fallið frá að gera halla landsverslunarinnar á saltkaupum meiri en verslunin sjálf. Fyrst hjelt hann því fram, að varlegast væri að áætla hallann 600 þús. kr., og þannig fjekk hann þetta 4 ára tímabil, en nú ráðgerir hann hallann um 1/2 milj. kr., svo ef flutt eru inn 30000 tonn á ári, þá yrði hann greiddur upp á kring um 3 árum. Fyrir stríðið voru fluttar inn 40 þús. tonn á ári, en árið 1918, þegar búið var að selja mikið af botnvörpuskipunum og fiskibátaafli var lítill, þá voru flutt inn 20 þús. tonn. Þessa upphæð — 20 þús. tonn — leggur fjármálaráðh. (S. E.) til grundvallar fyrir útreikningi sínum, en það nær engri átt að leggja lægsta árið til grundvallar. Það er enginn vafi á því, að fiskveiðarnar aukast aftur, svo innflutningur af salti getur ekki orðið minni en 30 þús. tonn á ári, og mjer er nær að halda, að það væri nóg að tvöfalda vörutollinn á því til að fá inn þennan halla.

Það lítur svo út, að landsstjórnin vilji ná þessum halla upp sem fyrst, til þess að hún geti sýnt, að hagur ríkisins sje góður, og vil jeg ekki hafa á móti því, að svo verði gert, en það er nóg, að hann sje greiddur á þrem árum, og þá er 5 kr. tollurinn nægilega hár.