08.08.1919
Efri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (1437)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Fjármálaráðherra (S. E.):

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) vill halda því fram, að jeg hafi viljað láta þennan toll vera eilífan; slíkt er mesti misskilningur hjá honum, eins og liggur í hlutarins eðli enda hefi jeg margtekið hið gagnstæða fram. Sú stjórn, er þá situr við völd, leggur að sjálfsögðu til að upphefja lögin, þegar markinu með þeim er náð.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði, að sjávarútvegurinn ætti alt og gæti alt hjer á landi. Hann hefir því ekki einungis játað, að þessi atvinnuvegur væri megnugur þess, að skatturinn væri lagður á hann, heldur jafnvel gefið ávísun á hann, sem hinn einasta gjaldanda, sem fær væri um að bera byrðina.

Jeg hefi að vísu vitað lengi, að sjávarútvegurinn á hv. þm. Ísafjarðarkaupstaðar, en mjer var ekki kunnugt um, að þessi atvinnugrein ætti alt hjer á landi. En þótt svo sje ekki, er hún, sem betur fer, svo öflug, að hún er vel fær um að borga halla þann, sem landssjóður hefir beðið hennar vegna.

Þá sagði hv. sami þm. (M. T.), að t. d. í Danmörku væri alls eigi ætlast til þess, að allur sá halli, er landið hefir beðið á stríðsárunum yrði borgaður á einu ári. Að vísu ætlast enginn maður til þess, því það er óframkvæmanlegt, en jeg hefi átt tal við marga fjármálamenn í Danmörku, og hefir þeim öllum komið saman um að þeim tekjuhalla beri að ná inn sem allra fyrst. Enda er hjer skotið langt yfir mark, því tekjuhalli landssjóðs mun áreiðanlega nema miljón króna, þó þetta frv. nái fram að ganga.

Þá sagði hv. þm. Ísaf. (M. T.), að skattur þessi kæmi aftan að mönnum. Þetta á sjer engan stað, því mönnum er og hefir um langt skeið verið kunnugt um þessa fyrirætlun.

Jeg gat þess áðan, að óhæfilegur dráttur hefði orðið á þessu máli, og vildi hv. þm. Ísaf. (M. T.) helst kenna stjórninni um það; en þar eð alkunnugt er, að stjórnin hefir viljað flýta fyrir þessu máli svo sem unt er, sje jeg ekki ástæðu til að svara þeirri ásökun, og það því fremur, sem auðheyrt er, hvar málið mætir helst mótspyrnu. Annars álít jeg óþarfa að ræða þetta mál meira. Jeg ímynda mjer, að allir sjeu sammála um, að þessi skattur sje nauðsynlegur og rjettlátur, því jafnvel hv. þm. Ísaf. (M. T.) varð á að kannast við, að sjávarútvegurinn væri sá eini, sem byrðina gæti borið.