08.08.1919
Efri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (1438)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Eggert Pálsson:

Jeg ímynda mjer, að allir sjeu á eitt sáttir um, að sjálfsagt sje að samþykkja þetta frv.; en þótt allir sjeu á sama máli, hefir mönnum ekki orðið jafntíðrætt um nokkurt mál hjer í hv. deild. Það er, sem betur fer, óvanalegt, að svo mikið sje rætt að óþörfu hjer í hv. deild.

Það kveður svo ramt að því, að hv. þm. Ísaf. (M. T.) hefir getað spanað upp jafnspaklátan mann og mig til að taka til máls.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) segir, að sjávarútvegurinn eigi alt og geti alt hjer á landi. Með því að kveða svo að orði, segir hann, að sjávarútvegurinn eigi allar kýr, öll hross o. s. frv., með öðrum orðum eigi allan landbúnaðinn á Íslandi. Sje svo, er æðiundarlegt, að sami hv. þm. (M. T.) er altaf að kveina og kvarta fyrir hönd sjávarútvegarins og sífelt að biðja um styrk handa þessum atvinnuvegi. Man jeg ekki betur en að hann á síðasta þingi bæði um, að landssjóður tæki að sjer alla ábyrgð á síldarútveginum. Það er hverjum manni augljóst, að saltkaupin voru eingöngu gerð til styrktar sjávarútveginum, því að sjálfsögðu rjeðst landsstjórnin í svona mikil saltkaup eingöngu hans vegna. Man jeg ekki til, að miklu hafi verið kostað úr landssjóðnum til að styrkja landbúnaðinn á stríðsárunum. Árið í fyrra var eitthvert hið versta fyrir landbúnaðinn, síðan árið 1882. Varð jeg samt eigi var við, að hv. þm. Ísaf. (M. T.) hreyfði hönd eða fót landbúnaðinum til styrktar.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) mintist á, að hægt væri að ná inn þessum tekjuhalla á annan hátt. Stakk hann upp á, að tollurinn á síldartunnum yrði látinn borga hallann. En með því móti hefði skatturinn komið órjettlátar niður, er hann var lagður eingöngu á annan aðiljann. Býst jeg við, að hv. þm. Ísaf. (M. T.) hefði því líka fundið einhvern agnúa á því fyrirkomulagi.

Þá talaði hv. sami þm. (M. T.) um, að tap hefði orðið á fleiri vörum en saltinu; nefndi hann til sykur. Mjer er eigi kunnugt um, að nokkurt tap hafi hlotist af sykurkaupunum, svo dæmið var fremur óheppilega valið.

Jeg skal svo eigi lengja meira umræðurnar um þetta mál. Jeg stóð eingöngu upp af því, að mjer þótti kenna allmikils ósamræmi í ræðu hv. þm. Ísaf. (M. T.), er hann ýmist bar sig æðiborginmannlega fyrir hönd sjávarútvegarins, eða var kveinandi og kvartandi undan þeim álögum, sem hann væri látinn bera.