19.09.1919
Efri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Halldór Steinsson:

Jeg er nú ekki alls kostar ánægður með útgjaldabálk fjárlaganna, eins og neðri deild hefir gengið frá honum. Það hefir aldrei áður verið farið jafnlangt fram úr útgjaldaáætlun stjórnarinnar. Það mátti að vísu búast við því, að útgjaldadálkurinn yxi nokkuð, en svo mjög, sem raun varð á, var þó tæplega hugsanlegt, að hann yxi. Það er raunar bót í máli, að aðalhækkun útgjaldanna stafar af auknum framlögum til síma, vega, búnaðarfyrirtækja og annara þarflegra fyrirtækja, en jeg hefði þó álitið rjettara að draga nokkuð úr þeim framkvæmdum í bili og sníða sjer betur stakk eftir vexti en háttv. Nd. hefir gert.

En hitt get jeg skilið, að ekki var annars kostur fyrir háttv. fjárveitinganefnd Ed. en að ganga að frumvarpinu að mestu leyti eins og háttv. Nd. hafði gert það úr garði; ella hefði komist hinn mesti glundroði á fjárlögin.

Af þessari ástæðu mun jeg greiða atkvæði með frumvarpinu næstum óbreyttu.

En þótt jeg sje óánægður með útgjöldin, þá hefi jeg þó leyft mjer að flytja tvær breytingartillögur við frumv., sem miða að því að auka útgjöldin, þótt litlu muni. Önnur þeirra liggur fyrir til umræðu og er við 12. gr.; fer hún fram á það, að veita þrem hreppum í Hnappadalssýslu styrk til þess að vitja læknis. Eins og menn muna, hefir hjer verið samþykt frv. um að stofna sjerstakt læknishjerað í Hnappadalssýslu, og liggur það nú fyrir Nd. En með því að mjög er áliðið þingtímans og óvíst hver afdrif þessa frumv. verða þá ber jeg þessa tillögu fram til vonar og vara. Nú eru í fjárl. styrkveitingar til 10 hreppa í þessu skyni, en fæstir þeirra eru þó á þeim svæðum, sem farið hefir verið fram á að stofna sjerstök læknishjeruð, eins og þó helst ætti að vera.

Það gleður mig, að háttv. fjárveitinganefnd tekur þessari brtt. vel. Auðvitað fellur þessi styrkveiting niður, ef frumvarpið um stofnun læknishjeraðs í Hnappadalssýslu verður að lögum og læknir fæst í hjeraðið.

Þá skal jeg snúa mjer að 16. brtt. nefndarinnar. Nefndin vill setja athugasemd um það, að símalínur þær, sem nú standa í frumv., verði ekki lagðar, nema nýr aukaþráður verði lagður frá Reykjavík til Borðeyrar. Jeg hygg, að þessi athugasemd sje óþörf. Í stjórnarfrumvarpinu var ætlast til, að þessi aukaþráður yrði lagður. Hins vegar verð jeg að telja það óviðurkvæmilegt að Nd. skuli hafa felt burtu þær línur, sem í stjórnarfrumvarpinu voru, en sett aðrar í þeirra stað. Vitanlega voru þær, sem stjórnin setti, nauðsynlegri taldar, og settar eftir tillögum landssímastjóra, og hefðu því átt að standa.