08.08.1919
Efri deild: 25. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í B-deild Alþingistíðinda. (1441)

66. mál, aðflutningsgjald af salti

Frsm. minni hl. (Magnús Torfason):

Jeg ætla að eins að benda á, að eftir því, sem hæstv. fjármálaráðherra hefir lýst yfir, er meiningin með þessum skatti ekki að græða á sjávarútveginum, heldur einungis að ná aftur inn þeim tekjuhalla, er varð af saltkaupunum. Jeg fer því eingöngu fram á, að þetta sje tekið fram í frv. Vona jeg, að allir hv deildarmenn sjeu mjer sammála um, að þetta sje svo sanngjörn krafa, að hún verði samþykt orðalaust.

Annars ætla jeg bara að koma með dálitla leiðrjettingu. Mjer hefir verið borið á brýn, að jeg hafi sagt, að sjávarútvegurinn ætti alt og gæti alt hjer á landi. Þetta hefi jeg aldrei sagt, en jeg sagði, að ef landssjóður hefði lánað sjávarútveginum fje, þá væri hann sinn eigin lánardrottinn, því allar eigur landssjóðs væru til komnar fyrir álögur á sjávarútveginn; og við þetta stend jeg. Hv. 1. þm. Rang. (E. P.) má vita, að jeg hefi aldrei ætlað mjer að taka frá honum hestana eða kýrnar, fremur en vatnið. En sú stefna virðist nú vera ríkjandi í landinu, að það eigi að leggja allar skyldur og skatta á sjávarútveginn. Vil jeg í því sambandi minna hv. 1. þm. Rang. (E. P.) á síldarskattinn, sem lagður var á árið 1916–17. Var þó langt frá, að sá atvinnuvegur væri fær um að bera þær álögur þá, enda neyddist hann til að beiðast hjálpar, en sú hjálp varð, eins og menn vita, nokkuð dýrkeypt.