19.09.1919
Efri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárveitinganefndar (Eggert Pálsson):

Það má segja, að sá kafli fjárlaganna, er nú byrjar, sje þungamiðja þeirra, enda eru mestar og flestar brtt. nefndarinnar við þennan lið, eða till. 34–78, auk nokkurra till. frá einstökum þingmönnum.

Fyrstu brtt. nefndarinnar við 15. gr. eru eftir sömu reglum og till. þær, sem nú er búið að samþ. um dýrtíðaruppbótina.

Athygli nefndarinnar hefir verið vakin á því, að 1. liður f. í 15. gr., 9000 kr. handa Landsbókasafninu til að kaupa bækur og handrit og láta binda inn bækur, væri of lágr.

Fjárveitinganefndin hefir eigi borið fram neina breytingu á þessu, en henni hefir hins vegar borist erindi, sem bendir til þess, að nauðsynlegt sje að hækka þennan lið því á honum hvíli bókbindari safnsins, eða laun hans, og þegar búið er að greiða honum sæmileg laun og auk þess að greiða 1000 kr. afborgun á sönglagasafni Jónasar heitins Jónssonar, og svo greiðslur af söfnum þeirra Jóns heitins Borgfirðings og Sighv. Gr. Borgfirðings, þá sjá allir, að lítið verður eftir til bókakaupa. Jeg býst því við, að óhjákvæmilegt verði að hækka þennan lið við 3. umræðu.

Undir 5. lið a. í 15. gr. er eldiviður og ljós áætlað 5000 kr. fyrra árið, en 4500 kr. síðara árið og er engin brtt. við þetta, en nefndinni hefir borist kvörtun um, að Safnahúsið væri ekki nógu lengi hitað upp svo að að því væru óþægindi, bæði fyrir þá er notuðu söfnin og eins fyrir þau sjálf. Það var mælst til þess að hjer væri hætt við athugasemd um að húsið væri nægilega hitað en nefndin hefir eigi gert það, af því hún lítur svo á að það sje óþarfi. Það sje sjálfsagt að hita húsið svo að söfnin komi að fullum notum eða sje ekki hætt við skemdum sökum ónógs hita.

Þá ber nefndin fram nýjan lið, um að veita dr. Jóni Þorkelssyni styrk til utanfarar. Tillaga þessi var feld í háttv. Nd., en að því er jeg hygg ekki með miklum atkvæðamun. en nefndin hefir tekið tillöguna upp. Dr. Jón Þorkelsson hefir sjeð um útgáfu Forbrjefasafnsins og er þegar komið svo mikið út af þessu mikla heimildarriti fyrir alla sögu landsins að nefndin taldi óviðeigandi að útgáfa þess fjelli niður. En það er efamál mikið, að það geti haldið áfram, ef styrkur þessi verður ekki veittur, því það er nú svo komið, að dr. Jón Þorkelsson er að þrotum kominn með efni til þess hjer heima fyrir, og telur því nauðsynlegt að fara utan til rannsóknar á söfnum þar í þessu skyni. Má þar til nefna safn Árna Magnússonar og fleiri söfn, en þessu hagar svo, að óhægt er að vísa öðrum á brjef þau eða skjöl, er afrita þarf, enda þótt hægt væri að fá færa menn til afritunarinnar. Þetta hefir og orðið örðugra við fráfall Kålunds bókavarðar, því hann var, eins og menn vita, góður haukur í horni þegar til íslenskra fræða kom. Með þetta fyrir augum sjerstaklega var það, að nefndin tók upp styrkinn, enda ekki víst, hversu lengi við njótum doktorsins eða óbilaðna starfskrafta hans.

Þá er 20. liðurinn um styrkinn til skálda og listamanna. Nefndin leggur til, að hann sje lækkaður hvort árið um 4000 kr., og rökstyður hún það með því að hækkunin sje samt mikil, því styrkur þessi er nú 12000–14000 eða 13000 kr. á ári að meðaltali, og nemur hækkunin því 5000 kr. þótt brtt. nefndarinnar væri samþykt, en annars 9 þúsundum. Þessi hækkun er í raun rjettri miklu meiri, því þrjú skáld er nutu styrks af þessum lið, nefnilega skáldin Guðm. Guðmundsson, Guðm. Magnússon og Jóhann Sigurjónsson, hafa hnigið í valinn, og fjórði maðurinn, V. Briem vígslubiskup er færður burt af þessum lið, yfir í 18. gr. fjárlaganna. Þegar á þetta er litið, er viðbótin talsverð. Auk þess leit nefndin svo á, að eigi væri heppilegt að verja þessu fje til að verðlauna listaverk; það getur varla orðið til annars en hækka þau í verði, en þau síðan keypt handa landinu, og þá er það hið sama og landssjóður greiði tvisvar verðlaunin.

Eins og allir háttv. þingdeildarmenn kannast við, þá er þetta orðabókarmál, er 22. liður fjallar um mesta vandræðamál. Fjárveitinganefnd Nd. lagði til, að þessi liður yrði settur 9000 kr., og mun hún hafa haft það fyrir augum, að tveir fullkomnir menn auk orðasafnara eins, ynnu að verkinu, en það var felt. Þegar frv. kom hingað, var þessi liður 6000 kr., og var fjárveitinganefndinni ljóst, að það var of lítil upphæð til að miðla á milli margra svo hún tók þann veg, að ætla síra Jóh. L. L. Jóhannssyni sæmileg laun, eða 4800 kr., en Þorbergi Þórðarsyni 1200 kr., fyrir starfa þeirra við að safna orðum. Það er sýnt, að þótt þrír menn vinni að verkinu, þá miðar því seint áfram. En fram hjá þessum tveimur, sem nefndir eru í brtt., verður naumast gengið með einhvern styrk í þessu skyni, þar eð þeir hafa áður notið slíks styrks. Og hins vegar verða síðar orðasöfn þeirra að fullum notum þegar að því rekur, að áhersla verður lögð á verkið. Að fella þennan lið alfarið, niður taldi nefndin að ekki kæmi til mála, því hún leit svo á að þinginu væri skylt að sjá um, að síra Jóhannes hefði sæmileg laun, því ella mætti segja að hann hefði verið narraður frá starfi sínu, og það er ekki unt að tryggja honum aftur þann starfa, er hann hafði áður með höndum, og því taldi nefndin best að láta hann vinna að orðasöfnuninni áfram. Að því er hinn manninn snertir, cand. mag. Jakob J. Smára, þá leit nefndin svo á, að hann væri ekki ráðinn til að starfa að þessu til langframa, heldur til að vinna upp þann styrk, er eftir var þegar dr. Björn heitinn Bjarnason fjell frá, og sá samningur er því ekki bindandi fyrir framtíðina. enda á hann ekki erfitt með að bjarga sjer þótt þingið sleppi hendi sinni af honum að þessu leyti, jafnungur maður og fær í flestan sjó.

Um 26 liðinn, utanfararstyrkinn til Hannesar skjalavarðar Þorsteinssonar, er svipað að segja og um utanfararstyrkinn til dr. Jóns Þorkelssonar. Þessi maður hefir að undanförnu fengist við að semja æfisögur lærðra manna íslenskra, og hann lítur svo á, að margt af þeim skjölum, er með þarf til þess, að rannsóknin verði sem áreiðanlegust og ítarlegust, sje í söfnum ytra, og því sje nauðsyn, að hann geti rannsakað það; þar sje margt, er varpi nýju ljósi yfir æfi þessara manna. Báðir þessir menn eru komnir yfir sextugt, og því ekki víst, að þeirra njóti lengi við, ef tækifærinu er slept nú, og því telur nefndin rjett að veita styrki þessa. Báðir þessir menn eru líka framúrskarandi eljumenn og gagnrýnir, og því er víst um það, að fje því, sem þeim er veitt, er ekki á glæ kastað; þeir munu vinna fyrir því og nota tíma sinn í utanförinni vel.

Styrkinn til dr. Helga Pjeturss vill nefndin hækka fyrra árið, svo að hann geti leitað sjer lækninga. Það er viðurkent, að hann er maður vel gefinn og fróður, og því fje er því vel varið, sem fer til þess að bæta heilsu hans, svo þjóðin fái sem lengst að njóta hans.

Um styrkinn til Páls Eggerts Ólasonar leyfi jeg mjer að vísa til nál.

Þá er styrkurinn til Ólympíufararinnar. Í umsókn sinni um styrkinn taka umsækjendur það fram, að þeir hafi síðast sent 12 menn, og hafi för hvers þeirra kostað 1000 kr. Nú búast þeir við því að senda jafnmarga menn, en benda á, að sami ferðakostnaður nægi ekki, og fara fram á 20 þús. kr. styrk, en nefndin sá sjer ekki fært að leggja til, að veittar yrðu nema 12000 kr., og það þeim mun fremur, sem nefndin var ekki öll samdóma um þetta.

Um styrkinn til Trausta Ólafssonar skal jeg geta þess, að hann er eftir öllum líkum mjög efnilegur maður, bæði af prófum og öðru að dæma, og það er mikil þörf fyrir að fá slíkan mann að efnarannsóknarstofunni. En styrkurinn. 700 kr., til Helga Eiríkssonar er eigi nema það, er fjárveitinganefnd Nd. tók af upphæð þeirri, er hann taldi að hann þyrfti, og þar sem um svo litla upphæð er að ræða, taldi nefndin enga ástæðu til þess.

Um landmælingarnar mætti nægja að vísi til nál., en geta má þess, að allir eru samdóma um nauðsyn þeirra, og sómi vor liggur við að þeim sje haldið áfram, að landið sje mælt, ekki síst til bygða, hvernig svo sem um óbygðirnar fer.

En nú hafa menn lesið um það, að til sje ný uppgötvun, sem geri það kleift að mæla úr loftinu, og gæti það má ske komið okkur að haldi síðar, þegar til þess kæmi að mæla óbygðirnar, ef það reyndist annað en „húmbúg“. En hvað sem því líður, þá veitir ekki af þessari upphæð til strandmælinganna að þessu sinni, sem vitanlega verða að ganga fyrir og gerast svo fljótt, sem unt er.

Um 12. liðinn skal jeg geta þess, að þar eru Gísla Guðmundssyni ætlaðar 1000 kr., í stað 500, fyrir forstöðu efnarannsóknarstofunnar. En því starfi hefir hann gegnt, meðan annar maður hefir ekki fengist, og ber að skoða hækkunina sem nokkurskonar dýrtíðaruppbót.

Þá eru ákvæðin um byggingafræðinginn í 15. gr. Þar sem fastur byggingafræðingur er nú fenginn fyrir ríkið, virðist ekki ástæða til að launa annan mann líka, sem svo mætti skilja, að þingið ætlaðist til, ef þessi útgjaldaliður væri látinn standa óhreyfður.

Sömuleiðis leggur nefndin til að fella niður 16. lið., 500 kr. styrk til manns fyrir leiðbeiningar við raforkufyrirtæki. Það er óviðkunnanlegt að vera að ákveða þennan leiðbeiningarstyrk svona út í loftið, til einhvers og einhvers. Hins vegar taldi nefndin, að stjórnin gæti látið einhvern þann starfsmann, sem hún á annað borð hefir til slíkra starfa, framkvæma þessar leiðbeiningar borgunarlaust.

Við 24. liðinn hefir verið sett athugasemd, sem ekki er minst á í nál., og verð jeg því að skýra hana hjer. Það hefir sem sje legið fyrir umsókn frá Halldóru Bjarnadóttur á Akureyri um að minsta kosti 600 kr. styrk til að halda uppi handavinnunámsskeiði sínu á Akureyri. Hv. fjárveitinganefnd neðri deildar hefir ekki tekið þessa umsókn til greina sjerstaklega, en ákveðið eina upphæð til Heimilisiðnaðarfjelagsins, og fært það fram, að í ráði væri, að öll þau fjelög gengju í eitt samband og Halldóra Bjarnadóttir veitti því forstöðu. En það er engin sönnun fyrir því, að H. B. vilji taka því, en ef hún kysi að halda áfram námsskeiði sínu sem að undanförnu, er ekki ástæða til að svifta hana styrknum, og því síður, sem árangurinn af starfi hennar hefir verið mjög góður, að kunnugra manna sögn.

Um 35. liðinn — um brimbrjótinn í Bolungarvík — þarf ekki að fjölyrða. Það sem nefndin hefir gert í því máli, er í fullu samræmi við vilja þessarar hv. deildar og fyrri framkomu. Það var gert eftir beinni till. vitamálastjóra að hækka fjárveitinguna til brimbrjótsins í fjáraukalögunum, og með það fyrir augum, að fella hana niður í fjárlögunum. Það er líka auðsjeð, að það væri óhagkvæmt mjög að veita fje til þess í fjáraukalögunum að gera við garðinn — og þá endana sjerstaklega — og ganga frá þeim til fullnustu, ef ætti svo að eyðileggja það starf skömmu á eftir með nýrri viðbót þegar í stað. Það hefir nú þegar verið veitt nægilegt fje til að ganga tryggilega frá því, sem búið er — en það er, að sögn verkfróðra manna, svo mikið, að það kemur að góðu haldi. Því getur nú verkið hvílst um hríð, án þess að eyðileggjast, og það því fremur, sem það er nú komið svo langt, að nú þegar má hafa þess góð not og byggja við það þegar betur blæs. Jeg býst varla heldur við, að þetta mæti andblæstri í hv. Nd. Henni má vera svo kunn afstaða okkar í þessu máli.

Þá er ein ný styrkveiting, sem mörgum mun koma svo fyrir sjónir, að jeg þurfi að skýra hana dálítið. En það er veitingin til Einars Magnússonar, til að byggja brimbát. Að vísu þekki jeg ekki þennan mann persónulega, en mjer er nokkuð kunn ætt hans, og að góðu einu, og veit jeg, að þar eru margir menn dverghagir, og svo er einnig um þennan mann, að hann er talinn framúrskarandi smiður. Hann hefir nú um langt skeið verið að brjóta heilann um það, hvort ekki væri kleift að búa til bát, sem nota mætti við uppskipun í brimunum við sandana sunnanlands. Nú hefir hann gert lítið sýnishorn, og hefir það verið reynt og reynst ágætlega. Vörurnar, sem skipað var upp í þessum litla bát, reyndust alveg þurrar og óskemdar, og útbúnaður allur sýndist góður, eftir því sem um var að gera, enda þótt ýmislegt þyrfti sýnilega umbóta, bæði hvað stærð og ýmislegan frágang snerti, til að gera alt svo vel úr garði, sem smiðurinn hafði hugsað sjer. En af þessari tilraun hafa menn gert sjer glæsilegar vonir um, að fundin væri aðferð til að draga varning gegnum brimið þarna óskemdan. En það er öllum kunnugum augljóst, hvað það er mikilsvert fyrir sveitirnar í kring, þar sem lendingarlaust er við ströndina og ómögulegt að skipa upp vegna brimrótsins við ströndina, þó að ágætisveður sje ef til vill fyrir utan. Um þessa tilraun hafa nokkrir þektir og kunnugir menn austur þar vitnað í brjefi, sem jeg hefi hjer, og láta vel af.

Þá er komið að styrkveitingum ýmsum til einstakra manna. Jeg þarf ekki að fjölyrða um þær, sem fluttar hafa verið úr 18. gr. í 16. gr. Það var að eins af því, að betur þótti viðeigandi að hafa þessa liði í 16. gr., fyrst þeir eru að eins til eins árs, en ekki fastar veitingar; en hins vegar hefði ekki komið til greina að láta athugasemd okkar við 18. gr ná til þessara liða. Annars eru þarna að eins tillögur um tvær nýjar fjárveitingar, sem ekki er gerð grein fyrir í nál., sem sje til Sveinbj. Sveinssonar og Þórunnar Gísladóttur.

Um fyrri liðinn verð jeg að geta þess, að prentvilla er á þgskj. 846, þar sem stendur 200 kr. í stað 2000. Um þennan mann er það annars að segja, að hann hefir mist mikið heilsu sína við björgun manna á verslunarskipi, sem strandaði í Vopnafirði 1903. Fyrir það fjekk hann verðlaunapening, enda þótti framganga hans þar afbragð. Þessu er öllu lýst í skilríkjum, sem nefndin hefir haft, og þar bæði lýsing á strandinu eftirsjónarvotta, læknisvottorð og lýsing á högum Svbj. Svs. sjálfs. Telur hann högum sínum nú ekki sem best komið. Hann hefir fengið 2000 kr. lán hjá sveitarsjóði, án þess að það teldist beinn sveitarstyrkur, en hefir ekki getað endurgreitt það enn sem komið er, enda hefir hann orðið fyrir ýmsum þungum skellum, auk þess, sem áður er getið. Bær hans hefir brunnið, og fje sitt alt hefir hann mist í sjóinn í áhlaupabyl — og þó staðið alt af sjer fram til þessa. Hefir hann þó eignast 17 börn og komið 14 þeirra upp. Svo að hann virðist þannig ekki síður viðurkenningar sem og styrks maklegur en margur annar, sem slíks hefir aðnjótandi orðið.

Þórunni Gísladóttur leggur nefndin til að veita 500 kr. viðurkenningarstyrk, samkvæmt umsókn frá Gísla sýslumanni Sveinssyni, og er þar vitnað til hv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) um það, að rjett sje frá öllu skýrt. Þessi kona er nú orðin 75 ára og mjög lúin, en hefir fengist við ljósmóðurstörf í 35 ár, lengst af í Vestur-Skaftafellssýslu og N.-Múlasýslu, á þeim stöðum, sem fæstar aðrar yfirsetukonur hafa viljað vera. Auk þess hefir hún fengist talsvert við lækningar að öðru leyti, og þótt blessast vel.

Um breytinguna á 18. gr. þarf ekki mörg orð. Hún miðar að eins til þess að koma á samræmi milli eldri og yngri styrkþega og að láta sömu athugasemdina ná til beggja. Álitamál fanst nefndinni þó um suma þessa styrki, þó hún strykaði engan þeirra út. Vitanlegt var henni, að einn styrkþeginn, frú Elín Briem, hafði áður fengið 1000 kr. fjárveitingu í viðurkenningarskyni, og þá eigi ráð fyrir því gert, að hún myndi verða árlegur styrkþegi, og því síður, sem vitanlegt var og er, að efnahagur hennar er hinn besti. En fjárveitinganefnd Nd. hefir nú samt sem áður tekið hana upp með árlegan styrk, og fjárveitinganefnd hjer vill þá heldur ekki fara að gera það að ágreiningsmáli.

Einn maður, sem er nefndur í 18. gr, Bjarni Ketilsson, er nú dáinn, og hefir nefndin sett í hans stað Guðm. Kristinsson. Sá maður hefir lengi verið póstur milli Borgarfjarðar og Dala, en ferðir hans falla nú niður sakir breytinga á áætluninni, og þykir því rjett, að hann fái þennan litla styrk þegar hann er sviftur starfi sínu.

Um Sigrúnu Kjartansdóttur flytur nefndin brtt., svo að styrkurinn til hennar verði í sama formi og styrkurinn til Hlífar Bogadóttur, sem sje ákveðið meðlag með hverju barni í ómegð. Að vísu hækkar styrkurinn þá nokkuð í bráð, en lækkar þá hins vegar að sama skapi seinna meir, þegar ómegðin minkar.

Um styrkinn til sjera Janusar Jónssonar býst jeg við að allir verði sammála. Það er hvorttveggja, að hann er styrksins maklegur og hefir hans þörf, því þó hann hafi um eitt skeið verið talinn efnaður maður, mun það hafa gengið af honum á seinni árum.

Við 22. gr. eru engar efnisbreytingar.

Þá kem jeg að brtt. öðrum, sem fram hafa komið. Er þar fyrst að geta till. á þgskj. 893, frá hv. þm. Snæf. (H. St.), um að fella niður styrkinn til „Íslendings“ Þetta fjelag var stofnað í vetur, og reyndist mikill áhugi ýmsra bestu manna í Reykjavík á því. En það á að vinna að nánari samúð milli Íslendinga vestan hafs og austan og reyna að sjá um, að þjóðerni Vestur-Íslendinga sje sem best borgið. Jeg skal játa, að þetta er fögur hugsjón og virðingarverð. En hitt er annað mál, hvort þetta kemur að nokkru verulegu haldi til frambúðar, því viðbúið má vera, að Íslendingar, eins og aðrir, svelgist inn í enskt þjóðerni vestra. Sjálfur hefi jeg því litla trú á, að fjelag þetta og fjárframlag komi til frambúðar að verulegum notum. En meiri hluti fjárveitinganefndarinnar er annarar skoðunar og vill veita þetta fje. Fjelagið hefir farið fram á hærri styrk en hjer er gert ráð fyrir. En Nd. hefir lagt til að veita 8000 kr. fyrra árið, og er þá í ráði að senda góðan mann vestur til að halda fyrirlestra, aðallega við Jóns Bjarnasonar skólans, en hins vegar 3000 kr. seinna árið, og talið að skuli nægja.

Þá kemur orðabókin margnefnda aftur til skjalanna.

Brtt. hv. 2. þm. G.-K. (K. D.) á þgskj. 888, um að bæta Jakobi Jóhannessyni Smára við orðabókarmennina, getur nefndin ekki fylgt, og leiðir það beint af hennar eigin till., sem áður er nefnd. Einn nefndarmaður mun þó sennilega greiða till. atkv.

Hv. þm. Snæf. (H. St.) á brtt. á þgskj. 891, um að veita utanfararstyrk Jóhannesi Helgasyni til fullkomnunar í myndskurði. Jóhannes er listamyndskeri. Jeg hefi jafnvel heyrt eftir meistara hans sjálfum, Stefáni Eiríkssyni, haft, að hann telji Jóhannes þegar vera kominn fram úr sjer í þessari grein. Nú fýsir Jóhannes að leita sjer enn meiri fullkomnunar í þessum efnum. Nefndin hefir ekki tekið upp styrkinn til hans, en hefir óbundin atkv. um till. En fyrir mitt leyti þori jeg eindregið að mæla með þessum styrk. Jeg hefi sjeð ágætan grip eftir Jóhannes og er ekki í vafa um, að honum ber að veita styrkinn, svo framarlega sem hitt er ekki rjettara, að svona styrki eigi að veita af styrknum til skálda og listamanna.

Hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) og hv. þm. Snæf. (H. St.) flytja brtt. á þgskj. 907, um styrkinn til búnaðarfjelaganna. Till. þessi var ekki komin fram þegar nefndin hjelt síðasta fund sinn, svo jeg get ekkert um skoðanir einstakra nefndarmanna sagt í þessu tilliti. En jeg mun greiða brtt. atkv., því jeg sje ekki ástæðu til, að farið sje að breyta um skilyrðin fyrir þessum styrk.

Þá er brtt. á þgskj. 823, frá hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.), um styrk til aðgerðar bryggju á Blönduósi. Meiri hluti nefndarinnar er till. meðmæltur. Styrkur þessi kann að valda misskilningi, því í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir styrk til bryggjugerðar á Blönduósi. En þar er um nýja bryggju að ræða, sem ekki kemur þessari bryggju neitt við. Bryggjan, sem hjer um ræðir, er gömul, og er upphaflega bygð með styrk úr landssjóði, svo ekki er ósanngjarnt, að ríkissjóður taki nú nokkurn þátt í viðgerð á bryggunni, enda liggur nú mannvirki þetta undir skemdum og jafnvel bráðri ónýtingu, ef ekkert verður að gert.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) á á þgskj. 867 brtt. um eftirgjöf á láni til kolanáms á Vestfjörðum. Jeg man ekki glögt, hve mikið tapaðist á kolanámum þessum. (M. T.: Það var alls 52 þús. kr.). En hjer er að eins farið fram á 15 þús. kr. styrk eða eftirgjöf, svo ekki verður talið, að mikið mundi muna um, þó samþykt yrði. Á hitt er hins vegar að líta, hvort ekki sje farið inn á hála braut með þessu, og fleiri komi á eftir og vilji fá eftirgjöf á dýrtíðarláni. Annars mun hv. flutningsmaður (M. T.) skýra till. nánar. Nefndin hefir ekki fjallað um till., og eru atkv. hennar óbundin.

Á sama þgskj. er till. um, að styrkurinn til flugfjelagsins falli niður Það eru skiftar skoðanir um, hve þarft fyrirtæki flugferðirnar sjeu. Þeir, sem hafa trú á þeim, munu ekki telja styrkinn eftir, en hinir, sem álíta, að ferðirnar verði mest til gamans, draga heldur úr. Nefndin hefir óbundin ákvæði um þessa tillögu. Fjelagið fór upphaflega fram á 80 þúsund kr. styrk til stofnkostnaðar, og síðan 20 þúsund kr. árlegan styrk úr því, svo þessar 15 þúsund kr. sem í frumv. standa, eru ekki mikill hluti af því, sem fjelagið sótti um.

Þá er að lokum tillaga frá háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) á þingskjali 864. um að veita ekkju síra Árna Þorsteinssonar 300 króna styrk hvort árið, og er fjárveitinganefnd eindregið fylgjandi tillögunni. Það stendur svo á fyrir ekkjunni, að full ástæða er til að veita henni þennan styrk, og hjer er ekki verið að fara inn á neina nýja braut, heldur hafa jafnan verið veittir slíkir styrkir þegar eins hefir staðið á.

Svo skal jeg ekki fara fleirum orðum um brtt. að sinni.