19.09.1919
Efri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Kristinn Daníelsson:

Það er í sjálfu sjer óþarfi að minnast á brtt. mína á þingskj. 864, eftir að hv. framsögumaður (E. P.) hefir mælt svo vel með henni, nú í lok ræðu sinnar. Eins og háttv. þingdeildarmönnum mun vera í minni, andaðist síra Árni Þorsteinsson nú um þingtímann. Hann hafði verið þjónandi prestur í 40 ár er hann dó. Var hann vel metinn prestur og stundaði jafnan embætti sitt af alúð og skyldurækni. Lætur hann nú eftir sig ekkju sína, fjelausa, á gamalsaldri. Þau hjónin bjuggu í þjóðbraut og voru orðlögð fyrir gestrisni og mannúð. Jeg vona, að háttv. þingdeildarmönnum þyki þessi ekkja þess verð, að styrkja hana líkt og margar aðrar prestsekkjur, og fari að orðum háttv. framsm. (E. P.) við atkvæðagreiðsluna um þessa tillögu.

Auk þess á jeg brtt. á þingskj. 888, um að bæta Jakobi J. Smára inn í orðabókartillögu háttv. nefndar, með 4000 kr. hvort árið. Jeg get ekki vel skilið, hvers vegna háttv. nefnd hefir viljað kasta þeim manninum burtu, sem best skilyrði hefir til að vinna að orðabókinni, úr því henni er á annað borð haldið áfram. Maður þessi hefir gert nám íslenskrar tungu að lífsstarfi sínu og mun því að sjálfsögðu skara fram úr báðum hinum mönnunum, þótt þeir geti verið fyrir það í alla staði hæfir til að vinna sitt starf, hvor um sig. Háttv. framsm. (E. P.) sagði, að ríkinu væri skylt að sjá síra Jóhannesi fyrir lífsviðurværi, því annars liti svo út, sem hann hefði verið gintur úr embætti sínu. Það er að vísu satt, að Jakob J. Smári mun ekki hafa verið ráðinn við orðabókina til langframa, en þó hygg jeg, að líkt megi segja um hann. Hann var ráðinn til starfsins til bráðabirgða, og eftir almennum skilningi hefir það verið gert með tilliti til þess, að hann hjeldi starfinu áfram í framtíðinni, nema eitthvað sjerstakt kæmi fram, sem vekti vantraust á honum. Nú er mjer kunnugt um, að háttv. nefnd vill engan veginn sýna manni þessum vantraust, og býst því við, að ekki þurfi annað en að vekja athygli háttv. deildar á því, að það væri hreint ekki ,,fair play“ að útskúfa þessum manni einum, þegar starfinu er haldið áfram. Jeg vona, að háttv. deild sýni manninum þá sanngirni, að samþykkja brtt. mína, og geri mjer einnig vonir um, að þessu verði vel tekið þegar til kasta neðri deildar kemur.

Viðaukatillaga nefndarinnar á þingskj. 860, um að landið eigi svo „bæði“ söfnin, kemur, að mínum skilningi, ekki í bág við brtt. mína. Þetta má laga með „redaktions“-leiðrjettingu, svo það eigi við alla þrjá liðina, ef tillaga mín verður samþ. — Þá er lokið því, sem jeg hefi að segja um mína eigin brtt.

Jeg vil svo með nokkrum orðum minnast á þær brtt., er jeg hefi mestan hug á. Jeg mun í flestu hallast að tillögu nefndarinnar og mun sýna með atkvæði mínu, að jeg met þær allvel.

Um brtt. á þgskj. 893, frá háttv. þm. Snæf. (H. St.), vildi jeg fara nokkrum orðum. Það datt yfir mig og hryggði mig, þegar jeg sá þá tillögu. Jeg hafði ekki vænst þessa af þessum þingmanni. Jeg hjet honum líka í gær, að jeg skyldi finna hann í fjöru í umræðunum í dag, og efni það heit með því að segja honum nú, að jeg telji hann alt of góðan mann til að hafa komið fram með þessa tillögu. Það er kunnugt, að í Norður-Ameríku búa nú 30–40 þúsund Íslendingar, sem tala og rita sömu tungu sem vjer. Það er bersýnilegt, hve mikils það hlýtur að vera vert fyrir oss að halda þessu við. Menn hafa efast um, að landar vorir vestan hafs geti haldið við þjóðerni sínu við hliðina á ofurefli ensku menningarinnar, en um það er jeg vongóður. Það eru til hliðstæð dæmi, að smáu þjóðflokkar hafa varðveitt tungu sína við hliðina á stórum menningarþjóðum. Sömuleiðis hafa menn efast um þjóðrækni þessara manna. En nú stendur svo á, að rás viðburðanna vestan hafs hefir sýnt, að þetta eru getsakir einar. Vestur-Íslendingar hafa nú sjálfir stofnað með sjer öflugan fjelagsskap til viðhalds þjóðerni sínu og sambandinu við okkur. Það væri ómaklegt og gat ekki hugsast, að slík breyting færi fyrir ofan garð og neðan hjá okkur, enda bundust margir menn fjelagsböndum til að taka í hina útrjettu bróðurhönd Vestur-Íslendinga, ef svo má segja. Slíkum fjelögum halda ýmsar aðrar þjóðir uppi, til að viðhalda sambandi landa sinna erlendis við móðurlandið. Tilgangur fjelags þessa er að stuðla að því, að íslenskt þjóðerni og íslensk tunga megi haldast meðal bræðra vorra í Vesturheimi, og að halda uppi andlegum viðskiftum við þá. Þetta hefir stórmikla þýðingu, þó ekki sje annars vegna en bókamarkaðsins íslenska. Allir vita hvílíkt haft það er á íslenskum bókmentum og bókagerð hve fáir skilja íslenska tungu og mættu bókmentir vorar ekki við því, að þeim fækkaði. Þetta, hve takmarkaður íslenski bókamarkaðurinn hefir verið, hefir jafnvel orðið þess valdandi, að sum okkar bestu skáld hafa valið sjer að rita á öðrum málum. Þessi hætta myndi vaxa við það, að Vestur-Íslendingar týndu þjóðerni sínu, en það má ekki verða. Meðan þeir halda tungunni gera þeir oss að þessu leyti sama gagn og þeir væru hjer. Fjelögin beggja megin hafsins hafa ákveðið að halda uppi starfsemi sinni á þann veg að senda menn hvort til annars. Nú hefir verið ráðinn hjer, að einróma áliti, ágætur maður til fararinnar vestur, og mun alt vera undirbúið svo ekki stendur á öðru en Alþingi taki vel í þetta mál. Þó ætla jeg ekki að leggja áherslu á þetta eingöngu í sambandi við sendingu þessa manns, en jeg vildi spyrja háttv. deildarmenn, hvort það væri ekki eins og snoppungur á landa vora, sem að fyrra bragði hafa rjett fram höndina, ef Alþingi nú kipti að sjer hendinni með styrkinn.

Jeg býst reyndar ekki við, að atkvæði falli hjer neitt öðruvísi fyrir mín orð. En jeg vildi að eins láta heyra, hvað vakað hefði fyrir þeim mönnum, sem hjer hafa stofnað til, að það er ekki hjegómasemi, heldur í fullri alvöru og þjóðræknishug. Jeg veit að hv. flutningsmaður brtt. (H. St.) ætlar ekki, að hún geti skaðað neitt, en ef hann gæti sannfærst á eitthvað af því, sem jeg hefi sagt, er tilgangi mínum náð. Jeg bið háttv. deild afsökunar á, að jeg hefi fjölyrt um þetta, en jeg vildi ekki láta undir höfuð leggjast að gera þessar athugasemdir, úr því jeg á annað borð tók til máls.

Þá vil jeg minnast á brtt. nefndarinnar á þgskj. 846, um að lækka styrkinn til skálda og listamanna. Jeg hefi ekki til fulls getað sannfærst um, að þessari háttv. deild bæri að sýna það í verkinu, að hún metti minna en neðri deild, að skáld og listamenn væru studdir. Skáldunum og bókmentunum á þessi þjóð mest að þakka af því, sem hún hefir getið sjer hrós fyrir. Og jeg get ekki lagst á móti beiðni ungra og efnilegra manna um styrk til að leita sjer mentunar og til þess að þroska hæfileika sína.

Í nefndaráliti neðri deildar var það tekið fram, að ekki væri rjett að klípa af styrknum til skálda og listamanna, og get jeg að öllu leyti tekið í sama strenginn. Að vísu er það rjett, að sumir eru dánir, sem styrksins hafa notið, en þess ber þá og að gæta, að jafnan bætast nýir menn við, sem eru þess maklegir að njóta styrks eða viðurkenningar. Enda er það beint tekið fram í nefndarálitinu, að beiðni hafi komið fram frá mörgum um styrk, sem sje mjög sárt að geta ekki veitt hann. Jeg vil því leyfa mjer að leggja til, að brtt. verði ekki samþykt, en styrkurinn látinn halda sjer.

Jeg get ekki vel skilið röksemdafærslu háttv. nefndar, að ekki sje rjett að veita verðlaun fyrir einstök listaverk, af því að við það mundu þau stíga í verði og verða dýrari að kaupa fyrir ríkið, sem sjálfsagt sje að eignist þau. Jeg tel einmitt rjett að stuðla að því, að verk listamanna hækki í verði; það er fyrsta sporið til þess, að þeim gangi greiðara á listabrautinni, þótt jeg játi það rjett vera, sem háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) sagði, að landið ætti að eignast bestu listaverk íslenskra listamanna, en þó eigi á þann hátt, að gera þau listmönnunum óverðmætari.

Mjer virðast ekki nægileg rök vera færð fyrir brtt. til þess, að jeg geti verið henni fylgjandi. Í þessu sambandi má einnig minna á það, að fjárveitinganefnd neðri deildar hefir að eins gert þennan lið 22000 kr. í alt, og eftir því er upphæð sú, sem um er að ræða að fjelli úr, ekki nema 4000 kr., og virðist mjer varla gerlegt að fara út í þá smámuni.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, þar sem ýmsir eiga eftir að taka til máls.