19.09.1919
Efri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Magnús Torfason:

Jeg hefi borið hjer fram brtt., og skal jeg fyrst minnast á, að háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) hefir heldur spyrnt á móti henni. En jeg get ekki að því gert, að mjer finst það hneyksli. þar sem hjer er að eins að ræða um eftirgjöf af láni. Það er ekki ætlast til þess, að þessi upphæð verði borguð út, heldur að hún verði skoðuð sem afborgun af láni, að upphæð 100.000 kr., sem Ísafjarðarsýsla fjekk 1917, og tekið var, jafnvel eftir beinum tilmælum þings og stjórnar, til dýrtíðarvinnu og kolanáms, til þess að bæta úr yfirvofandi atvinnuskorti og eldsneytisvandræðum. Annars skal jeg geta þess, að brtt. er ekki eingöngu fram komin vegna Ísafjarðar, heldur einkum og sjer í lagi vegna Hólshrepps. Skal jeg í því sambandi minna á, að vegna þessa kolanáms fjekk Ísafjörður og Hólshreppur minna af afsláttarkolunum en þeim í raun og veru bar, í hlutfalli við ýmsa aðra staði. Þetta er í sjálfu sjer eðlilegt, þar sem ætla mátti, að þörfin væri þar minni, eins og á stóð, en annarsstaðar, en því ósanngjarnara er það þá á hinn bóginn, ef þessir staðir fá enga linkind á móti. Jeg finn því sjerstaka ástæðu til að taka það fram, að jeg tel það sjálfsagt, að till. verði samþykt og að vítt sje óorðheldni stjórnarinnar í þessu máli.

Eins og menn vita, samþykti þingið 1917 ályktun um að skora á landsmenn að gera alt, sem í þeirra valdi stæði, til þess að afla eldiviðar. Vorið 1917 var hæstv. þáverandi fjármálaráðh. (B. K.) settur atvinnumálaráðh. Hann sýndi allmikinn áhuga á því, að koma kolanámi af stað. Hann símaði vestur, til þess að fá upplýsingar viðvíkjandi skilyrðum fyrir því að rannsaka Gilsnámuna. Var þá safnað öllum þeim upplýsingum sem hægt var að fá, og þær sendar suður Eftir að stjórnin hafði fengið þessar upplýsingar, vildi hún láta byrja á kolanámi þarna, og rjeð til að strax væri hafist handa. en bæjarstjórnin áskildi, að kolanámið væri rekið undir eftirliti sjerfróðra manna. Og jafnframt lofaði stjórnin, að greiða fyrir málinu á allan hátt. Þessi sjerfróði maður rjeð frá að brjóta kolin á þeim stað, þar sem bóndinn á Gili hafði byrjað að vinna þau, heldur bæri að byrja á alt öðrum stað. Var svo byrjað á verkinu þarna haustið 1917, en þegar komið var lítinn spöl inn, hvarf kolalagið með öllu.

Þegar svo var komið, sneri jeg mjer til hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.), og fyrir hans milligöngu kom annar maður vestur, sem verið hafði við Tjörnesnámuna og var því kunnugur kolavinslu, og athugaði og rannsakaði hann staðinn. Mistök þau, sem orðið höfðu á kolanámunni þarna, í Gilsnámunni, kendi hann ýmsum vinnubrögðum og áleit af sjerfræði sinni, að verkið hefði alls ekki átt að byrja þarna, á þeim stað, sem fyrsti sjerfræðingurinn hafði tiltekið, heldur á alt öðrum stað. Hann ljet svo byrja að vinna á þeim stað, sem hann af viti sínu fann út að væri sá rjetti staður, og árangurinn varð sá, að þar fanst ekki eitt kolablað.

Eftir þetta rjeðst verkstjórinn í að byrja á þeim upphaflega stað, sem bóndinn á Gili hafði vísað á í byrjun, og þá kom það í ljós, að þar eru kol, og þau sæmilega góð. En við þetta fálm eyðilagðist þriggja mánaða vinnutími og ærið fje, sem fór í ýmsan kostnað. Um veturinn 1918 kom sænski kolanámufræðingurinn við á Ísafirði, og var hann fenginn til þess að skoða námuna á Gili. Taldi hann hana mun betri en Tjörnesnámuna.

Þennan kostnað, sem hjer fór í súginn, álít jeg skuld, sem landið eigi að greiða, án þess að jeg þó vilji leggja hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) nokkuð til lasts.

Vinnubrögðin gengu í basli fram eftir, sökum þess, að það brást, að stjórnin útvegaði færa menn til þess að standa fyrir verkinu. Verkfærin voru ófullkomin og jöfnuðust á engan hátt við verkfæri Svíans, sem voru mörgum sinnum betri. Sprengiefni vantaði og var hvergi að fá, og alt hjálpaðist að til þess að tefja fyrir kolavinslunni, svo hún gat með engu móti borgað sig. Nettótap á þessu fyrirtæki hefir orðið 52 þús. kr., en eins og jeg hefi áður vikið að, tók Ísafjarðarsýsla 100 þús. kr. lán hjá landsstjórninni 1917, og af því er ekkert eftir nema hús, sem stendur þar út frá, sáralítils virði nú.

Jeg vona, að háttv. þingdm. taki vel þessu máli, og segi ekki eins og átti sjer stað í gamla daga, þegar bóndi varð fyrir fjárskaða: Þeir verða að missa, sem eiga.

Þá hefi jeg komið með brtt þess efnis, að fella niður 39. lið 16. gr., svo sjá má, að ætlun mín var ekki sú, að auka gjöldin í fjárlögunum, þótt hin brtt. mín verði samþykt.

Jeg tel loftflugstilraunir vera enn þá skemtun fyrir efnaða menn, og þess muni langt að bíða, að flug verði hjer að almennum notum. Við höfum engin efni á að hafa flugferðir í lagi, eða fylgjast með framförum á því sviði, og má til stuðnings því benda á, að frændþjóð okkar, Danir, hafa ekki efni á að halda við flugtækjum sínum, og afleiðingin hefir orðið sú, að flugmenn þeirra hafa drepið sig hver á fætur öðrum.

Sje jeg ekki ástæðu til að fara að styrkja þessi flutningstæki, þegar skattleggja á þá menn, sem verða að halda sjer við jörðina á ferðalögum sínum.