04.08.1919
Efri deild: 21. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1720 í B-deild Alþingistíðinda. (1508)

81. mál, sala á þjóðjörðinni Ögri og Sellóni

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Í raun og veru hefi jeg ekki annað að segja um frv. þetta en hv. flm. þess tók fram við 1. umr. Nefndin hefir athugað frv. og skjöl þau, er því fylgdu, og hefir komist að þeirri niðurstöðu, að kauptúninu sje svo mikil þörf á að fá þjóðjarðir þessar, að rjett sje, að hv. deild samþykki það.

Í nál. er bent á, að virðingaverð jarðanna muni vera of lágt ákveðið, en nefndin sá ekki ástæðu til, að þingið færi að ákveða verðið, heldur fæli það stjórninni, eins og venjulegt er, en bjóst hins vegar við, að hún mundi taka bendingar nefndarinnar til athugunar.