26.07.1919
Neðri deild: 17. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1724 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

84. mál, sjúkrasamlög

Flm. (Pjetur Ottesen):

Jeg held ekki, að langrar framsögn þurfi í þessu máli. Það er alkunna, að sjúkrasamlagafjelagsskapurinn er mjög nauðsynlegur og hefir komið að miklu liði hjer á landi, þótt hann því miður sje ekki líkt því eins útbreiddur og skyldi. Fyrir starfsemi sjúkrasamlaganna hefir stórum fækkað þeim, er hafa þurft að leita styrks annara vegna sjúkdóma.

En það hefir þegar í upphafi þótt þurfa að setja takmörk þannig, að útilokaðir væru frá samlögunum þeir menn, er alls ekki geta talist þurfa landssjóðsstyrk. Á þingi 1911, er lögin voru búin til, voru sett þau takmörk fyrir þessu, að þeir, sem hafa 1200 kr. tekjur árlega, auk 100 kr. fyrir hvert barn innan 15 ára aldurs, skuli ekki njóta styrks af þessum fjelagsskap, og enn fremur þeir, er eiga skuldlausar eignir, sem nema meiru en 5000 kr. 1915 var tekjutakmarkið fært upp í 1800 kr., en hin ákvæðin látin haldast óbreytt.

Nú hafa orðið miklar breytingar á viðskiftasviðinu. Peningar hafa fallið mikið í verði. Þess vegna kvarta nú margir menn, er nauðsynlega þurfa að vera í fjelagsskap þessum, en eru útilokaðir vegna gildandi lagaákvæða.

Jeg hefi því leyft mjer að koma fram með brtt. um að færa atvinnutakmarkið upp í 3000 kr. og eignatakmarkið upp í 10000 kr. Jeg skal geta þess, að jeg hefi borið mig saman við Georg Ólafsson cand. polit., sem er mjög kunnugur þessum málum öllum, og eru þessar tölur settar í samráði við hann, og nokkuð í samræmi við breytingar á sjúkrasamlagslöggjöf Dana. Jeg skal geta þess, að Georg sagði, að ástæða væri til að hafa þetta takmark mismunandi. Mætti vel forsvara að setja takmarkið hærra í Reykjavík. En hann kvað það örðugt að koma því við, og var þess vegna ekki horfið að því.

Jeg vænti þess nú, að menn geti verið sammála um, að nauðsyn sje á þessum breytingum, og að þeim sje stilt í hóf. Það hefir líka verið kvartað undan því, að þegar í upphafi hafi eigna- og atvinnutakmarkið verið sett of lágt og þar með ýmsir menn útilokaðir, sem nauðsynlegt væri að hefðu aðgang að fjelögunum, t. d. til þess að mynda fjelögin og hjálpa þannig fátæklingunum. Gætu því þessi ákvæði staðið í vegi fyrir stofnun sjúkrasamlaga í ýmsum hjeruðum.

Jeg held ekki, að nefnd þurfi í þetta mál. Þó er mjer það ekkert keppsmál, en jeg vænti þess, að deildin taki vel í málið og greiði því veg.