07.08.1919
Neðri deild: 27. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1729 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

113. mál, brúargerðir

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Frv. þetta er borið fram af samvinnunefnd samgöngumálanefnda beggja þingdeilda, þó að það komi fyrst fram hjer í hv. Nd. Að efni til er frv. nýmæli. Og hv. þingmenn munu skjótt sjá, hvert er aðalefni þess, sem sje, að í staðinn fyrir það, sem áður hefir átt sjer stað og viðgengist allajafna þegar um stór fyrirtæki af þessu tægi hefir verið að ræða, að þá hafa fjárveitingar til þeirra verið settar í fjárlögin, eða þá veitt með einstökum ályktunum og komið síðar í fjáraukalögin, — þá er hjer ætlast til að farinn sje annar vegur. Það er í samræmi við fyrirkomulag á símamálum, og eins og lagt var til um vitamálin í fyrra þó að það næði ekki fram að ganga. Meiningin er sú, að þetta sjeu heimildarlög fyrir landsstjórnina til að láta gera allar brýr, bæði á þjóðvegum og flutningabrautum, svo og öðrum vegum, sem hvíla á sýslusjóðum að mestu þar sem nauðsynlegt þykir. Og það er ætlast til, að tekin sjeu lán til þess að framkvæma þetta. Og að þeim lánum sje haldið fyrir utan fjárlögin að því undanskildu, að vextir og afborganir skulu tekin í þau, sem önnur gjöld ríkissjóðs. Lán þau, sem þyrfti að taka, skulu standa í 20–30 ár, en endurborgast á þeim tíma.

Þetta frv. samdi að mestu leyti vegamálastjóri, með ritsímalögin sem eru heimildarlög, til fyrirmyndar. Hann sendi síðan landsstjórninni frumvarpið, og hefir hún fallist á það og afhent samgöngumálanefndum Alþingis. Aðalatriði frv., eða fjárhagsatriðið, hefir komið til álita fjárveitinganefnda, og munu þær samþykkar því, að þessi stefna sje tekin upp. Jeg skal geta þess, að niðurröðunin á brúnum, eins og hún er í frv., er gerð af handahófi, en alls ekki í þeirri röð, sem þær skulu bygðar. Vafalaust munu sumar þær, sem síðast eru taldar, eiga að byggjast einna fyrst. Þar verður vitanlega að fara eftir því, sem vegamálastjóri ákveður og landsstjórn. Það mun vera álit hans, að hjer sjeu upp taldar allar þær brýr á þjóðvegum og flutningabrautum, sem þörf sje á, og tiltækilegt sje að gera í næstu framtíð. Auk þess er áætluð talsverð fjárhæð til að gera brýr á sýsluvegum, sem ríkissjóður kosti að mestum hluta. Enn fremur brýr á öðrum vegum, svo sem fjallvegum og hreppavegum, eftir því sem landsstjórn ákvarðar með ráðum vegamálastjóra. Hvað snertir brýr á þjóðvegum og flutningabrautum, áætlar vegamálastjóri, að þær verði bygðar á 8–10 árum. En aðrar brýr á 10–15 árum.

Samkvæmt áætlunum, sem hann hefir gert, mun kostnaður við allar þessar brýr nema alt að 1½ milj. króna, fyrir utan brýr á sýslu- og hreppavegum. Það er aðgætandi, að þessi lán, sem ætlast er til að skuli tekin samkvæmt 4. gr. frv., á vitanlega ekki að taka í einu lagi, heldur eftir því, sem hentugt þykir.

Það, sem nú skiftir mestu í þessu máli, er það, hvort þingið vill fallast á að taka upp þessa stefnu, sem hjer er farið fram á, að í staðinn fyrir að veita árlega háar fjárhæðir til brúargerða, þá sje því nú að mestu leyti haldið fyrir utan fjárlögin. Víst er um það, að ef þingið fellst á þetta, þá er mikið við það unnið.

Fyrst og fremst má telja það, að þegar ráðist er í að brúa stórár og vötn úr varanlegu efni, svo að nálega endist um aldur og æfi, þá er ekki nema sjálfsagt og eðlilegt, að útgjöldin sem af því leiða, lendi ekki einungis á þeim gjaldþegnum landsins, sem uppi eru meðan fyrirtækin eru framkvæmd, heldur komi jafnara niður. Auk þess er meiningin, og mun í reyndinni verða mun hægara fyrir þing og stjórn, að áætla ríflegri fjárhæðir til annara vegabóta undanfarin ár, þar sem allmikilli fúlgu af því hefir venjulega verið varið í brúargerðir. Dálítil fjárhæð er ætlast til að gangi til brúarsmiðju ríkisins, til þess að gera hana fullkomnari en hún nú er, svo hún geti unnið alt það, sem til þarf, og verið að verki bæði vetur og sumar. Jeg skal geta þess, að eins og nú horfir við, getur það haft talsverða þýðingu að geta haft fasta menn við smíðina, bæði vetur og sumar. Og þetta fyrirkomulag ætti einmitt að stuðla að því, að hægt sje að ráða góða og hæfa menn til verka, þar sem ákveðið er fyrirfram, hvað smíðað skuli á næstu árum.

Þar eð frv. þetta kemur frá nefnd, álít jeg, að ekki þurfi að vísa því til nefndar aftur. Að lokum vil jeg geta þess, að samgöngumálanefnd hefir gert dálitla breytingu frá því, sem vegamálastjóri lagði til. Hún hækkaði lítið eitt tillag það til brúa á sýsluvegum aðallega, sem getið er um í VII. lið í 2. gr. Sömuleiðis vill nefndin, að tillag ríkissjóðs til brúargerða, er kosta 40 þús. kr. eða meira, megi nema 3/4 hlutum, gegn ¼ hluta annarsstaðar frá. Þá getur og verið spursmál um, hvort 15 þús. kr., sem áætlaðar eru í B. í sömu grein, muni ekki vera of lítið. Samkvæmt áliti vegamálastjóra mætti það verða nokkru hærra, alt að 20 þús. kr., ef þörf þykir, og býst jeg við, að brtt. um það komi frá nefndinni síðar.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, fyr en ef andmæli koma fram.