07.08.1919
Neðri deild: 27. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (1542)

113. mál, brúargerðir

Pjetur Ottesen:

Jeg skal taka það fram, að jeg er alveg samþykkur þessu frumvarpi. Jeg álít, að sú stefna, sem þar er tekin upp, sje rjett. Það er öllum kunnugt, hver nauðsyn er á að bata vegi og brýr, þar sem góðar samgöngur eru undirstaða allra framfara. Út af VII. lið í 2. gr., sem nefndin hefir hækkað frá till. vegamálastjóra, vil jeg þó geta þess, að jeg álít, að þar sje enn of skamt farið með 50 þús. kr. Það gæti svo farið, að ein einasta stórbrú á sýsluvegi kostaði meira en þessu nemur, auk smærri brúa, sem byggja þyrfti á sama ári, og þá tel jeg varhugavert að skera þetta tillag svo við neglur sjer, sem hjer er gert. Jeg er þakklátur hv. nefnd fyrir, að hún ætlast til, að tillag til brúa, þó þær sjeu á sýsluvegum, sje hækkað nokkuð frá því, sem nú er, en álít samt sanngjarnt, að tillag úr ríkissjóði væri dálítið rífara en hjer er gert ráð fyrir, þegar um stórbrýr er að ræða. Enn fremur verð jeg að álíta, að tillag til brúa yfir 4 metra haf, alt að 10 metrum, sje of lágt áætlað 15 þús. kr., og að full ástæða sje til að hækka þann lið upp í 20 þús. kr. Jeg vildi skjóta því til hv. nefndar, hvort hún sæi sjer ekki fært að hækka þessa tvo liði.