07.08.1919
Neðri deild: 27. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

113. mál, brúargerðir

Þorsteinn Jónsson:

Út af orðum hv. þm. Borgf. (P. O.) skal jeg geta þess, að jeg var ekki sammála hv. samnefndarmönnum mínum um, hvað mikið ríkissjóður ætti að leggja til sýsluvega Jeg lít líkt á það og hv. þm. (P. O.) og hefi hugsað mjer að koma fram með brtt. því viðvíkjandi. Jeg lít svo á, að skifting sýsluvega og þjóðvega sje nokkuð af handahófi. Sumar sýslur hafa enga þjóðvegi, sem kallaðir eru, heldur að eins sýsluvegi. Þar verður því nokkurt misrjetti á, þannig að þær sýslur, sem mikla þjóðvegi hafa, fá meira fjárframlag en hinar. Nokkur bót væri á þessu ráðin, ef tiltölulega meira yrði lagt fram til sýsluvega en nú er ákveðið Sjerstaklega ætti ríkissjóður að leggja meira af mörkum þegar um stórbrýr væri að ræða. Því jeg hygg, að flestir sýslusjóðir mundu kynoka sjer við að færast í fang stór fyrirtæki, nema því að eins, að ríkissjóður tæki á sig mestan hluta kostnaðarins Auk þess er aðgætandi, að sumar brýr á sýsluvegum eru engu síður nauðsynlegar en þjóðvegabrýr, sem að öllu eru kostaðar úr ríkissjóði.