12.08.1919
Neðri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

113. mál, brúargerðir

Pjetur Þórðarson:

Með þessu frv. er ætlast til, að leidd sjeu í lög þýðingarmikil nýmæli í samgöngumálum. Það á að lögákveða það, hver skuli vera fram lagður kostnaður úr ríkissjóði til brúargerða í landinu um alllanga framtíð. Hv. frsm. (G. Sv.) gat þess áðan, að ekki hefði enn verið gerð nein veruleg grein fyrir brtt., sem fram eru komnar. Þetta er að vísu satt. En eins og hv. frsm. gat um síðar í ræðu sinni, hafa ástæðurnar fyrir brtt. á þgskj. 306 verið teknar fram í sambandi við annað mál; þær voru ræddar þegar þingsályktunartill. um vegamál var til umræðu hjer í deildinni. En ástæðurnar eru í stuttu máli þessar, að vegir þeir, sem brýr þær eru á, er hjer ræðir um, á þgskj. 306, eru þegar orðnar að miklu leyti þjóðbrautir, og verða það þó fyrirsjáanlega enn fremur, þegar fram líða stundir. Það mælir því öll sanngirni með, að meira verði lagt til þeirra en gert er ráð fyrir í núgildandi lögum. Önnur ástæða fyrir brtt. á þgskj. 306 er sú, að brýr þær, er hjer ræðir um, eru einar með þeim fyrstu, er landssjóður ljet gera, og sömuleiðis vegurinn, sem að þeim liggur, og var ver vandað til þess byrjunarverks en síðar gerðist um vega- og sjerstaklega brúagerðir.

Það er sýnilegt, að samgöngur um þær slóðir, sem vegir þessir liggja um, færast smátt og smátt í það horf, að bygging þeirra og viðhald hlýtur að færast æ meir yfir á ríkiskostnað. Hv. samgöngumálanefnd hefir og viðurkent það, að sanngirni mæli með brtt. á þgskj. 306. og er jeg henni þakklátur fyrir góðar undirtektir hennar undir brtt. og fyrir það, að hún hefir viljað taka ástæður mínar til greina. Og þar sem vegamálastjóri, sem að mestu hefir samið frv. þetta, hefir þó tjáð sig fremur hlyntan tillögu minni, þá hefi jeg bestu vonir um, að henni verði framgengt; því að jeg treysti því, að þegar hv. deild hefir athugað alla þessa málavexti, þá muni hún taka tillögunni vel og sjá sjer fært að samþykkja hana og að hún sýni henni sömu velvild sem hv. nefnd hefir sýnt henni.