12.08.1919
Neðri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

113. mál, brúargerðir

Pjetur Ottesen:

Jeg mintist á það við 1. umr. þessa máls, að jeg mundi koma fram með brtt. við 2. gr. VII., og hefi jeg nú borið hana fram, ásamt brtt. við 2. gr. B. en jeg lýsi yfir því, að síðari lið brtt. minnar tek jeg aftur, með því að hv. samgöngumálanefnd hefir fært upphæð þá, sem um ræðir, úr 15,000 upp í 20,000, og nálgast það svo mjög brtt. mína, sem fór fram á 22.000 kr., að jeg sætti mig við það.

Aftur á móti held jeg fast við fyrri lið brtt. minnar, að upphæðin 50,000 kr. sje færð upp í 80,000 kr. Hv. frsm. (G. Sv.) tók það fram, að hv. nefnd vildi ekki fallast á þessa brtt. Hvað sem þessum ummælum líður, hefi jeg þó heyrt, að einhverjar raddir hafi heyrst í samgöngumálanefndinni um það, að hækka framlagið úr ríkissjóði svipað því, sem brtt. fer fram á.

Það er vitanlegt, að nú er lagt mikið kapp á og mikið fje í vegagerðir hjer á landi. Jeg held því, að þessi upphæð, 50 þús. kr., muni hvergi nærri hrökkva til að gera þær stórbrýr, sem vantar á þessum vegum, hvað þá heldur einnig allan þann fjölda af smábrúm, sem þarf. Jeg held því naumast, að hægt sje að gera ráð fyrir afgangi árlega, svo að fje safnist saman og bætist við fjárveitingarupphæðina.

Nú er þess að gæta, að vegamálastjóri hefir gert ráð fyrir, að ekki yrði varið úr ríkissjóði meiru en tveim þriðju hlutum til þessara vegagerða. En nú hefir hv. nefnd, sem jeg er henni þakklátur fyrir, hækkað tillagið upp í þrjá fjórðu hluta. þegar um stærri brýr á vegum er að ræða, og í samræmi við það veitt 50 þús. stað 40 þús. kr. En það, sem hvatti mig til að koma með brtt., var að mjer var kunnugt um, að hv. 2. þm., N.-M. (Þorst. J.) var með till. um að hækka tillag ríkissjóðs upp í 5/6 hluta af kostnaðinum. Ef hún verður samþykt, er auðvitað nauðsynlegt að hækka jafnframt þetta 50 þús. kr. tillag. Jeg álít till. þessa hafa fullan rjett á sjer, því að það er nauðsynlegt, að ríkissjóður leggi af mörkum fje svo um muni til stórbrúa á aðalvegum og sýsluvegum, þar sem er þjóðvegur og margar sýslur nota. Jeg vænti þess vegna, að hv. deild taki vel í þessa till, svo að hún nái fram að ganga.

Þá vil jeg enn fremur þakka hv. nefnd undirtektir hennar undir till., er jeg flutti með hv. þm. Mýra. (P. Þ.), um að landsþjóðir kosti endurbygging þeirra brúa, sem bygðar eru á flutningabrautum og þjóðvegaköflum. Jeg skildi hv. frsm. svo, að hann tæki vel í hana og væri með henni, og vona jeg, að hv. deild geri það sömuleiðis. Mjer þykir vænt um, að nefndin gerir þetta, og álít jeg, að hún bæti með því töluvert upp þá stóru yfirsjón, er hún lagðist á móti till. um að rannsaka, hvort ekki væri rjett að ljetta viðhaldi flutningabrauta af sýslunum.

Þá held jeg, að það sje af gleymsku, að ein brú, á Andakílsá, hefir fallið burtu úr upptalningunni í frv. Þar eru taldar tvær brýr í Borgarfirði, á Grímsá og Reykholtsdalsá. En það stendur eins á með Andakílsá og þessar ár, að hún er oft mikil og ill yfirferðar. Jeg held, að henni hafi verið slept af gleymsku, og mun ef til vill tala við vegamálastjóra um það, og þá flytja brtt. við 3. umr.