12.08.1919
Neðri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1748 í B-deild Alþingistíðinda. (1557)

113. mál, brúargerðir

Pjetur Ottesen:

Jeg skal vera stuttorður, en út af hnútunum, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sendi til mín, get jeg ekki stilt mig um að segja fáein orð. Hann hafði það sem aðalviðbáru gegn brtt. minni og hv. þm. Mýra. (P. Þ.), að við værum með henni að ljetta útgjöldunum af einum stað, þ. e. Borgarfirði. En það er alls ekki verið að ljetta neinum kostnaði af neinum einun stað, því vegamálastjórinn á að ákveða alt um brýrnar, og það ætti að vera ástæðulaust að brigsla honum um hreppapólitík, þó hv. þm. (G. Sv.) sje að væna okkur þess, að við látum stjórnast af henni. En mundi ekki vera ástæða til að væna hv. þm. (G. Sv.) um hreppapólitík, því svo virðist, sem hann vilji, að mikið af fjenu komi niður í Skaftafellssýslu. Annars er það alkunnugt um þennan hv. þm. (G Sv.), að hann er haldinn þeim veikleik, að þykjist ætíð hafa rjett fyrir sjer, þótt rök og heilbrigð skynsemi sýni það gagnstæða. En ef til vill telur hann það sinn mesta styrkleik.