18.08.1919
Efri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

113. mál, brúargerðir

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Jeg þykist vita, að hv. þm. hafi kynt sjer frv., svo að ekki þurfi langrar útlistunar við.

Frv. er samið af vegamálastjóra landsins eftir undirlagi nefndarinnar og í samráði við hana eftir rækilega athugun; þær breytingar, sem nefndin gerði, voru að eins lítilfjörlegar.

Hjer er um stórt nauðsynjamál að ræða, og er svipað fyrirkomulag í frv., sem í vegalögunum og símalögunum, að brýrnar eru settar í kerfi eftir svipuðum reglum.

Eitt nýmæli er og í frv., mjög eðlilegt, en það er heimild handa stjórninni til þess að taka lán til að koma brúnum upp sem fyrst. Gildar ástæður eru til þess að lán verði tekið til þess að hrinda þessu nauðsynjamáli áfram; það er sem sje ranglátt, að þeir, sem nú lifa, beri einir þungann af þessum framkvæmdum, heldur beri hann einnig eftirkomendurnir, sem njóta þeirra. Það er og athugavert í þessu sambandi, að brýr heimta ekki eins mikinn vinnukraft og vegagerðir; til brúargerðanna mun ekki þurfa nema einn nokkuð stóran flokk, svo að lítið mundi skerðast sá vinnukraftur, sem vjer annars þurfum til atvinnuveganna. Með lántökunni er það og unnið, að fá má mikið efni í einu og ódýrra. Og hvað sem segja má um aðrar samgöngubætur, þá er það þó víst, að jafnan er hægara að leggja vegarspottana eftir að brýrnar eru komnar.

Jeg þykist viss um, að frv. verði vel tekið, enda er það samþykt í e. hlj af samvinnunefnd beggja deilda í samgöngumálum.